Klukkan níu á sunnudagsmorgnum er hinn rúmlega tveggja ára Alexander Emil kominn í Real Madrid búninginn sinn. Um tíu næ ég í hann og við drífum okkur út í íþróttahús. Stundum kemur amma hans með, stundum frændur.
Það eru nokkur atriði varðandi fjölskyldutímana á sunnudagsmorgnum að Varmá sem ég er sérstaklega hrifinn af. Í fyrsta lagi eru þessir tímar ókeypis fyrir fjölskyldur með börn, í öðru lagi þarf ekki að skrá sig sérstaklega í þá og í þriðja lagi snúast þeir um frelsi innan ramma.
Ljúfmennin Þorbjörg, Árni Freyr, Ólafur Snorri og Íris Dögg, sem sjá um þessa tíma, raða upp fjölbreyttum búnaði og boltum og krakkarnir og við sem fylgjum þeim getum skoppað frjáls á milli og prófað alls konar hreyfingu.
Minn maður byrjar alltaf á því að hlaupa út í rimlana, klifrar upp í topp og kíkir yfir salinn. Klifrar svo til hliðar, eins langt og hann kemst. Hann er hrifnastur af rimlunum undir skortöflunni, bak við hlífðarnetið. Svo nær hann sér í bolta og hleypur með hann út um allan sal. Prófar aðeins bandýkylfurnar. Klifrar upp á hestinn og stekkur í mjúku dýnuna. Fær afa til að lyfta sér upp svo hann geti troðið í körfuna. Finnur mark og sparkar fótbolta í það – sorrý Elísa … Hleypur meira, finnst gaman að láta elta sig. Fer aftur í rimlana, þeir eru uppáhaldið. Svona rúllum við í um það bil 45 mínútur, þá er hann orðinn góður. Hann stýrir ferðinni, ég laumast til að sýna honum nýjar þrautir sem hann prófar og metur. Svo röltum við upp í stúkuna í sal 3. Honum finnst gaman að príla niður og upp háu tröppurnar og reynir að stelast til að klifra upp handriðið líka. Þetta er frábær samverustund hjá okkur, styttist í að litli bróðir hans geti farið að koma með. Takk fyrir okkur!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. nóvember 2023