Minna er meira

Ég kynntist Steve Maxwell í Danmörku fyrir rúmum 17 árum á þriggja daga námskeiði fyrir ketilbjölluþjálfara. Hann var einn af aðaþjálfurunum og stóð heldur betur undir væntingum, frábær þjálfari og fyrir utan æfingasalinn skemmtilegur og lifandi karakter sem hefur gert og upplifað margt í tengslum við íþróttir, æfingar og lífið sjálft. Við mynduðum sterk tengsl þarna í Kaupmannahöfn og grunn að vináttu sem hefur haldist síðan.

Eitt af því sem mér finnst áhugaverðast við Steve er að hann hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að læra meira, bæði um æfingar og svo annað sem hann áhuga á. Hann er ekki fastur í einni aðferðafræði, prófar sig áfram, fer á námskeið hjá öðrum, les mikið og horfir á viðtöl við þá sem honum finnst vera að gera áhugaverða hluti og ná árangri með þá. Steve fylgist ekki bara með því sem er að gerast í dag, heldur stúderar líka það sem gömlu meistararnir lögðu áherslu á.

Steve er mín helsta þjálfarafyrirmynd og hefur alltaf verið. Hann leggur í dag mikla áherslu á hvíld og endurheimt. Styrktaræfingar sem hann setur sínu fólki fyrir eru stuttar, einfaldar en mjög krefjandi. Ein styrktaræfing á viku er nóg. Minna er meira, ef við hlustum á skilaboð líkamans og förum eftir þeim.

Eftir margra ára hlé er ég aftur kominn í einkaþjálfun hjá gamla meistaranum. Fyrstu vikurnar eru að baki, en við erum að vinna að ákveðnu langtímamarkmiði. Styrkur, liðleiki, þol, tækni, næring, hvíld, öndun og ýmislegt fleira kemur við sögu í þjálfuninni og eins og alltaf þegar ég er í miklu sambandi við Steve er ég að læra eitthvað nýtt alla daga.

Þann dag sem við höldum að við kunnum og vitum allt, byrjar að fjara undan okkur. Höldum áfram að vilja læra og fræðast, það er lykill að betra lífi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. nóvember 2023