Síðustu daga hef ég verið að hugsa um árin tvö sem ég vann við neyðarvarnir hjá Rauða krossinum. Þetta var mjög lærdómsríkur tími og ég bý enn að ýmsu sem ég lærði á þessum árum.
Eitt af því er hvernig maður bregst við erfiðum aðstæðum. Eldgos, annars konar náttúruhamfarir og alvarleg slys af ýmsum toga var það sem við vorum mest að vinna með, en viðbrögðin gilda um allt mótlæti – sama hversu stórvægilegt eða smávægilegt það er.
Og hvernig bregst maður við mótlæti og krefjandi aðstæðum? Af rósemi og yfirvegun. Það er lykilatriði. Neyðarvarnir snúast annars vegar um að vera eins vel undirbúinn fyrir erfiðar aðstæður og maður getur verið og hins vegar um að bregðast við þeim aðstæðum sem koma upp á yfirvegaðan og skipulagðan hátt. Teikna upp hvað er hægt að gera í stöðunni og velta fyrir sér mögulegum sviðsmyndum. Velta fyrir sér hvaða möguleg áhrif hver sviðsmynd hefur í för með sér og hvaða mögulegar afleiðingar ákvarðanir okkar munu hafa.
Það er sömuleiðis mikilvægt að láta ekki gremju, reiði eða sjálfsvorkunn ná tökum á sér. Af hverju ég? Af hverju þurfti hann/hún að gera þetta? Alltaf þarf eitthvað svona að koma fyrir mig. Og svo framvegis. Við þekkjum þetta öll, að detta í þennan gír. En hann hjálpar engum, leysir ekki úr neinu, gerir ekkert betra.
Sama hvað aðstæður eru erfiðar, virðast jafnvel óyfirstíganlegar, þá er alltaf einhver leið út úr þeim. Jafnvel leiðir. Besta leiðin til að koma auga á þessar leiðir er að nota aðferðafræði neyðarvarnanna, setjast niður og skrifa eða teikna upp stöðuna og hvaða möguleikar eru í henni. Velja svo þá leið sem líklegust er til árangurs, taka ákvörðun og standa með henni. Lífið heldur áfram, við höfum miklu meiri áhrif á hvernig það þróast en við höldum.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. mars 2023