Austurríska gulrótin

Um 20 Mosfellingar og reykvískur vinur þeirra ætla að taka þátt í skemmtilega krefjandi Spartan Race þrautahlaupi í Kaprun í Austurríki í september.

Við erum byrjuð að æfa fyrir þrautina, saman og sitt í hvoru lagi. Það er ótrúlega gaman að hafa eitthvað ákveðið að vinna að, eitthvað sem hvetur mann til dáða. Það er langt í september, vorið á eftir að koma fyrir alvöru og sumarið sömuleiðis, en það er bara betra. Það gefur okkur kost á að undirbúa okkur vel og byggja upp þol, styrk og getu til að takast á við þrautirnar skref fyrir skref.

Fellin eru vinir mínir og ég nota þau mikið í undirbúningnum. Kaprun er skíðasvæði og brautin verður brött og hækkunin talsverð. Sem er bara gaman. Ég er búinn að fara nokkrar fellaferðir síðustu vikur. Fyrst var allt frosið og grjóthart en núna síðustu daga hefur færðin verið blaut og drullug. Það er miklu betra, þótt ekki allir hafi skap fyrir mikla og djúpa drullu í fellaferðum (sæl Vala mín :).

Þegar maður hefur eitthvað krefjandi að stefna að, verður allt miklu einfaldara og skemmtilegra. Rigning, rok eða drulla er bara styrkjandi. Kemur líkama og sál í betra stand fyrir alvöruna. Því verra á undirbúningstímabilinu, því betra. Ég myndi ekki vilja vera léttklæddur á bretti inni í hlýjum og kozý sal að undirbúa mig fyrir austurrísku alpana.

Það er gaman að segja frá því að við í undirbúningsnefndinni fyrir BetterYou KB þrautina í Mosfellsbæ í maí erum nánast öll að fara til Kaprun. Þrautirnar í KB þrautinni og pælingarnar á bak við þær hafa margar kviknað í Spartan Race hlaupum sem við höfum tekið þátt í. Okkar nálgun er þó öðruvísi á margan hátt og fellin okkar mosfellsku eru í lykilhlutverki. KB þrautin verður 20. maí, það er enn pláss fyrir þig!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. apríl 2023