Þú ert ekki of gömul/gamall

Ég varð 53 ára á dögunum. Ekki að það skipti miklu máli, þannig séð. Ég á mjög erfitt með að átta mig á lífaldri fólks almennt. Sumir verða fullorðnir strax – Birgir Ármannsson, alþingismaður, er skýrasta dæmið, hann hefur verið 50 ára síðan hann var 13 ára og verður örugglega 50 ára út lífið. Fann sína fjöl fljótt og hefur haldið sig við hana síðan. Aðrir fullorðnast aldrei, Óli vinur minn Auðuns er gott dæmi um það, en hann er og verður alltaf 17 ára, sama hvað lífið bætir mörgum strikum á hann.

Ég pæli hinsvegar mikið í heilsuhreysti fólks og mér er mjög umhugað um að fólk almennt passi vel upp á sig og sína. Almennt heilsuhreysti er verðugt markmið allra samfélaga. Þá getum við notað orku, tíma og peninga í að hjálpa þeim sem virklega þurfa á aðstoð og umhyggju að halda í stað þess að byggja bákn (heilbrigðiskerfi) sem vex stjórnlaust af því allt of margir eru ekki heilsuhraustir.

RÚV birti í síðustu viku frétt um rannsókn um krabbamein af völdum mengunar í vatnsbólum á Reykjanesskaganum vegna veru varnarliðsins þar. Niðurstöðurnar voru sláandi. Á 55 ára tímabili (1955-2010) má rekja 4 krabbameinstilvik til mengunar en til samanburðar greindust tæplega 200 einstaklingar í Reykjanesbæ með krabbamein af völdum reykinga eða ofþyngdar á milli 2011 og 2020. Næstum 50 sinnum fleiri á rúmlega 5 sinnum styttra tímabili. Lífstílssjúkdómar trompa þarna mengun margfalt.

Þetta er svo skýrt. Heilsan er miklu meira í okkar eigin höndum en við áttum okkur á.

Eitt af því sem skiptir miklu máli hvað heilsuhreysti varðar er að halda áfram að þora að prófa hluti. Ekki vera gunga. Ekki segjast vera of gömul/gamall fyrir hitt eða þetta. Það er alltaf leið, sama hvaða hreyfingu um ræðir. Og það skiptir svo miklu máli varðandi sjálfshvatninguna að stunda hreyfingu og heilbrigðan lífstíl sem maður nýtur og hefur gaman af.

Ég fékk uppblásanlegt bretti í 53 ára afmælisgjöf frá stórfjölskyldunni minni. Við hjónin skelltum okkur í sunnudagsbíltúr í gær og prófuðum það á Þingvallavatni. Þvílík hamingja! Útivera, súrefni, samvera, ný hreyfing, vatnið, umhverfið, maður lifandi hvað þetta gaf okkur mikla orku.

Stay alive!