Mikilvægar minningar

Hvað sem okkur finnst um Facebook þá mega Zuckerberg og vinir eiga það að þau hjálpa okkur að rifja upp góðar minningar. Myndin sem fylgir þessum pistli birtist þannig á Facebooksíðunni minni í morgun og hún kallaði fram ekki eina heldur margar góðar minningar.

Myndin er af næst yngsta syni okkar á sinni fyrstu fótboltaæfingu í Buenos Aires árið 2009. Ákveðinn á svip í Arsenalbúningnum sínum. Hann er enn Arsenal maður núna þrettán árum síðar og enn á kafi í fótboltanum.

Við héldum úti bloggsíðu á meðan við ferðuðumst um heiminn 2008/2009 og myndin frá Zuckerberg fékk mig til að kíkja á þetta blogg og rifja upp fleiri minningar frá Argentínu. Fann meðal annars þessa færslu frá Völu, sem hafði tekið að sér að skipuleggja ferðalagið frá Buenos Aires:

Ég var síðan komin með planið, við förum með rútu niður eftir Argentínu, tökum flugvél frá El Calafete, sem er lítill bær, fljúgum til Ushuaia og verðum þar í tvo daga. Það sem er sérstakt við Ushuaia er að það er syðsta byggða ból jarðar!!! Við þurfum þá loksins að nota þessi hlýju föt og hettupeysur sem við höfum dröslað með okkur yfir hálfan heiminn. Gaui samþykkti flugmiðana, leist á hugmyndina um að fara alla leið suður, en þegar ég hélt áfram, vildi náttúrulega sýna lit og standa undir ábyrgðinni “skipuleggjari”, þá leit hann upp úr tölvunni, með klósettpappírinn í nefinu og stundi rámri röddu: “þú bara finnur leiðir til að eyða og eyða peningum… hrmmff”. Ekki alveg í ferðagírnum kallinn, en þetta var nú flensan að tala. Í dag líður honum mun betur og bólar ekki á skapvonsku, hehe.

Mikið er ég þakklátur, svona eftir á, fyrir að hafa ekki röflað meira yfir skipulaginu – ferðin suður á bóginn var frábær – og sömuleiðis fyrir að eiga svona þolinmóða og skemmtilega konu sem lætur ekki flensupirr slá sig út af laginu 🙂

Njótum ferðalagsins!