Fótbolti eða baksund?

Er fótboltinn að éta allar aðrar íþróttir? Eru of margir að æfa fótbolta og of fáir að æfa sund? Þetta eru góðar pælingar sem eiga rétt á sér og var kastað út í kosmósið af góðum Mosfellingi í síðustu viku. Ég hef sjálfur áhuga á mörgum íþróttum og hef prófað ýmsar. Byrjaði að æfa fótbolta, svo bættist körfuboltinn við og þessar íþróttir héldu mér uppteknum lengi vel. Ég hef prófað að æfa hokkí (á grasi), sjálfsvarnaríþróttir, klifur og alls konar líkamsrækt með misjöfnum árangri. Náði sem dæmi aldrei hokkíinu almennilega þrátt fyrir þokkalegustu viðleitni.

Mín skoðun varðandi vangavelturnar um að vinsældir fótboltans séu á kostnað annara íþróttagreina, er sú að krakkar og flestir fullorðnir sækja í að æfa það sem þeim finnst skemmtilegt. Flóknarara er það ekki. Og það er mikilvægara í þeirra huga að taka reglulega þátt í skemmtilegri hreyfingu í góðum félagsskap með jafningjum sínum en að verða Íslandsmeistari í íþrótt sem þau hafa ekki gaman af því að æfa.

Fótbolti er í dag vinsælasta íþróttagreinin hjá fjölgreinafélaginu Aftureldingu samkvæmt iðkendatölum félagsins fyrir árið 2021 en fimleikadeildin er ekki langt undan og virðist ef eitthvað er vaxa hraðar en fótboltinn. Aðrar greinar eins og t.d. körfubolti eru í hröðum vexti, sem er frábært. Það er jákvætt fyrir heilsueflandi bæjarfélag eins og Mosfellsbæ hversu margir vilja æfa íþróttir hjá aðal íþróttafélagi bæjarins. Það fjölgar líka í sunddeildinni, en fækkar milli ára í frjálsum íþróttum, karate og í hjóladeild Aftureldingar.

Það eru forréttindi að geta valið á milli ellefu skipulagðra íþróttagreina eins og krakkar í Mosfellsbæ geta í dag. Fyrir mér skiptir ekki máli hvaða íþróttagreinar krakkar vilja æfa, aðalmálið er að þau finni það sem þeim finnst skemmtilegast og að þau mæti reglulega. Það styrkir þau og eflir, líkamlega, andlega og félagslega.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. október 2022