Athygli

Við fórum hjónin í kaupstaðarferð í síðustu viku. Fórum út að borða og í leikhús. Níu líf var mögnuð upplifun. Halldóra Geirharðs var sem andsetin og það var fallegt og sterkt að fá að syngja með okkar eigin Halli Ásgeirs og systkinum hans á sama degi og móðir þeirra kvaddi.

Það vakti athygli okkar í þessari stuttu en góðu ferð hvað við mannfólkið erum orðin miklir símaþrælar. Pör saman úti að borða, annað eða bæði í símanum. Á leiksvæðinu voru krakkar að leika sér, foreldrarnir hoknir yfir símanum á meðan. Fyrir framan okkur í leikhúsinu, sátu foreldrar með unglingsdóttur. Mamman lagði kapal í símanum á meðan hún beið eftir að sýningin byrjaði, rétt náði að slökkva áður en Dóra æddi inn á sviðið. Reif svo strax upp símann þegar hléið kom og hélt áfram með kapalinn alveg þangað til sýningin byrjaði aftur. Dóttirin vafraði í gegnum Instagram í sínum síma. Pabbinn horfði fyrst aðeins út í loftið en fór svo að senda einhverjum einhver skilaboð. Á leiðinni í höfuðstaðinn sáum við marga bílstjóra rífa upp símann á ljósum, nýta tímann, og auðvitað marga líka vesenast eitthvað í símanum á meðan þeir keyrðu.

Það er ekki aftur snúið með símana. Þeir dekka svo stóran hluta af lífinu og athöfnum okkar í dag. Samskipti, upplýsingaöflun, skipulag, tungumálanám, bankaviðskipti, fréttir, afreying, myndavél, upptökutæki – allt þetta og miklu meira til er í símanum okkar.

En við getum sjálf tekið okkur taki. Hætt vera uppvakningar og þrælar. Hætt að láta þetta brjálæðislega öfluga apparat stýra lífi okkar í staðinn fyrir að nýta það til þess góða sem það býður upp á. Hætt að leggja símakapla, skrolla í gegnum Instagram og senda skilaboð þegar við höfum tekið frá tíma til að njóta samveru og alvöru upplifana sem gefa okkur svo miklu meira. Verið lifandi, með athygli.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. júní 2023