Ég hitti gamlan félaga í vikunni. Við höfum þekkst lengi. Ég man ekki alveg nákvæmlega hvernig við kynntumst, rámar í að það hafa verið í bekkjarpartýi í MS en þáverandi kærasta hans (og núverandi eiginkona – svo ég vitni í Leibba okkar gröfu) var með mér í ansi hreint skemmtilegum bekk. Þessi félagi er einn sá seiglaðasti sem ég þekki. Lætur ekkert koma sér úr jafnvægi og er ætíð trúr sínum hugmyndum og verkefnum.
Mér finnst þetta aðdáunarverður eiginleiki og ég hef fylgst með honum og einu af hans áhugaverðasta verkefni úr fjarlægð í mörg ár. Þetta verkefni og hugmyndafræðin á bak við það var langt á undan sinni samtíð og ég var svo heppinn að fá að taka þátt í því á sínum tíma að fá að vinna við það í nokkra mánuði. Hittingurinn í vikunni snérist einmitt um þetta verkefni og nú 30 árum eftir að ég kynntist því sé ég mikla möguleika á hvernig hægt er að nýta aðferðafræðina sem það snýst um í íþróttaheimum í dag.
Ég heyrði í öðrum góðum félaga í vikunni. Hann var að benda mér á áhugavert heilsueflandi framtak í bæjarfélagi á höfuðborgarsvæðinu og hvatti mig til að heyra í þeim af því mínar hugmyndir og þeirra færu svo vel saman.
Mér þykir ótrúlega vænt um þessa félaga mína og marga aðra sem ég hef kynnst í gegnum mitt ferðalag í gegnum lífið. Ef ég ætti að gefa yngstu kynslóðum þessa lands eitt ráð í dag væri það að koma vel fram við alla og hafa raunverulegan áhuga á því sem aðrir eru að fást við. Hlusta og fræðast um þeirra sýn á heiminn og þeirra viðfangsefni í lífinu. Það er bæði gefandi og áhugavert og er líklegt til þess að byggja upp góð tengsl sem endast út lífið.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. október 2022