Ögraðu þér

Ég er búinn að lesa þrjá pistla um nýja árið, skrifaða af þekktum pennum Fréttablaðsins og Moggans. Allir pistlarnir snúast um þá algengu hjarðhegðun okkar Íslendinga að rífa sig í gang eftir allsnægtadesember þegar lífið snýst um að njóta og leyfa sér allar mögulegar og ómögulegar freistingar, sérstaklega þær sem hafa eitthvað með mat og drykk að gera.

Einn pistlahöfundurinn, ekki sá léttasti en skemmtilega kaldhæðinn og launfyndinn penni, gerir grín að veganúar og um leið þeirri staðreynd að flestir gefast upp á matar- og hreyfingarátaki áður en janúar er liðinni. Annar pistlahöfundur segist vera hætt að reyna að nota byrjun nýs árs í að skafa af sér þau fimm kíló sem hún bætir alltaf á sig í desember. Ætlar núna að fara sátt og sæl inn í nýja árið, fimm kílóum þyngri. Sá þriðji segir að allt snúist alltaf um mat á Íslandi, að svoleiðis þurfi það ekki að vera, en hann ætli samt ekki að standast freistingar eins og feitar kótilettur þegar þær bjóðast honum.

Ég held að þessir pistlar hafi átt að vera hvetjandi og kannski eru þeir það fyrir einhverja. Ég les úr þeim uppgjafarskilaboð. Hættið að reyna. Hættið að reyna að lifa heilbrigðu og lífi. Hættið að reyna að breyta og bæta. Gefist upp fyrir öllum freistinginum og gefið skít í afleiðingarnar. Leyfið ykkur að þyngjast ár eftir ár, leyfið ykkur að verða oftar veik og viðkvæmari fyrir sjúkdómum, leyfið ykkur að vera þreytt og hætta að geta hluti, leyfið ykkur allt sem ykkur langar í.

Ég er hinsvegar sammála pistlahöfundum um að brjálæðisátak í janúar (og svo aftur eftir sumarsukkið í september) skilar sjaldnast langtímaárangri. Hvað þá, hver er leiðin? Hún er einföld, borðaðu hollt og gott – ekki of mikið – allt árið. Hættu að borða óhollt sama hvaða mánuður er. Málið leyst.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. janúar 2020

Fólkið mitt

Þegar maður spyr fólk hvað skipti það mestu máli í lífinu nefna flestir fjölskylduna og/eða nána vinir sem eitt af því mikilvægasta. Fólkið manns.

Samt er raunveruleiki margra sá að þeir forgangsraða lífinu þannig að fólkið sem skiptir þá mestu máli verður útundan. Mikil vinna og stundum tímakrefjandi áhugamál eru á undan í forgangsröðinni.

Fólkið manns er yfirleitt nánasta fjölskylda, en ekki alltaf. Fjölskylduaðstæður eru alls konar og í sumum tilvikum mynda góðir vinir þennan mikilvæga hóp, fólkið mitt. Hópinn mynda einstaklingar sem standa með þér í blíðu og stríðu, taka þér eins og þú ert, bakka þig upp þegar á þarf að halda og fagna með þér á gleðistundum. Mér sjálfum líður best þegar ég er að gera eitthvað með mínu fólki, langbest finnst mér þegar við náum að sameina ferðalög, hreyfingu og samveru.

Ég upplifði svoleiðis stund um þar síðustu helgi. Þá fórum við hjónin með alla okkar syni á Strandir í leitir og réttir. Við fengum frumburðinn (sem er enn ekki nema 22ja ára þrátt fyrir að einhverjir haldi að hann sé eldri) og kærustuna hans heim frá Danmörku og fórum með allt gengið okkar norður. Þetta var frábær helgi, mikið labbað, sund og nátturupottur alla daga og góð samvera.

Um nýliðna helgi fengum við svo afa og ömmur og tengdafjölskylduna í heimsókn til okkar. Súpa, kaka og skemmtilegt spjall.

Ég er að reyna að bæta mig í þessu, hef stundum verið í þeim hópi sem forgangsraðar í misræmi við eigin gildi. En finn skýrt þegar ég forgangsraða lífinu í samræmi við það sem mér finnst mikilvægast hvað það gefur mér mikið.

Svo má ekki gleyma fólkinu sem ekki tilheyrir innsta kjarnanum, en er samt hluti af stóra fólkið mitt menginu. Við erum félagsverur mannfólkið, þurfum á hvoru öðru að halda til að líða vel.

Úti að leika

Við „týndum“ yngsta syni okkar í gær. Eða þannig. Hann stökk út úr húsi um miðjan dag, hafði verið að leika inni með vini sínum. Kallaði til okkar að þeir væru farnir út að hjóla. Allt í góðu lagi með það. En svo fór okkur að lengja eftir þeim vinunum. Þeir höfðu ekkert gefið upp um hvert leið lægi eða hvað þeir ætluðu að vera lengi.

Skipulagður var leitarflokkur, við keyrðum um hverfið, löbbuðum um nágrennið og heyrðum í foreldrum vina. Það skilaði litlu. Ég hjólaði síðan nokkrar leiðir sem ég hef hjólað með þeim týnda. Ég fann hann að lokum, skælbrosandi og glaðan, hoppandi á ærslabelgnum á Stekkjarflötinni. Þarna var frábær stemning, seinni partinn á sunnudegi. Fullt af krökkum að leika sér í bland við fjölskyldur með minni börn. Allir í góðum fíling.

Það var ótrúlega gaman að upplifa þetta, þessa góðu orku. Og mig langar að hrósa bæjaryfirvöldum fyrir að koma á fót lýðræðisverkefninu „Okkar Mosó“ en ærslabelgurinn vinsæli er einmitt tilkominn á Stekkjarflöt vegna þess að við, íbúar bæjarins, kusum hann þangað.

Það er frábært að við fáum að taka þátt í að skapa umhverfi okkar í beinum kosningum og enn betra að það sem verður ofan á í kosningunum sé notað svona mikið. Ég held að skíða- og brettaleiksvæðið í Ullarnesbrekku sem fékk líka góða kosningu verði tilbúið í vetur, hlakka sjálfur mikið til að prófa það.

En aftur að týnt og fundið sögunni, við feðgar tókum rólegt og gott spjall um mikilvægi upplýsingagjafar og hjóluðum svo saman heim. Hann hafði gjörsamlega týnt tímanum, það hafði verið svo gaman hjá þeim vinum að hjóla, stússast og svo hoppa á belgnum. Og er það ekki akkúrat það sem við erum alltaf að kalla eftir, að börnin okkar séu glöð úti að leika sér með vinum sínum.

Íþróttaþorpið

Ég hitti Yuri Marcialis í Cagliari á Sardiníu í síðasta mánuði. Hann var í forsvari fyrir nokkrum árum fyrir spennandi verkefni í borginni. Það kallast „Íþróttaþorpið“ og er hluti af mikilli heilsueflingu og íþróttaeflingu sem átt hefur sér stað í borginni síðustu ár. Það snýst um byggja upp svæði þar sem almenningur og atvinnumenn geta komið og æft sína íþrótt, nánast sama
hver hún er. Yuri labbaði með mér í gegnum svæðið og sagði mér frá
verkefninu, hver staðan væri í dag, hvað væri búið að gera og hvað væri
fram undan. Það athyglisverðasta við verkefnið „Íþróttaþorpið“ að mínu
mati voru ekki mannvirkin sjálf eða aðstaðan, heldur heildarmyndin.

Þorpið á nefnilega að standa undir nafni. Ámilli mannvirkjana er verið að
hanna og byggja torg, kaffihús, matsölustaði og félagsaðstöðu. Aðstöðu fyrir alla þá sem koma í þorpið til þess að hreyfa sig. Aðstöðu þar sem fólk getur spjallað við aðra, fengið sér hollt og gott að borða, slakað á, prófað aðrar íþróttagreinar eða hreyfingu. Í stað þess að koma bara á sína æfingu og drífa sig heim.

Ég hugsaði allan tímann á meðan við röltum um íþróttaþorpið í Cagliari
hvað það væri geggjað að koma upp svona íþróttaþorpi á Varmársvæðinu
okkar í Mosfellsbæ. Við höfum plássið, við höfum þróttaaðstöðuna, en það sem okkur vantar upp á er að tengja þetta saman á þann hátt að fólk staldri við, ræði málin, tengist betur.

Hinn heilsueflandi Mosfellsbær gæti orðið fyrsta bæjarfélagið á Íslandi sem byggði íþrótta- og heilsuþorp. Þetta myndi hvetja enn fleiri íbúa bæjarins til þess að hreyfa sig og borða hollan og góðan mat – sem að sjálfsögðu yrði boðið upp á í þorpinu okkar.

Síminn er opinn, ég er til í að segja öllum sem vilja hlusta betur frá því hvað er að gerast í Cagliari. Lítilli borg með heilsueflandi drauma.

Gott að ganga

Ég hef skrifað nokkra pistla í flugvélum. Hér er einn í viðbót. Er núna í flugvél á leiðinni frá Róm til London, þaðan fljúgum við eftir mjög stutt stopp heim til Íslands. Höfum verið á ferðalagi í fimm mánuði.

Það verður gott að koma heim í íslenska sumarið. Ferðalagið hefur verið frábært en Ísland er líka frábært.

Ég rakst á viðtal við hinn norska Erling Kagge í flugblaði British Airways. Erling vinur minn – þekki hann reyndar ekki en sé fyrir mér að hitta á hann fyrr en síðar – er rithöfundur sem elskar að labba. Hann var að gefa út bókina, “Walking: One Step at a Time“ og samkvæmt viðtalinu talar hann í henni um allt það góða við að labba. Labba í vinnuna, í búðina, á Norðurpólinn og allt þar á milli. Hann talar um hvað tíminn líður öðruvísi þegar maður gengur, hvað maður meðtekur umhverfið miklu betur, hvað maður eykur sköpunargáfuna og skilning á lífinu með því að labba. Ganga er frábært mótvægi við hraðann í lífi okkar í dag, segir Erling.

Ég er á hans línu. Elska að labba. Er síðustu vikur og mánuði búinn að labba marga kílómetra á hverjum degi og finn sterkt hvað það gerir mér gott. Mér og mínum. Mér hefur nefnilega tekist að draga fjölskylduna með í labbið, svona oftast. Það er margt rætt á göngunni, orkan er öðruvísi en þegar maður ferðast á meiri hraða. Það er reyndar aðeins öfugsnúið að skrifa um hvað það er dásamlegt að ganga og fara þannig á rólegum hraða á milli staða þegar maður situr í flugvél sem færir mann á ofurhraða milli landa. En það er erfitt að labba
frá Róm til Íslands, eiginlega ógerlegt, og ég tími hreinlega ekki að missa af íslenska sumrinu við að reyna það.

Sjáumst hress á röltinu!

Mosó eða Cagliari?

Eitt af því sem ég spái mikið í þegar ég ferðast er umhverfið. Hvernig umhverfi bæjar- eða sveitarfélagið sem ég er staddur í býður íbúum sínum upp á. Sum sveitarfélög eru þannig að mann langar lítið að koma þangað aftur. Önnur heilla mann strax. Núna er ég staddur í Cagliari á Sardiníu. Hér er margt til fyrirmyndar. Göngu- og hjólastígar eru víða og vel afmarkaðir. Það er mikið af almenningsgörðum, stórum og smáum. Við duttum niður á einn í gær, þar voru háværir og litskrúðugir páfuglar á vappi innan um gesti garðsins. Hér er mikið af íþróttamannvirkjum og borgin var kjörin Íþróttaborg Evrópu árið 2017.

Af öllum þeim stöðum sem við höfum sótt heim á ferðalaginu okkar höfum við hvergi séð eins marga íþróttasinnaða á götum úti. Fólk á öllum aldri. Bókstaflega. Það eru allir að hreyfa sig eða á leiðinni í hreyfingu. Fólk lítur vel út, ferskt að sjá og fáir í yfirvigt. Nánast engin börn eru hér of þung, ekki þau sem við höfum rekist á allavega. Það eina sem maður gæti kvartað yfir er aðgengið, gervigrasvellir eru til að mynda yfirleitt læstir og bara aðgengilegir þeim sem eru skráðir félagar hjá þeim sem reka viðkomandi völl. Þar stöndum við Mosfellingar mörgum skrefum framar, það er ómetanlegt fyrir okkar krakka og fullorðna að komast á gervigrasvellina okkar hvaða tíma dags sem er.

Þetta hangir saman, því betra umhverfi og aðstaða sem sveitarfélög bjóða íbúum upp á, því líklegra er fólk til þess að hreyfa sig. Það skilar sér þráðbeint til baka til sveitarfélagsins, heilsuhraustir og hamingjusamir íbúar skila meiru til samfélagsins og kosta minna en þeir sem hafa lent í köngulóarvef langvinna lífsstílsjúkdóma. Mosfellsbær stendur vel í samanburði við þau sveitarfélög sem við höfum verið að skoða, en að sjálfsögðu er svigrúm til bætinga á ýmsum sviðum.

Fyrirlestrar og vinnustofur

Það styttist í að fræðsluferðalagið okkar klárist. Við erum búin að vera á ferðinni í rúma fjóra mánuði og læra heilmikið um langlífi og góða heilsu á “Blue Zone” ferðalaginu okkar.

Það er líka ýmislegt sem hefur komið okkur á óvart á ferðalaginu, bæði á jákvæðan hátt og minna jákvæðan.

Við erum farin að undirbúa það sem tekur við þegar við komum heim í sumar. Bókarskrif verða fyrirferðarmikil og við erum byrjuð að bóka fyrirlestra og vinnustofur sem við höfum verið að vinna í á ferðalaginu.

Það er búið að vera gefandi að vinna í þessu efni og við erum spennt að byrja að deila með ykkur því sem við höfum lært.

En, áður en við komum heim ætlum við að nota tímann vel hér á Sardiníu og kynna okkur vel hvað hefur stuðlað að löngu og góðu lífi hér á eyjuna í gegnum aldirnar.

Ciao!

Heilsuhvetjandi vinnustaðir

Ég er að prufukeyra fjarverkefni með góðu fólki. Verkefnið byggir á því sem við erum að læra hjónin á rannsóknarferð okkar um heiminn, við erum að heimsækja staði sem hafa verið þekktir fyrir langlífi og góða heilsu.

Í síðustu viku vorum við í prufuverkefninu að skoða daglega hreyfingu, hvernig hægt væri að auka hana og koma betur inn í lífið. Öll samfélög þar sem langlífi er þekkt eiga það sameiginlegt að fólk hreyfir sig reglulega yfir daginn. Dagleg hreyfing snýst ekki um að mæta æfingar tvisvar til þrisvar í viku og sitja svo á rassinum eða liggja upp í sófa/rúmi restina af sólarhringnum. Það er ekki nóg ef við viljum byggja upp og viðhalda góðri heilsu.

Við þurfum að koma reglulegri hreyfingu inn í daginn okkar og þá skipta vinnustaðir miklu máli. Ég hef unnið með og heimsótt tugi vinnustaða undanfarin ár og það er mikill munur á viðhorfi atvinnurekenda og stjórnenda fyrirtækja varðandi heilsu starfsmanna. Sumir vinnustaðir eru beinlínis heilsuletjandi á meðan aðrir hafa áttað sig á mikilvægi þess fyrir vinnustaðinn og samfélagið allt að hvetja fólk til þess að hreyfa sig og hlúa að eigin heilsu.

Mér þótti virkilega vænt um að lesa þessar línur frá einni sem tekur þátt í prufuverkefninu áðurnefnda. Það skín sterkt í gegn hvað hún er ánægð með sinn vinnustað og þá hvatningu sem hún fær til þess að hreyfa sig í tengslum við vinnuna. Það skilar sér í þráðbeint til baka til vinnustaðarins. Meiri vinnugæði, betri starfsandi, færri veikindadagar og fjarvistir svo fátt sé nefnt.

„Ég er svo heppin að ég get fengið borgað aukalega fyrir að koma mér á vistvænan máta til vinnu og svo má ég stunda líkamsrækt á vinnutíma. Með því að hjóla í vinnuna er ég bæði að stytta vinnuvikuna og fá meira útborgað … það er klassi.“

Litlu hlutirnir í lífinu

Það eru ekki síst litlu hlutirnir í lífinu sem gefa því gildi. Sitja í sandinum, tímalaus, róta aðeins og skoða hverju síðasta flóð skilaði á land.

Það er búið að frábært að hafa litlu frænku (og mömmu hennar líka!) með okkur í Japanshluta “Lifum lengi – betur” ferðalagsins.

Hún elskar fjörurnar, gæti verið þar endalaust. Stingur okkur af á hlaupum, rúllar sér í sandinum og situr og dundar sér við að skoða það sem fjaran bíður upp á. Stóri frændi fylgist með henni og passar að hún lendi ekki í of hættulegum ævintýrum.

Einfalt líf.

Svona stundir gefa mikið, bæði á ferðalögum og í hinu daglega lífi.

Leikgleði út lífið

Við erum á Okinawa. Fluttum okkur á milli staða í gær, frá Chatan sem liggur við hliðina á Kadena herstöðinni, til Motubu sem er norðar á eyjunni.

Eftir að hafa fengið okkur hádegismat í Motubu röltum við í almenningsgarð þorpsins, þar tóku á móti okkur ljónhress hópur eldri borgara. Þau stukku á okkur um leið og við komum í garðinn og skoruðu, með stríðnisglampa í augum, á okkur í 8 holu höggleik sem þau höfðu sett upp.

Við tókum að sjálfsögðu áskoruninni og spiluðum við þau. Lærðum á leikinn um leið og við spiluðum. Það var mikið hlegið og brosað og við fengum hrós þegar við náðum góðum höggum.

Aldursforsetinn var 86 ára og hin ekki mikið yngri. Þau hittast í garðinum þrisvar í viku og spila í tvo klukkutíma í senn. Við stefnum á að hitta þau aftur á morgun.

Þessar hressu og skemmtilegu móttökur yljuðu okkur mikið og sýndu okkur í leiðinni að það er engin tilvijun að langlífi og góð heilsa er algeng á Okinawa.

Bók í forsölu (föstudagspóstur úr ferðlaginu fylgir með)

Teningurinn

Ég náði loksins að klára töfrateninginn einn og óstuddur í gær. Það þýðir að bara einn úr sex manna kjarnafjölskyldunni okkar á eftir að leysa verkefnið (þú veist hver þú ert!)

Næst elsti sonur okkar, Arnór, var fyrstur til að klára teninginn, gerði það fyrir nokkrum árum. Svo vaknaði áhugi fjölskyldunnar aftur þegar við lögðum af stað í yfirstandandi ferðalag, unglingurinn Orri tók verkefnið með trompi, var snöggur að finna leiðir til þess að klára teningininn og tók svo að sér að kenna okkur hinum skrefin.

Frú Vala var næst, fylgdi leiðbeiningunum vel og var dugleg að æfa sig. Snorri, 8 ára, fylgdi í hennar fótspor og var afar snöggur að fara í gegnum þrepin. Líklega sneggstur allra.

Ég fór rólega í þetta, byrjaði að skoða verkefnið í Kosta Ríka og mjakaði mér hægt og rólega í gegnum þrepin. En þetta var tvö skref áfram og eitt afturábak hjá mér.

Leiðbeiningar Orra voru skotheldar, drengurinn er góður kennari. Skýr og þolinmóður. Alltaf klár í að aðstoða.

Löng fjölskylduferðalög eru frábær í samvinnuverkefni af þessu tagi. Það er gaman og gefandi að vinna að sameiginlegu markmiði – hvort sem það er að leysa töfratening, læra tungumál eða eitthvað allt annað.

Njótum ferðalagsins! Saman

Góðir ferðafélagar!

Eftir tvo mánuði í Norður og Mið – Ameríku erum við nú komin til Asíu. Fórum á þremur sólarhringum frá rólegum strandbæ í Kosta Ríka til stórborgarinnar Tókýó með viðkomu í San Jose, Guatemala og Los Angeles. Hressandi ferðalag – það er um 15 klukkutíma tímamunur milli Kosta Ríka og Japans…

Eitt af því sem einkennir alla langlífisstaðina sem við erum að sækja heim er að fjölskyldan er í lykilhlutverki. Ekki bara kjarnafjölskyldan, heldur líka systkyni, foreldrar, ömmur, afar, frændur og frænkur.

Það var því aldeilis viðeigandi að fá Höbbu systir og dóttir hennar Ylfu í heimsókn til okkar til Japans. Þær ætla að vera samferða okkur í nokkrar vikur, fara með okkur til Okinawa.

Það er frábært að fá félagsskap og við hlökkum mikið til samverunnar með þeim næstu daga. Uppgötva saman leyndardóma langlífis á Okinawa.

Bók og fyrirlestur í forsölu

Digna frænka

Við hittum Dignu frænku (Tia Digna) í síðustu viku í Quebrada Honda, þorpi á stærð við Drangsnes, á Nicoyaskaganum í Kosta Ríka. Digna frænka er 96 ára og var ljónhress. Með glampa í augum og öfluga greip, fundum það þegar við kvöddum hana.

Hún söng fyrir okkur lag frá því hún var í barnaskóla, hvatning til nemenda til að ganga eða hlaupa í skólann. Þetta er um það bil 90 ára gamalt lag, hugsanlega eldra. Hvetjandi og jákvæður texti.

Digna sefur 8 tíma á hverri nóttu, borðar 2-3 máltíðir á dag (hrísgrjón, baunir, tortillur, ávexti og ost). Þetta er ekki stórir skammtar og minnsta máltíðin er á kvöldin. Fær sér kaffi á morgnana og situr í stólnum sínum og spjallar við gesti og gangandi. Hún er í góðum tengslum við fjölskylduna og fer í kirkju alla laugardaga.

Við erum að rannsaka langlífi og góða heilsu. Heimsóknin til Dignu frænku var hluti af rannsóknarverkefninu. Eftir tæpa viku förum við héðan frá Kosta Ríka, verðum þá búin að dvelja á tveimur rannsóknarstöðum af fimm. Þetta er gefandi ævintýri og við erum spennt að kynna niðurstöður okkar fyrir Íslendingum haustið 2019.

Njótum ferðalagsins!

“Svalara að vera 100 ára og heilbrigður”

Við fjölskyldan erum að undirbúa rannsóknarferð á þau svæði í heiminum þar sem fólk lifir lengst og við góða heilsu. Á þessum svæðum þykir ekkert tiltökumál að verða 100 ára. Og fólk heldur áfram að gera hluti sem skiptir það og aðra máli fram á síðasta dag.

Mynd: Mosfellingur, 8. nóvember 2018

Mér finnst þetta mjög heillandi, að eldast vel. Eins og kellingin sagði, það er svalt að vera 100 ára en það er enn svalara að vera 100 ára og heilbrigður. Við leggjum af stað í rannsóknarferðina í ársbyrjun 2019 og komum til baka, vonandi stútfull af nýjum – og gömlum – fróðleik, um mitt sumar sama ár. Síðan ætlum við að leggja okkur fram við að dreifa sem víðast því sem við höfum lært. Ætlum að nota haustið í það.

Það má segja að það að hafa fengið Gulrótina, lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar, fyrr á þessu ári hafi verið sú hvatning sem við þurftum til þess að kýla á þetta verkefni. Hugmyndin var fædd á þeim tíma, en lokaákvörðin hafði ekki verið tekin. Mig minnir að við hjónin höfum ákveðið þetta sama kvöld og við fengum verðlaunin að láta verða af þessu. Það er nefnilega þannig að maður þarf stundum hvatningu og stuðning til þess að þora að gera það sem mann virkilega langar til. Oft þarf ekki mikið til.

Fyrir okkur var Gulrótin skilaboð um að gera meira, ekki láta staðar numið. Halda áfram að hvetja, á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, til heilbrigðis og heilsuhreysti – án öfga. Þetta er það sem við viljum standa fyrir og láta eftir okkur liggja. Það hafa allir einhvern tilgang í lífinu. Stundum er hann ekki augljós. Stundum þarf að grafa eftir honum. En hann er þarna og þegar hann er fundinn er ekki aftur snúið. Finnum okkar tilgang og hvetjum aðra til þess sama.

Lifum lengi – betur!

Dagleg hreyfing

Ég skaust til Akureyrar í síðustu viku. Flaug norður um morguninn og aftur til Reykjavíkur seinni partinn. Vinnuferð. Ég er búinn að fara oft norður síðustu misseri og finnst það alltaf jafn gaman. Það er eitthvað töfrandi við Akureyri. Fallegur bær og umhverfi. Ef ég hef tíma labba ég frá flugvellinum inn í bæinn. Það er göngustígur alla leið.

Þessi gönguleið er í miklu uppáhaldi hjá mér, ég fæ orku við að labba meðfram sjónum. Veðrið skiptir ekki máli. Ég tek með mér létt gönguföt ef það eru líkur á roki á rigningu, sem er nánast aldrei, því eins og alþjóð veit er alltaf sól og blíða á Akureyri. Ef vinnudagskráin leyfir labba ég líka út á flugvöll í lok dags.

Þessi ganga er lítið dæmi um hvernig hægt er að koma hreyfingu inn í daglegt líf. Þeir sem eru mikið á ferðinni hugsa oft ekki út í þennan möguleika. Eru fastir í því að fara á milli staða í bíl eða öðrum farartækjum. Bíða frekar eftir fari heldur en að labba á milli staða.

Það kom mér skemmtilega á óvart að heyra að þátttakendurnir á vinnustofunni sem ég var með á Akureyri eru duglegir að hreyfa sig. Ein til dæmis labbar alltaf til og frá vinnu, um 45 mínútna leið. Frábær byrjun á degi að hreyfa sig mjúklega og fá stóran súrefnisskammt í leiðinni.

Gangan heim úr vinnu hjálpar svo til við að hreinsa hugann. Losa vinnuverkefnin úr hausnum og koma fersk heim í faðm fjölskyldunnar. Annar notar aldrei lyftur. Labbar alltaf upp og niður stiga, bæði í vinnu og utan. Hann vann fyrir nokkrum árum á sjöundu hæð og gekk þá alltaf upp og niður stigana. Fyrst í stað tóku vinnufélagar hans lyftuna, en smituðust svo af okkar manni og fóru smátt og smátt að fylgja hans fordæmi.

Það eru ótal leiðir til að auka við daglega hreyfingu. Við þurfum bara að líta aðeins upp úr símunum og koma auga á þau tækifæri sem eru fyrir framan okkur alla daga.

Dagleg hreyfing er lykilþáttur í langlífi og góðri heilsu. Þeir sem nýta hreyfifæri (hreyfing + tækifæri) dagsins lifa lengur og betur en þeir sem lifa þægilegu en óhollu kyrrsetulífi. Það er bæði vísindalega sannað og heilbrigð skynsemi.

Njótum ferðalagsins!

Lifa og læra

Við hjónin erum á sundnámskeiði. Byrjuðum í síðustu viku að læra skriðsund upp á nýtt. Höfum hvorugt náð því almennilega þrátt fyrir að hafa mætt vel í sundkennslu í barnaskóla. Ég er lengi búinn að ætla að fara á skriðsundnámskeið, alveg síðan ég fyrir ekki svo löngu síðan komst að því – mér mjög á óvart – að skriðsund er aðferð til þess að synda langt og án mikillar fyrirhafnar. Fyrir mér var þetta þveröfugt, skriðsund var baráttusport fyrir styttri vegalengdir. Mjög stuttar vegalengdir í mínu tilviki.

Frændi konunnar minnar – Ásgeir Thoroddsen, mikill útivistargarpur, benti mér á skriðsundaðferð sem kallast „Total Immersion“ fyrir nokkrum árum þegar við vorum að ræða þetta. Ég keypti samnefnda bók og heillaðist af aðferðafræðinni – sem gengur í stuttu máli út á að skapa sem minnsta mótstöðu við vatnið á sundinu og nota sem minnsta orku. En ég náði ekki að yfirfæra aðferðafræðina úr bókinni yfir í laugina. Það var því mikil hamingja að komast að því að sundkennarinn Þórður Ármannsson, Skriðsundsnámskeið Dodda, er að kenna akkúrat þessa sundaðferð og það í mínum heimabæ, Mosfellsbæ.

Við erum búin með fyrstu vikuna af fjórum á námskeiðinu og það lofar virkilega góðu. Ég er að læra að synda alveg upp á nýtt, skref fyrir skref, og finnst það frábært. Líkamsstaðan í vatninu skiptir öllu máli. Sömuleiðis að vera slakur, ekki vera stífur og með spennta vöðva. Það er atriði sem ég hef þurft að vinna með í öðrum íþróttum, hef, ómeðvitað, notað of mikinn styrk og spennu í aðstæðum þar sem ég ætti að spara orku og vera mýkri. Og í aðstæðum eins og göngutúrum. Ég átta mig stundum á því þegar ég er úti að labba mér til heilsubótar að ég er á yfirsnúningi, bæði líkamlega og andlega. Labba mjög hratt og ákveðið og er að hugsa um allt of margt í einu.

Námskeið eins þetta sem ég er á núna, geta kennt manni miklu meira en bara það sem það á fyrst og fremst að snúast um, ef maður er móttækilegur og getur yfirfært það sem maður lærir yfir á aðra þætti í lífinu. Lífið snýst um jafnvægi. Stundum þarf maður að taka vel á því, en á móti þarf að maður líka að geta slakað á og endurnýjað þannig orkuna.

Njótum ferðalagsins!

Taktu upplýsta ákvörðun

September og janúar eru þeir mánuðir sem fólk stekkur til og kaupir sér árskort í líkamsrækt. Stóru stöðvarnar eru með góð tilboð í gangi á þessum tíma, sérstaklega á árskortum. Það er engin tilviljun, fólk er að klára frívertíð, sumarfrí eða jólafrí, buxnastrengurinn er orðinn þrengri og erfiðara að smella efstu tölunni á skyrtunni. Þetta ástand kallar á aðgerðir og árskort í líkamsrækt hljómar lokkandi sem leið út úr ástandinu.

En eins og flestir sem hafa lent í að kaupa sér árskort og nýta það svo skerandi lítið vita er árskort ekki endilega besta byrjunin. Vænlegri byrjun er að prófa sig áfram, fá að mæta í 2-3 skipti á þann stað sem maður er að íhuga að styrkja með árskorti. Hugsanlega kaupa einn mánuð. Finna hvort staðurinn henti. Hvort umgjörðin, þjálfararnir, æfingafélagarnir og annað sem skiptir máli sé í takti við væntingar okkar. Líður okkur vel á staðnum? Er tekið vel á móti okkur? Eru æfingarnar að gera okkur gott? Vita þjálfararnir hvað þeir eru að gera? Er gaman að æfa á staðnum?

Þessum og fleiri spurningum er mikilvægt að svara áður en maður festir sig til lengri tíma. Stórar stöðvar með stór tilboð á þessum tíma árs gera beinlínis ráð fyrir því að meirihluti þeirra sem kaupa árskort mæti bara fyrstu vikurnar, ef það, og láti svo ekki sjá sig aftur fyrr en eftir ár. Það er ekkert leyndarmál. Við vitum þetta öll.

Það er ekkert að því að kaupa árskort ef maður veit að maður mun nýta það vel. En ef maður er óviss er betra að fá að prófa fyrst. Festa sig í styttri tíma. Annað sem ég virkilega mæli með fyrir þá sem eru viðurkenndir og staðfastir árskortastyrktaraðilar er að prófa eitthvað nýtt. Prófa nýja hreyfingu, nýja íþrótt, nýja leið til þess að koma reglulegri hreyfingu inn í lífið. Það er ótrúlega margt í boði á Íslandi, bæði rótgróið og nýtt, og það er aldrei of seint að byrja að stunda nýja hreyfingu.

Ég hef sjálfur reynslu af því að byrja á nýrri íþrótt á fertugsaldri og tengjast henni sterkum böndum. Hvað sem þú gerir, kæri lesandi, hugsaðu málið vel og taktu ákvörðun út frá því hvað mun henta þér best og gefa þér mest.

Njótum ferðalagsins!

Heilsa og peningar

Hin hollenska Dr. Machtfeld Huber sem veitir „Institute for Positive Health“ forstöðu skilgreinir heilsu einstaklingsins á víðan hátt. Hún skiptir heilsu í sex stólpa: Líkamlegt heilbrigði, andlega vellíðan, tilgang, lífsgæði, þátttöku og daglega virkni – lauslega þýtt af undirrituðum og án ábyrgðar.

Undir hverjum stólpa eru nokkur atriði sem saman mynda hann. Undir líkamlegu heilbrigði eru til dæmis eftirfarandi undirflokkar:

 • að líða heilbrigðum
 • að finnast maður vera í góðu formi
 • kvarta undan eða vera með verki
 • svefnmynstur- næringarmynstur
 • líkamlegt ástand
 • líkamsæfingar

Hvern undirflokk ber svo að skoða sérstaklega til að fá heildarmynd af því hvernig maður metur og upplifir eigin heilsu.

Undir stólpanum „Lífsgæði“ er undirflokkurinn „Eiga nóg af peningum“. Eins og með alla hina flokkana er það eigin upplifun og skynjun sem skiptir mestu máli. Það sem einum finnst vera nóg af peningum er langt frá því að vera nóg í huga annars. Og hugsanlega öfugt, það sem einum finnst vera nóg, finnst öðrum alltof mikið.

Hverju sem því líður skipta peningar máli fyrir okkur langflest. Og ég er sammála Dr. Huber í því að peningar tengjast heilsu. Fjárhagslegir erfiðleikar skapa stress og vanlíðan, sem hafa bein áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu.

Eitt það besta sem við konan mín höfum gert varðandi fjármál okkar er að borga jafnt og þétt inn á lánin okkar. Við byrjuðum á lægsta láninu, bílaláni. Festum lága upphæð sem mánaðarlega innborgun á það, upphæðin var svipuð og kostnaðurinn við að fara í bíó einu sinni í mánuði með alla fjölskylduna (miðar og meðlæti). Þessi fasta upphæð hjálpaði verulega til við að greiða upp lánið, höfuðstóllinn lækkaði jafnt og þétt og að lokum greiddum við upp allt lánið.

Síðan réðumst við á næsta lán á sama hátt, nema innborgunin mánaðarlega var nú orðin hærri. Grunnurinn var bíó-fyrir-alla upphæðin, við hana bættist upphæðin sem við vorum að greiða mánaðarlega af fyrsta láninu þegar við byrjuðum að borga það niður.

Við erum nú búin að borga niður lán númer tvö og erum byrjuð á þriðja láninu – húsnæðislán. Innborgunin mánaðarlega samanstendur nú af bíóupphæðinni og reglulegu afborgunum af lánum númer eitt og tvö (sem við erum búin að borga upp). Þessi aðferð hefur gert okkur kleift að lækka og losa okkur við lán jafnt og þétt án þess að þurfa að fórna of miklu.

Við getum haft áhrif á fjárhagsstöðu okkar sama hvar við stöndum og þar með heilsu okkar.

Njótum ferðalagsins!

60 plús – framhald

Ég skrifaði pistil í síðustu viku um þá sem eru 60 ára og eldri. Viðbrögðin voru góð. Eg hef heyrt í mörgum 60 ára og eldri sem hafa lýst yfir ánægju sinni með hugleiðingarnar.

Mér þótti sérstaklega vænt um 60 plús ára hjónin sem komu til mín á fótboltaleik í síðustu viku og sögðust vera algerlega sammála mér. Maðurinn, 73 ára, hljóp 10 km í maraþoninu um síðustu helgi eins og hann hefur gert undanfarin ár. Fannst það ekkert erfiðara en síðast, var bara örlítið lengur að því.

Með hans orðum, maður getur haldið áfram að gera það sem maður var að gera þegar maður var þrítugur – er bara aðeins lengur að því.

Frábært viðhorf enda geisla þau hjónin af hreysti og eiga alveg örugglega mörg góð ár eftir eins dugleg og þau eru að hreyfa sig og gera það sem þeim finnst skemmtilegt.

Í sömu viku kom í fjölmiðlum frétt af 95 ára veðurfræðingi sem var nýbúinn að fara í sitt fyrsta fallhlífarstökk. Fannst það mjög gaman og auðveldara líkamlega en að labba rösklega 100 metra.

Leikur og gleði er mikilvæg ef maður vill lifa vel og lengi. Maður verður fyrst gaman þegar maður hættir að leika sér, er sagt, og að mínu mati er það hárrétt. Við hugsum mörg allt of mikið um hvort þetta sé nú viðeigandi, hvort við eigum að vera að standa í þessu á okkar aldri (sem getur verið hver sem er).

Það er miklu skemmtilegra að láta vaða, hætta að velta því fyrir sér hvort einhver sé að spá í hvort við ættum að vera að leika okkur eða ekki. Það skiptir bara engu máli. Og þar fyrir utan er ég viss um að flestum finnist það meira hvetjandi en óviðeigandi. Það var allavega það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég las um fljúgandi veðurfræðinginn. Hann er 46 árum eldri en ég. Næstum tvöfalt eldri. Þvílík fyrirmynd!

Maður er aldrei of gamall til að leika sér og maður er aldrei of gamall til að læra eitthvað nýtt. Ég ætla til dæmis að skella mér á 4 vikna skriðsundnámskeið í september. Hlakka mikið til þess og bind miklar væntingar við það. Kominn tími til að læra skriðsundið almennilega. Ekki fyrir keppni, heldur fyrir mig sjálfan. Af því að mig langar til þess.

Njótum ferðalagsins!

p.s. sá fremri á myndinni er 100 ára 

 

60 plús

Ég hitti vin minn á kaffihúsi um daginn. Hann er rúmlega 60 ára í lífaldri, en ferskari á líkama og sál en margir helmingi yngri. Allt í kringum hann er fólk sem er hætt að vinna eða á leiðinni að hætta að vinna. Hann hefur engan áhuga á því að leggjast í helgan stein, er stútfullur af orku og framkvæmdargleði og langar að láta gott af sér leiða.

Ég verð sjálfur 50 ára á næsta ári. Hef engar áhyggjur af því. Mér finnst ég bara rétt hálfnaður með lífið. Ég er ekki farinn að velta fyrir mér starfslokum en veit af ýmsum á mínum aldri sem eru farnir að gera það. Vilja ekki hætta í öruggu vinnunni sinni – sem er í sjálfu sér mótsögn, það er ekki neitt til sem heitir örugg vinna, á meðan maður vinnur fyrir aðra er alltaf hægt að segja manni upp – og eru eiginlega að teygja lopann fram að starfslokum.

Ég á erfitt með að tengja við þann hugsunarhátt. Enda er það þannig, eins og vinur minn á kaffihúsinu gat sagt mér mörg dæmi um, að þegar fólk hættir að vinna vegna lífaldurs þá missir það gjarna orku og lífsneista. Verður allt í einu miklu eldra, bæði líkamlegra og andlega. Þarf að leggja sig oftar á daginn. Hættir að þora að gera hluti sem það annars hafði hlakkað til að gera á meðan það var að klára síðustu árin í vinnunni.

Þetta er rökrétt þegar nýjustu skilgreiningar á heilsu eru skoðaðar. Í þeim skiptir miklu máli fyrir einstaklinginn að upplifa að hann hafi tilgang í lífinu. Sé hluti af samfélagi og skiptu máli í samfélaginu. Ef fólk gerir ekkert annað en að fara í golf og blunda nokkrum sinnum á dag eftir starfslok, missir það þennan tilgang og hlutverk sem það hafði áður í vinnunni.

Ég held að við sem samfélag ættum að fara að hrista aðeins upp í umræðunni um starfslok, fara að hugsa þetta öðruvísi. Hætta að horfa blint á starfsaldur, frekar meta getu, orku og vilja einstaklingsins til þess að halda áfram að sinna vinnu og verkefnum. Leyfa fólki að minnka við sig jafnt og þétt. Halda áfram að hafa hlutverk og tilgang.

Lykilatriði í þessu er að atvinnurekendur opni hugann og fari að horfa á 60 plús fólkið sem verðmæta og dýrmæta reynslubolta.

Njótum ferðalagsins!

Nauthólsvíkin

Ég fór í sjósund í síðustu viku. Við vorum þrjú sem fórum saman í Nauthólsvíkina og tökum sundsprett. Höfðum ekki farið lengi í sjóinn og það tók smá tíma að koma sér í gírinn. Hita sig upp líkamlega og andlega. En síðan var þetta bara hressandi enda sjórinn tæplega 12 gráðu heitur sem þykir gott á Íslandi.

Aðstaðan fyrir sjósund í Nauthólsvík er frábær, búningsklefar, heitur pottur og gufabað. Og vinalegt afgreiðslufólk.

Ég er með sérstaka tengingu við Nauthólsvík eftir við í Kettlebells Icelandvorum, fyrir nokkrum árum síðan, með daglegar styrktaræfingar þar í vel á annað ár. Notuðum ketilbjöllur, kaðla og ýmis önnur tól og tæki til að þjálfa hóp af skemmtilegu fólki. Við fengum góðan vin okkar til að smíða apastiga, klifurgrind sem við settum upp í grasbala við hliðina á ströndinni. Við notuðum hann fyrir okkar æfingar og svo gátu gestir og gangandi nýtt sér hann þar fyrir utan.

Ég kíkti í síðustu viku á staðinn þar sem við höfðum verið með apastigann. Þar var ekkert nema illgresi og gamall trjábútur sem gægðist upp úr því. Mér fannst það synd. Við höfðum á sínum tíma þegar við hættum með æfingarnar í Nauthólsvík boðið staðarhöldurum að halda stiganum, en þeir höfðu ekki áhuga á því þannig að við fluttum hann með okkur upp í Mosfellssveit þar sem hann er aldeilis vel nýttur.

En ég hefði samt viljað hafa hann áfram í Nauthólsvíkinni. Hann var hreyfihvetjandi fyrir fólk á öllum aldri og mikið notaður af þeim sem áttu leið hjá. Málið er nefnilega að fólk vill hreyfa sig, æfa sig og leika sér en stundum þarf að hvetja það til dáða. Til dæmis með því að stilla upp apastigum, klifurgrindum og annars konar æfinga – og hreyfitækjum hér og þar um borgir og bæi.

Sumar borgir eru mjög framarlega í þessu. Í Moskvu, til að nefna eina, er til þannig mikið af stærri og smærri almenningsgörðum og í þeim einhvers konar útiæfingatæki.

Þessi tæki þurfa hvorki að vera flókin eða dýr. Nauthólsvíkin er upplagður staður fyrir útiæfingatæki. Það eru reyndar þrjú tæki upp á grasflötinni, en ég myndi vilja sjá miklu fleiri og fjölbreyttari. Útiæfingagarð hreinlega sem hlauparar, hjólreiðamenn og aðrir útivistarunnendur gætu nýtt sér til þess að styrkja sig og efla.

Njótum ferðalagsins!

p.s. myndin er frá 2011

180 mínútur á dag

Þann fyrsta ágúst síðastliðinn byrjaði ég í fimm mánaða áskorun. Áskorunin gengur út á að hreyfa sig markvisst í allavega þrjá klukkutíma á dag.

Ástæðan var sú að ég uppgjötvaði eftir að ég byrjaði aftur að vinna að ég var ekki að hreyfa mig nóg yfir daginn. Sat of mikið við tölvuna.

Eftir frí, þar sem ég var mikið á hreyfingu, fann ég skýrt hvað þessi mikla seta fór illa í mig. Maður verður orkuminni, þreyttari andlega og stirðari í skrokknum. Skiljanlega, við mannfólkið erum ekki hönnuð til að sitja á rassinum heilu og hálfu dagana. Samt gerir stór hluti okkar það.

Mín leið til þess að breyta þessu er að setja mér fasta ramma, 180 mínútur á dag. Síðan hef ég frelsi innan rammana, öll hreyfing telur. Grunnurinn hjá mér eru göngutúrar. Ég hef í mörg ár byrjað daginn á morgungöngu, en nú er ég búinn að lengja þann tíma sem ég nota í hana og er líka búinn að bæta hádegisgöngu við mitt daglega prógramm.

Þegar maður þarf að ná að fylla upp í hreyfikvóta fer maður að leita að og finna tækifæri. Ég til dæmis notaði klukkutíma til að kaupa mat í Borgarnesi á leið norður á Strandir um daginn.

Lagði bílnum spölkorn frá búðinni, rölti niður í fjöru, gerði nokkrar liðleikaæfingar, labbaði lengri leiðina að búðinni og svo tilbaka að bílnum með þunga poka í sitthvorri höndinni – fékk þannig auka og ókeypis styrktaræfingu í leiðinni.

Garðvinna, leikir við börn eða barnabörn, fjallgöngur og sund eru nokkur dæmi um hreyfingu sem auðvelt er að framkvæma með öðrum. Tengja þannig saman hreyfi- og félagslega þörf okkar.

Reglulegar æfingar er önnur leið til þess að halda manni við efnið. Æfa með hópi sem mann hlakkar til að hitta nokkrum sinnum í viku. Styrkja sig og efla í góðum félagsskap.

Það er ekki eins flókið eða erfitt og margur heldur að hreyfa sig markvisst í þrjá klukkutíma á dag og það skilar sér margfalt til baka, bæði til styttri og lengri tíma.

Á meðan fimm mánaða áskoruninni stendur skráset ég alla daga hvað ég geri til þess að ná 180 mínútum af hreyfingu inn í minn dag.

Fylgstu með mér á Instagram, https://www.instagram.com/gudjon_svansson/og/eða taktu þátt í áskoruninni með mér.

Njótum ferðalagsins!

Tómarúm eftir tónleika

Sumarið hjá mér hefur verið líflegt. Ég hef verið mikið á flakki, vinnutengdu og fjölskyldutengdu. Hef farið í styttri og lengri ferðir síðan í byrjun júní og því lítið náð að velta mér upp úr rigningarsumrinu mikla hér heima. Sem er bara hið besta mál, finnst mér. Ég er meira fyrir sól en rigningu.

Ég stökk svo nánast beint út úr flugvél á Guns N Roses tónleikana í Laugardalnum. Tónleika sem ég var búinn að hlakka mikið til eftir að hafa hlustað á hljómsveitina út í eitt á menntaskólaárunum. Þetta voru að mínu mati frábærir tónleikar – fyrst og fremst vegna þess að það var svo augljóst að þeir félagar höfðu gaman af því sem þeir voru að gera. Maður sá það á allri líkamstjáningu og hreinlega í augunum á þeim. Og það smitaði út frá sér, skapaði jákvæða og góða orku í Laugardalnum.

Daginn eftir tónleikana datt ég svo ofan í tómarúm og það kom mér algjörlega í opna skjöldu. Hafði á flakkinu hlakkað til að koma heim og vera heima, en það var eins og tónleikarnir hefðu verið einhvers konar endapunktur á keðju atburða sem mynduðu stóran hluta sumarsins hjá mér.

Og þegar ég velti því betur fyrir mér er ég búinn að upplifa svo margt spennandi, nýtt og skemmtilegt í sumar að það er líklega eðlilegt að ég lendi í spennufalli þegar hlutir róast.

Spennufallinu fylgdi ör-flensa, hausverkur og líkamleg þreyta og ég streittist fyrst á móti, reyndi að halda áfram með mín verkefni og skyldur. En svo ákvað ég að fylgja eigin ráðleggingum, fresta verkefnunum og hreinlega sofa þetta úr mér. Henti mér í bælið í tæpan sólarhring.

Vaknaði svo ferskur og bjartur. Kominn út úr tómarúminu og spenntur fyrir öllu því sem framundan er hér á Íslandi næstu vikur og mánuði.

Við þurfum öll að taka hvíldina alvarlega, passa upp á okkur sjálf til þess að geta gefið af okkur og verið öðrum til stuðnings og hvatningar.

Pælið bara í Slash, eftir að hafa verið á sviðinu í Laugardalnum í tæpa fjóra klukkutíma, stútfullur af orku og leikgleði, skellti kappinn sér í handstöðu áður en hann labbaði keikur út af sviðinu.

Þannig orku hefur maður bara ef maður hefur gaman af því sem maður er að gera og passar að hvíla sig milli lota.

Njótum ferðalagsins!

Björt framtíð (ekki stjórnmálaflokkurinn…)

Í síðustu viku skrifaði ég pistill um slæmar fyrirmyndir í unglingafótbolta. Þjálfara og foreldra bandarísks liðs sem sonur minn og félagar hans spiluðu við á alþjóðlegu móti á Spáni. Til upprifjunar þá urðu bæði þjálfarar og foreldrar liðsins sér til skammar með grófum og dónalegum hrópum og köllum allan leikinn. Það er ekki til fyrirmyndar.

En það sem gerðist síðan er til fyrirmyndar. Þegar lá við að upp úr siði eftir þennan vasklega leik sá ég son minn og fyrirliða bandaríska liðsins tala saman, báðir með símana sína á lofti. Einhverjir héldu að þeir væru að rífast og ég fór til þeirra að athuga málið. Svo var alls ekki. Þeir voru að tengjast á Snapchat. Sallarólegir í látunum. Fyrirliðar liðanna.

Nú er liðin tæpur hálfur mánuður frá mótinu og ég spurði son minn í gær hvort þeir hefðu eitthvað verið í sambandi. Hann sagði mér að þeir hefðu mikið verið að ræða málin, bæði leikinn sjálfan og það sem gerðist í honum en líka lífið almennt. Hitabylgjuna sem er núna í New Jersey, heimsmeistarakeppnina og ýmislegt fleira. Tveir heilbrigðir fótboltastrákar í sitt hvorri heimsálfunni með svipuð áhugamál.

Mér finnst þetta frábært, sérstaklega eftir öll lætin sem urðu í kringum fótboltaleikinn. Jákvæð samskipti þeirra sýna í verki að þótt foreldrar séu slæmar fyrirmyndir, þá er ekki sjálfgefið að börn þeirra fylgi í fótspor þeirra. Vissulega hafa foreldrarnir mikil áhrif, til góðs og ills, en stundum eru vítin til að varast þau. Krakkarnir skynja og átta sig á að hegðun foreldranna er ekki góð og ákveða að fara aðra leið í lífinu.

Samskipti strákanna eftir leikinn segir okkur líka hvað samskiptamiðlar – sem við tölum svo mikið niður, ég er þar engin undantekning – geta gert mikið. Snapchat er í þessu tilviki frábært samskiptatól sem á þátt í að brjóta niður múra og breyta neikvæðum tilfinningum og samskiptum í jákvæðar.

Ég hef mikla trú á komandi kynslóðum, finnst krakkar og ungt fólk í dag vera miklu opnara, umburðarlyndara og umhyggjusamara en mín kynslóð var á þeirra aldri.

Við sem erum fullorðin í dag getum margt lært af þeim yngri. Við getum bætt okkur, orðið betri manneskjur og þannig orðið enn betri fyrirmyndir fyrir þau sem á eftir okkur koma.

Njótum ferðalagsins!

Helena frænka

Ég fjallaði um jafnvægi á þessum vettvangi í síðustu viku. Um mikilvægi þess að hafa jafnvægi í lífinu og því sem maður tekur sér fyrir hendur. Helena Jónsdóttir, þjálfari Heiðarskólaliðsins, sem vann Skólahreystikeppnina í síðustu viku, nefndi gott jafnvægi í liðinu sem lykilþátt í sigri þess. Jafnvægi er sömuleiðis mikilvægt til þess að geta tekist á við óvæntar aðstæður og uppákomur.

Vetrarharka í maí er til dæmis eitthvað sem Íslendingar áttu ekki von á og hafa látið koma sér úr jafnvægi. Eðlilega, kannski. Ég viðurkenni alveg að ég fagnaði ekki hríðinni þegar hún birtist eins og þruma úr heiðskíru lofti. Nýbúinn að ná í mótorhjólið úr vetrargeymslunni og byrjaður að nota það til að komast á milli staða. Það er lítið fjör að vera á mótorhjóli í stórhríð þannig að það er aftur komið í tímabundið hýði.

En snjór og kuldi í maí er eitthvað sem við dauðlegar verur eigum mjög erfitt að hafa áhrif á. Við höfum hins vegar alltaf val um hvernig við bregðumst við óvæntum aðstæðum.

Við getum valið að fara Útvarp Sögu leiðina, einblína á það neikvæða og velta okkur upp úr því. Kvarta, kveina og vorkenna sjálfum okkur út í hið óendanlega.

Við getum líka valið Loga Bergmann leiðina. Finna það jákvæða í stöðunni, hafa húmor fyrir maísnjónum og láta hann ekki eyðileggja fyrir okkur daginn. Það birtir alltaf til. Logi veit það og við vitum það öll.

Við veljum sjálf hvernig við bregðumst við óvæntum og erfiðum aðstæðum. Hvernig við högum okkur og hvað við segjum við aðra. Ég var fljótur að jafna mig á maísnjónum. Mín leið til þess að tækla hann er einfaldlega að taka honum fagnandi. Klæða mig vel, fara út í langa göngutúra, búa til snjóbolta, skoða skíðamöguleika og njóta samspils vorsólar og hvítrar jarðar sem er einstakt.

Ég reyni að hafa þetta að leiðarljósi þegar óvæntar aðstæður banka upp á – að láta þær ekki koma mér of mikið úr jafnvægi og reyna að vera fljótur að finna það jákvæða í stöðunni og þau spennandi tækifæri sem hið óvænta alltaf bíður upp á.

Njótum ferðalagsins!

Jafnvægi

Við erum öll með nokkur hlutverk í lífinu og hluti sem við viljum sinna. Vinna eða skóli skipan stóran stess í lífi flestra. Fjölskyldan skiptir sömuleiðis flesta miklu máli. Við bætast áhugamál, að sinna eigin heilsu, sjálfboðaliðaverkefni, stúss í kringum börn, heimilið, félagsstörf og ýmislegt fleira.

Því meira sem er í gangi, því meira máli skiptir að við séum í góðu jafnvægi og höfum stjórn á þessum fjölmörgu þáttum. Það er nefnilega þannig að ef einhver af þessum þáttum er í ójafnvægi, þá smitar það út frá sér yfir í hina þættina. Ef vinnan veldur of miklu álagi og krefsts of mikils tíma, þá nær maður ekki að sinna hinum þáttunum vel. Eigin heilsa er gjarna það fyrsta sem verður út undan, eins galið og það hljómar. Við skerum niður svefntímann, hættum að hreyfa okkur og étum allt sem tönn á festir. Of mikið stress í vinnu kemur líka niður á fjölskyldunni og það er áhugavert. Flestir segja aðspurðir að fjölskyldan skipti þá mestu máli í lífinu. Líka þeir sem vanrækja hana og taka vinnuna fram yfir. Heilsan skiptir alla líka miklu máli. Það vill engin vera veikur, síþreyttur eða alltof þungur. Samt vanrækja margir heilsuna. Allt of margir.

Hvað er til ráða? Tökum á ábyrgð á sjálfum okkur og þeim þáttum lífsins sem við viljum sinna vel. Forgangsröðum og hegðum okkur í samræmi við forgangsröðunina. Ef fjölskyldan er það mikilvægasta í okkar lífi, sinnum henni þá vel. Ef heilsan er okkur mikilvæg, lifum þá heilsusamlegu lífi. Sinnum vinnu eða skóla á þann hátt að það passi við aðra þætti lífsins. Það sem skiptir okkur mestu máli. Ef núverandi vinna hreinlega leyfir það ekki, þá þurfum við að breyta til. Ef við erum nota mikinn tíma í hluti sem eru mjög neðarlega á forgangslistanum okkar, þá þurfum að við að endurhugsa málin. Hugsanlega hætta alveg að sinna þeim.

Ekki velta ábyrgðinni yfir á aðra. Við getum stýrt þessu sjálf. Það lenda allir reglulega í því að taka of mörg verkefni að sér og missa yfirsýnina. Ég lendi sjálfur reglulega í því en er orðinn betri í að forgangsraða, segja nei og gera hluti sem skipta mig og mína mestu máli. Betri í að finna jafnvægið.

Njótum ferðalagsins!

Birtist fyrst í Daglegt líf í Morgunblaðinu, mánudaginn 30. apríl 2018

Leikgleði

Það er að detta í vor á Íslandi, orðið bjart snemma á morgnana, lóan mætt, sumardagurinn fyrsti liðinn og bara nokkrir dagar í að Íslandsmótin í fótbolta hefjist.

Þrátt fyrir að knattspyrnuhallir af ýmsum stærðum og gerðum spretti upp eins og gorkúlur víða um land er fótbolti fyrst og síðast útiíþrótt. Börn, unglingar, fullorðnir og gamalmenni á besta aldri spila fótbolta reglulega.

Ég hef gaman af því að fylgjast með skipulögðum keppnum, horfi á alla landsleiki og mæti á völlinn til að fylgjast með mínum liðum hvort sem það er í sjöunda flokki, þriðja flokki eða meistaraflokki. En ég hef enn meira gaman af fótbolta sem óskipulagðri fjölskylduhreyfingu.

Fótbolti er einföld íþrótt sem allir geta tekið þátt í. Leikurinn gengur bara út á að sparka í bolta og koma honum í mark andstæðinganna. Ég á margar góðar minningar um skemmtilega leiki sem hvorki KSÍ né FIFA skipulögðu:

 • Leikskólakennarar á Birkibæ áttu til dæmis stórleik á móti elstu börnunum á vorhátíð leikskólans árið 2004. Þær unnu leikinn eftir mikla baráttu við krakkana sem gáfu þeim reyndar lítið eftir.
 • Leikur milli foreldra 6. flokks liða Aftureldingar og Fylkis sem fór fram tveimur árum síðar, var sömuleiðis stórskemmtilegur. Bæði fyrir foreldrana og fyrir krakkana sem fannst frábært að skipta einu sinni um hlutverk við foreldra sína og fá að hvetja þá til dáða af hliðarlínunni.
 • Foreldrar 3.flokks Aftureldingar áttu sömuleiðis stórleik gegn ungu atvinnumönnunum sínum á fótboltamaraþoni flokksins í fyrra. Mömmur og pabbar sýndu þar óvænta takta og komu sonum sínum í opna skjöldu með yfirvegun og útsjónarsemi.

Svo er upplagt að tengja fótbolta við ferðalög, við fjölskyldan brutum upp fyrir nokkrum árum ferðalag frá Bjarnafirði á Ströndum í Mosfellsbæ með því að stoppa á öllum battavöllum á leiðinni og spila stuttan leik. Hólmavík, Búðardalur, Bifröst, Borgarnes, Kjalarnes, Mosfellsbær voru leikstaðirnir í mjög eftirminnilegri ferð.

En sá leikur sem ég hvað mest eftir þegar ég hugsa um fótbolta sem fjölskylduíþrótt var leikur innflytjandafjölskyldu í Danmörku. Þau voru fjögur. Pabbi og dóttir á móti mömmu og syni. Ólínustrikaður leikvöllur í Munkemosegarðinum í Óðinsvéum. Glampasól. Brosandi andlit. Leikgleði á hæsta stigi. Við konan mín vorum barnlaus á þessum tíma, en ég man eftir því að hafa hugsað að þetta ætlaði ég sko að gera þegar við myndum eignast börn.

Njótum ferðalagsins!

Birtist fyrst í Daglegt líf í Morgunblaðinu, mánudaginn 23. apríl 2018

Mánudagar gefa gull í mund

Við tökum reglulega umræðu á mínu heimili um hvort sunnudagur eða mánudagur sé fyrsti dagur vikunnar. Við erum ekki sammála og verðum það örugglega aldrei, en í mínum huga er það engin spurning. Vikan byrjar á mánudegi.

Einu sinni átti ég erfitt með mánudagana. Vaknaði þreyttur og var lengi að koma mér í gang. Sagði ekkert fyrr en í fyrsta lagi á hádegi. Í dag eru mánudagar í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég held að það sé mikið til vegna þess að ég upplifi mánudaga sem byrjun. Byrjun á einhverju góðu. Hér skiptir auðvitað máli að hafa gaman af því sem maður er að fást við dags daglega og að upplifa að maður hafi tilgang í lífinu. Ég er ekki bara að tala um atvinnutengd verkefni þótt þau dekki yfirleitt stærstan hluta vikunnar. Ég hlakka til dæmis til þess að skipuleggja æfingar vikunnar og að skutla guttunum mínum í skólann – jú, ég geri það víst. Skutlið tekur í tíma eitt eða tvö góð lög sem við skiptumst á að velja og við náum oft líka góðu spjalli á leiðinni. Lagavalið er fjölbreytt, einn er á kafi í Eurovision, annar í kópvogsku rappi á meðan bílstjórinn velur yfirleitt lög sem voru búin til áður en farþegarnir fæddust.

Ég hlakka til þess að fara í gegnum morgunrútínuna mína, læra eitthvað nýtt og að fara í morgungöngu í skóginum. Ég hlakka líka til vinnutengdu verkefnanna. Langflestra. Ég er svo heppinn að fá að sinna verkefnum sem ég hef gaman af og trúi að skipti máli fyrir þá sem taka þátt í þeim með mér. Það skiptir miklu máli og þegar maður er í þannig aðstöðu er virkilega gaman að vakna á mánudagsmorgnum.

Í dag er mánudagur. Ég hvet þig til þess að upplifa hann sem byrjun á einhverju góðu og gefandi. Góðri viku sem er framundan. Hún verður góð ef þú gefur þér tíma í upphafi hennar til þess að skipuleggja hana og láta þig hlakka til þess sem framundan er. Róleg mánudagsmorgunganga í íslenska vorinu er svo það sem gulltryggir góða byrjun á vikunni.

Njótum ferðalagsins!

Birtist fyrst í Daglegt líf í Morgunblaðinu, mánudaginn 16. apríl 2018

Fjölgum leikjastundunum

Ég er svo heppinn að eiga fjögur börn.  Heppinn segi ég af því að það gerði mig að betri manneskju að eignast börn. Ég var aldrei sérstaklega mikið fyrir börn fyrr en ég eignaðist mín eigin og fæ reglulega að heyra frá yngri systur minni að ég hafi verið frekar leiðinlegur stóri bróðir. Bið hér með opinlerlega forláts á því, litla systir mín kæra. En maður breytir ekki fortíðinni og það þýðir ekkert að velta sér lengi upp úr því sem maður hefði viljað gera öðruvísi.  Málið er að læra af mistökunum og gera betur næst. Þetta er klisja en samt ekki. Þetta er sannleikur og ef maður lítur á þau mistök sem maður gerir –  við gerum öll mistök  – með þeim augum að læra af þeim, þá bætir maður bæði sjálfan sig og aðra í kringum sig.

Ég áttaði mig fyrst á börnum þegar fyrsti sonur minn kom í heiminn fyrir tæpum 22 árum. Það var stór stund og nánast um leið fór mér að finnast önnur börn áhugaverð og skemmtileg. Það var eins og kveikt hefði verið á einhverjum takka í kerfinu hjá mér. Núna pæli ég mikið í börnum sem ég rekst á og hef gaman af því sem þau eru að spá og spekúlera í. Við sem erum orðin fullorðin getum lært mikið af börnum. Þau eru flest opin, óhrædd við að prófa sig áfram og uppgötva nýja hluti. Þau eru í núinu. Vilja leika sér, hreyfa sig og hafa gaman af þeim aðstæðum sem þau eru í. Þau eru, mörg, ófeimin, forvitin og skemmtileg.

Yngsti sonur minn er sjö ára. Hann er alltaf að bralla eitthvað skemmtilegt. Syngur mikið, býr til stórar og miklar íþróttakeppnir, teiknar, skrifar sögur og spilar fótbolta svo fátt eitt sé nefnt. Hann býður okkur foreldrunum nánast alltaf að vera með í því sem hann er að bralla. Stundum stökkvum við til en stundum erum við – eins og fullorðið fólk almennt – of upptekin. Ég er markvisst að vinna í því að fækka uppteknu stundunum og fjölga leikjastundunum af því að ég veit að það gefur okkur báðum mikið. Bæði núna og í framtíðinni. Styrkir okkur sem einstaklinga og sem fjölskyldu.

Njótum ferðalagsins!

Birtist fyrst í Daglegt líf í Morgunblaðinu, mánudaginn 9. apríl 2018

“Lífið er of stutt…”

Ég póst í vikunni frá kunningjakonu minni sem er að hugsa um að skipta um vinnu vegna að þess að aðstæður á vinnustað hennar eru þrúgandi og niðurdrepandi. “Lífið er of stutt til að eyða því á vinnustað þar sem manni líður illa”, sagði hún og ég er henni algjörlega sammála.

Ég hef sjálfur gaman af langflestu sem ég fæst í við í mínum verkefnum. Það er mjög gefandi að fá að sinna því sem maður brennur fyrir og trúir á. Að vinna með fólki sem vill læra, þroskast, breyta og bæta sig. Fólki sem vill ekki bara bæta sjálft sig, heldur líka aðra í kringum sig. Á sama hátt getur verið erfitt fyrir þann sem virkilega trúir á það sem hann hefur fram að færa að vinna með áhugalausu fólki sem er skítsama um það sem maður hefur fram að færa og gefur það skýrt til kynna með látbragði sínu og hegðun.

Ég lendi af og til, ekki oft sem betur fer, í þannig aðstæðum og finnst það alltaf jafn niðurdrepandi. Mér finnst lífið of stutt til þess að nota það í samveru með fólki sem lítur á það sem tímaeyðslu að mæta á vinnustofur eða í verkefni sem ég ber ábyrgð á. Það skiptir mig ekki máli þótt ég fái borgað fyrir þannig verkefni. Það er eiginlega verra, að vera fastur í verkefnum sem gefa tekjur en draga úr lífsorkunni. Þá vil ég frekar fá borgað fyrir verkefni sem skipta mig andlega minna máli. Eitthvað sem ég brenn ekki fyrir en er samt góður í og geri vel. Gamaldags málningarvinna er gott dæmi. Heiðarlega vinna sem snýst um að fegra umhverfi einhvers. Mér finnst gott að grípa í pensil og rúllu öðru hvoru. Fátt toppar að mála stórt þak í brakandi sól og blíðu.

Það eru margir að skipta um starf í kringum mig núna. Nánast eins og það sé opinn félagaskiptagluggi á vinnumarkaðnum. Það er hollt og gott að skipta um umhverfi þegar manni finnst kominn tími til þess. Ástæðurnar geta verið af ýmsu tagi, suma vantar meiri áskorun, aðrir eru að kafna undan álagi. Sumir hafa ekki trú á því sem þeir eru að gera, aðrir upplifa að yfirmenn þeirra hafi ekki trú á þeim. Og svo framvegis.

Knattspyrnumaðurinn Gerard Pique skrifaði áhugaverða grein í gær, fór þar meðal annars yfir félagaskipti sín frá Manchester United til Barcelona sem voru að hans frumkvæði. Heiðarleg, skemmtileg og áhugaverð grein sem snýst um að njóta þess sem maður er að gera, þora, láta í sér heyra og ekki láta neitt eða neina draga sig niður.

Njótum ferðalagsins!

Gaui

 

Frjálsir föstudagar

Ég reyni að halda föstudögum frjálsum. Forðast að taka að mér verkefni á föstudögum, hvort sem það er þjálfun, fræðsla, ráðgjöf eða annað. Og ég samþykki nánast aldrei fundi á föstudögum. Auðvitað eru undantekningar á þessu, en þær eru mjög fáar og vel valdar.

Hvað geri ég þá á föstudögum? Ég læri, hreyfi mig, hugsa, æfi, fæ hugmyndir, skipulegg mig, forgangsraða, nýt þess að hafa fulla stjórn á því hvað ég geri og hvenær.

Og hvað, má þetta bara? Á maðurinn ekki að stimpla sig inn í vinnu einhvers staðar á föstudögum og stimpla sig svo aftur út seinni partinn? Kannski aðeins fyrr en aðra daga. Nei, maðurinn á það ekki. Hann er búinn að semja þannig við sjálfan sig og aðra að hann getur stillt föstudögunum upp nákvæmlega eins og hann vill. Og hann vill mjög ógjarna láta taka það frelsi af sér.

Í dag er föstudagur. Ég vaknaði snemma, sendi einn vinnutölvupóst (10 mínútur) um fyrirlestur eftir páska. Tók síðan lærdómsrúntinn minn sem tekur um klukkutíma:

 • Grunnatriðin í brasilísku jiu jitsu með Renzo Gracie. Það er fátt notalegra en að heyra röddina í Renzo snemma á morgnana og fylgjast með honum útskýra á einfaldan hátt hvað BJJ gengur út á. Aðalviðfangsefni dagsins: Að komast fram hjá vörn hins (Passing the Guard). Renzo er frábær kennari sem gerir flókna hluti einfalda.
 • Spænska. Upprifjun. Heimilið og starfsheiti. Stuttar lotur þar sem maður hlustar, talar, les og skrifar. Bætir sig dag frá degi, skref fyrir skref. Ekki með þurrum og leiðinlegum utanbókarlærdómi, heldur með því að leysa stutt verkefni. DuoLingo.com
 • Rússneska. Upprifjun. Stafrófið. Líka DuoLingo.com sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Af hverju rússneska? Af því að við erum að fara til Rússlands fjölskyldan í sumar og mig langar til að geta tjáð mig aðeins og skilið eitthvað í máli heimamanna.
 • Liðleiki og styrkur. Bæði fyrir mig persónulega og til að nota í þjálfuninni okkar í Kettlebells Iceland. Ég rakst á GMB Fitness á Facebook. Las mér til um þá og kíkti á nokkur vídeó. Ákvað síðan að kaupa af þeim grunnnámskeið á Netinu. Sé ekki eftir því. Er að læra nýja hluti og það sem ég er ánægðastur með er hvað þeir byrja einfalt, hamra grunninn inn. Alveg eins og Renzo gerir með jiu jitsuið og DuoLingo með tungumálin. Þetta er sú leið sem ég vil fara í mínum lærdómi. Byrja frá grunni, ná honum og byggja svo ofan á hann jafnt og þétt. Ekki hoppa strax út í það nýjasta og ferskasta, oft flókin atriði sem maður nær ekki almennilega af því maður hefur ekki grunninn.

Ég skrifa niður það sem ég læri. Bæði í skrifblokk og í OneNote – set líka myndir þar inn. Það hjálpar mér að muna og rifja upp reglulega.

Ég tók stutta morgungöngu fyrir lærdómsstundina mína og aðra lengri göngu eftir lærdóminn. Pældi um leið í því nýja sem ég hafði lært.

Næst á dagskrá: Hádegisæfing hjá Kettlebells Iceland og eftir hana stúss, reddingar, pælingar, skipulag, körfubolti og sitthvað fleira sem mig langar að gera á þessum frjálsa föstudegi.

Njótum ferðalagsins!

“Vond tilfinning að hafa verið lélegt foreldri”

„Minn fortíðardjöfull á rætur sínar í því hvernig ég brást börnunum mínum þegar þau voru lítil, átti engan tíma handa þeim, eyddi honum öllum í að þjóna sjúklegum metnaði vísindamanns sem stóð í þeirri trú að það eina sem skipti raunverulega máli væri að sýna heiminum að hann væri sniðugri en allir aðrir, án tillits til þess hvort hann væri það eða ekki.”

Þetta segir Kári Stefánsson í viðtali við Vísi í lok síðasta árs. Ég þekki Kára ekki persónulega, en ég trúi því þegar hann lýsir því hvað hann sjái meir og meir eftir því að hafa notað jafn lítinn tíma með börnum sínum og hann gerði til þess að uppfylla sína persónulegu drauma.

Mér finnst það virðingarvert af Kára að segja frá þessu og reyna þannig að hafa góð áhrif á unga feður og foreldra sem eru í sömu aðstöðu og hann var á sínum tíma.

En það eru ekki allir sem hugsa svona. Ég las bók eftir Sir Alex Ferguson um daginn. Bókin heitir “Leading”. Þar lýsir Sir Alex því hvernig hann einbeitti sér, nánast frá fyrsta degi sem framkvæmdastjóri fótboltaliðs, að því sem snéri að fótbolta. Og engu öðru. Hann mætti fyrstur á skrifstofuna og fór síðastur heim. Reyndar fór hann ekki heim, heldur á fótboltaleiki öll kvöld og helgar og ferðaðist út um allt Bretland til þess. Hann þakkar í bókinni konu sinni fyrir skilningin á því að taka engan, ég endurtek engan, þátt í uppeldi barna sinna. Hann segir frá því að hann hafi aldrei farið að horfa á syni sína spila fótboltaleiki í yngri flokkunum. Ekki einu sinni. Hann valdi frekar að fara að horfa á leik hjá einhverjum af framtíðarandstæðinum liðsins sem hann var að stýra. Svona varð þetta að vera samkvæmt Sir Alex. Eina leiðin til þess að ná árangri sé að einbeita sér að verkefninu og láta allt annað sitja á hakanum. Ólíkt Kára sér hann því ekki eftir neinu, samkvæmt bókinni allavega.

Ég ætla í næsta pistli að segja frá einstaklingum sem hafa náð miklum árangri á sama tíma og þeir sinntu sínum nánustu vel. Þetta er hægt. Og við getum og eigum að læra af öðrum þótt það geti verið snúið. Við þurfum ekki öll að gera sömu mistökin og sjá síðan eftir þeim, meir og meir, þegar árin bætast við.

Bókin og fyrirlesturinn Njóttu ferðalagsins snúast um að finna jafnvægið milli þess að sinna sjálfum sér, draumum sínum og fjölskyldunni.

 

Árangur byggir á æfingum og framtaki

Ég fer reglulega í gegnum gamlar dagbækur. Hef í mörg ár skrifað niður hvað ég og mínir erum að gera í lífinu og hvað okkur langar að gera. Markmið, drauma og leiðir að þeim.

Mikið af dagbókafærslunum snúast um æfingar.

Færslan á myndinni er frá 2005. Áhugverðast við hana finnst mér að lesa að konunni minni, Völu, þá 35 ára, finnst erfitt að taka upphífingar með fætur uppi á stól. Í dag tekur Vala, 46 ára, upphífingar með aukaþyngd hangandi utan á sér. Það er talsvert miklu erfiðari útgáfa af æfingunni. Eitthvað sem alls ekki margir geta, hvorki karlar né konur.

Lærdómurinn?

Ef þú vilt ná árangri í einhverju, þá þarftu að vinna fyrir því. Þú þarft að æfa þig reglulega. Það skiptir í raun ekki öllu hvað þú ert gömul eða gamall þegar þú byrjar. Aðalmálið er að leggja vinnu í það sem þú vilt gera/geta. Án vinnu/æfinga eru líkur á árangri sama og engar.

Við erum misjafnlega hönnuð frá náttúrunnar hendi, en það kemst enginn langt án þess að æfa sig. Ekki falla í þá gryfju að selja sjálfri þér þá hugmynd að þú getir ekki lært að skíða af því að afi þinn var ekki frá Ísafirði eða þú sért of gömul/gamall til að fara í skóla eða stofna eigið fyrirtæki.

Sestu niður. Pældu í hvað þig langar að geta/gera. Byrjaðu að æfa þig, vinna í verkefninu. Láttu hlutina gerast.

 

Vertu í góðum félagsskap

Við veljum hverja við umgöngumst mest og okkur líður best þegar við erum með fólki sem hefur svipuð gildi og við sjálf.

Um helgina fór ég í æfingaferð á Strandir með samstilltum og skemmtilegum hópi fólks. Við gerðum margt á þeim rúmum tveimur sólarhringum sem ferðin tók. Ótrúlega margt þegar maður rifjar það upp. Tókum margar ólíkar æfingar, leystum ýmsar þrautir, kepptum í hinu og þessu, slökuðum á í kaldri/heitri laug og orkugefandi náttúrupotti, ræddum málin í setustofunni, borðuðum góðan mat og hlógum mikið.

Ég kom heim í gær, líkaminn þægilega þreyttur eftir allt spriklið og hausinn endurnærður og úthvíldur eftir samveru með frábæru fólki.

Njótum ferðalagsins!

Sjálfsnám – framhald

Þegar maður er búinn að ákveða hvað maður vill læra er næsta skref að festa tíma í sjálfsnámið. Hvenær akkúrat maður ætlar að sinna því.

Wim Hof aðferðafræðin er eitt af því sem ég ætla að læra og prófa á sjálfum mér í haust. Ég hef tvisvar áður byrjað á 10-vikna Wim Hof námskeiði á netinu, en ekki náð að klára. Af hverju ekki? Góð spurning sem ég á ekkert einfalt svar við annað en að manni tekst ekki alltaf allt í fyrstu tilraun – eða annarri…

Nú er komið að þeirri þriðju og nú mun ég klára verkefnið.

Leiðin: Vakna snemma eftir góðan nætursvefn (fer snemma að sofa), tek morgungönguna mína og fer svo beint í Wim Hof æfingarnar. Þær snúast um öndun, teygjur/liðleika/æfingar, hugleiðslu og kulda (kaldar sturtur til að byrja með).

Dagur eitt í viku eitt af tíu í dag. Frábær byrjun á degi og ég hlakka til næstu morgna!

Sjálfsnám

Haustið er tíminn til þess að læra. Sama hvort það er mikið að gera í lífinu eða ekki, það er alltaf hægt að finna tíma til að læra og bæta sig.

Ég notaði sumarið til að meta og melta hvað mig langaði að læra betur í haust. Fyrir sjálfan mig. Síðan hef ég verið að skipuleggja hvernig ég ætla að læra þessa hluti. Hvað oft í viku, hvenær dags og svo framvegis. Sumt tengist vinnu, annað ekki, en sameiginlegt með öllu er að ég hlakka til þess að kafa dýpra og læra meira.

Ég hef verið að stúdera áður allt sem ég ætla að læra betur í haust, en ég ætla núna að núllstilla mig. Haustið er góður tími í það. Fara í 101, grunninn og vinna mig svo áfram, skref fyrir skref. Grunnurinn er mikilvægastur af öllu, í öllu. Það skiptir ekki máli hvað viðfangsefnið er, maður verður að vera með grunninn á hreinu til þess að komast lengra.

Viðfangsefni haustsins:

Sjálfsnám. 7-30 mínútur á dag í hverju viðfangsefni. Markmiðin felast í því að gera eitthvað á hverjum degi. Vita meira í dag en í gær. Byrja á grunninum og byggja svo ofan á hann.

Njótum ferðalagsins.

Haustið

Haustið er eins og mánudagar fyrir mér. Nýtt upphaf, tími til að framkvæma og láta hluti gerast.

Njótum ferðalagsins!

 

(Van)traust

Ég fékk mér mótorhjól í vor. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað ég upplifi traust á annan hátt en mér er eðlislægt þegar ég er á hjólinu.

Mér er eðlislægt að treysta fólki, líka fólki sem ég þekki ekki. Fólk þarf að bregðast þessu trausti til þess að fara í van-traust flokkinn minn.

Einn góður félagi minn er með aðra traust stillingu. Hann vantreystir öllum að fyrra bragði og fólk þarf að vinna sér inn traust hans til að komast í traust flokkinn hans. Og það er ekki auðvelt.

Mér líður eins og honum þegar ég keyri mótorhjólið. Nema hvað það getur enginn í umferðinni unnið sér inn traust mitt. Ég treysti engum, aldrei. Ekki þeim sem keyra fyrir framan mig, ekki þeim sem keyra fyrir aftan mig, ekki þeim sem keyra á móti mér og alls ekki þeim sem keyra við hliðina á mér. Bílstjórar eru svo annars hugar – hugsanlega stundum ég líka þegar ég er bílstjóri – að það væri galið að treysta þeim þegar maður er á meðal þeirra á berskjaldaðra farartæki.

En mér finnst samt ótrúlega gaman að keyra hjólið. Fókusinn er allt öðruvísi en þegar maður keyrir bíl og upplifunin líka. Þannig að ég er ekki að kvarta. Ég held líka að það sé hollt fyrir mig og lærdómsríkt að stíga reglulega inn í umhverfi þar sem ég treysti engum nema sjálfum mér.

Ride on!

 

Viðbrögð við óvæntum aðstæðum

Það er mikilvægt að geta tekist yfirvegað á við óvæntar aðstæður. Hvort sem það er seinkun á flugi, óplönuð ólétta eða spennandi atvinnutækifæri sem þarf að svara strax. Lykillinn í öllum óvæntum aðstæðum er að kaupa sér smá tíma áður en maður bregst við. Róa hugann, til dæmis með því að telja upp á 10 í hljóði. Draga djúpt andann nokkrum sinnum áður en maður veltir fyrir sér möguleikunum í stöðunni. Spá svo í hvaða máli það skipti þótt fluginu seinki aðeins og hvernig maður tækli málið ef seinkunin skiptir virkilega máli.

Það er alltaf einhver leið.  Yfirleitt nokkrar og maður þarf að vera yfirvegaður til að finna bestu lausnina.

Það versta í stöðunni er að missa sig, tapa stjórninni og detta í ands…, djöz…. gírinn. Í þeim gír er maður ekki fær um að taka góðar ákvarðanir og er líkegur til að segja hluti sem maður gæti séð eftir.

Ég er ekki heimsmeistari í að bregðast yfirvegað við óvæntum aðstæðum, en ég er orðinn betri en ég var og fer, vil ég meina, batnandi með því að hugsa þetta meðvitað og gera það að mínu markmiði að halda ró minni þegar aðstæður bjóða upp á annað.

Kúvendingar

Ég var að pæla í uppbroti á rútínu í gær, en svo er líka hollt og skemmtilegt að kúvenda hressilega af og til í lífinu.

Breyta alveg um stefnu og stokka spilin upp á nýtt í vinnumálum til dæmis. Það eykur sjálfstraust og víkkar sjóndeildarhringinn.

Velti því fyrir mér þegar ég skrifa þetta hvort konur séu almennt kjarkmeiri en menn þegar kemur að kúvendingum, man í svipinn eftir miklu fleiri konum sem hafa skipt algerlega um atvinnuvettvang. En ég get ekki vísað á neina tölfræði í þessu, þetta er bara tilfinning.

Sú fyrsta sem kemur upp í hugann hætti að vinna í skóla og fór yfir í alþjóðaviðskipti með fiskafurðir, sú næsta hætti hjá hjálparstofnun og byrjaði að vinna fyrir spútnikfyrirtæki í samskiptageiranum, sú þriðja hætti sem sjálfstæð starfandi dagmanna og hóf störf sem framkvæmdastjóri hjá öflugu fyrirtæki í heilsugeiranum. Konurnar voru allir búnar að vera í sínum störfum í þó nokkur ár og umhverfin þeirra áttu ekki vona á þessum kúvendingum þeirra.

En þær vildu breyta, gerðu það og eru allar ánægðar með það í dag. Umhverfið jafnar sig. Það kemur alltaf kona í konu stað og þegar ein hættir einhvers staðar opnast gluggi fyrir aðra.

Áfram veginn, óhrædd við að kúvenda!

Að brjóta upp rútínu

Góð rútína er gefandi, en um leið er hollt og eflandi að þora að stíga út úr rútínunni og gera hluti sem maður hefur ekki gert áður. Helst þannig að maður sé hálfsmeykur og þurfi að berjast aðeins við – og sigra – varkára púkann á öxlinni sem hatar allt sem er óþekkt og öðruvísi.

Ég er seinna í ágúst að fara að gera eitthvað sem ég hef ekki gert áður og er nett stressaður yfir, verð ég að viðurkenna. En um leið er ég spenntur og hlakka til.

Útifyrirlestur er það sem málið snýst um í þetta skiptið. Í brekkunni fyrir neðan húsið mitt. Hluti af bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, þannig að það hlýtur að vera viðeigandi að vera með fyrirlestur í túninu heima hjá sér!

Þér er boðið 🙂

ps. spurning að taka 1-2 upphífingar eftir fyrirlesturinn?

22. ágúst – „Njóttu ferðalagsins“ í Dælustöðvarbrekkunni

Þriðjudagur kl. 18.00
Heilsuvin og Heilsueflandi samfélag bjóða Mosfellinga velkomna í Dælustöðvarbrekkuna við Dælustöðvarveg. Þar mun Guðjón Svansson fræða okkur um hvernig við getum einfaldað og elskað lífið í öllum sínum fjölbreytileika og lagt okkur fram um að njóta ferðalagsins. Gott er að klæða sig eftir veðri en fyrirlesturinn verður fluttur inn í æfingasal Kettlebells við Engjaveg 12 ef þarf. 

Rútína

Góð rútína er jafn gefandi og vond rútína er slítandi.

Það getur verið erfitt að losa sig úr vondri rútínu en það er algjörlega erfiðisins virði.

Eitt það góða við að koma heim eftir frí og ferðalög er að það gefur manni gott tækifæri til að koma sér upp góðri rútínu. Kveðja slæma rútínu og heilsa nýrri.

Morgunrútínur eru í uppáhaldi hjá mér. Ég er að koma mér upp rútínu þessa dagana. Ég byrja á morgungöngu í skóginum, tek svo öndunaræfingar heima og geri teygjur/liðleikaæfingar af ýmsum toga. Fer síðan í kalda sturtu, geri mér kaffi og tek nokkrar mínútur í DuoLingo – er þar enn að vinna með spænskuna. Þetta tekur allt saman tæpan klukkutíma. Minn tími.

Fyrir mig er þetta frábær byrjun á degi og ég ætla leggja rækt við þessa rútínu þangað til hún er komin svo djúpt inn í kerfið að ég fer að gera hana nánast ómeðvitað, svona eins og að bursta tennurnar á morgnana.

 

Ferðalög og jarðtenging

Ég er búinn ferðast á marga góða staði í ár. Oftast með einhverjum eða öllum úr fjölskyldunni en stundum einn.

Snögg upprifjun segir mér að ég hafi í ár heimsótt  Tæland, Laós, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Bahrein, Katar, Kaupmannahöfn, Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustur, Vík í Mýrdal, Hellu, Hvolsvöll, Þorlákshöfn, Selfoss, Hveragerði, Hellissand, Grundarfjörð, Ólafsvík, Hellnar, Rif, Borgarnes, Ísafjörð, Bolungarvík, Akureyri, Laugarvatn, Þingvelli, Laugar í Sælingsdal, Búðardal og Bjarnarfjörð á Ströndum. Já og Spán, gleymdi því snöggvast að við vorum á Costa Blanca ströndinni í sumar. Og ég er alveg örugglega að gleyma nokkrum öðrum góðum stöðum. Enda er það ekki aðalatriðið.

Aðalatriðið er að mér finnst gaman að ferðast. Alveg ótrúlega gaman. Bæði að koma á nýja staði og upplifa eitthvað nýtt og að koma aftur á staði sem ég þekki vel. Rifja upp góðar minningar og kynnast þeim betur.

En svo er líka alltaf gott að koma heim. Heim í jarðtenginguna 🙂

 

Vertu fyrirmynd

Pabbar eru fyrirmyndir. Mömmur líka. Og afar og ömmur. Lifandi fyrirmyndir sem börn læra af hvort sem okkur líkar betur eða verr. Læra af því hvað við gerum og segjum, mest af því hvað við gerum.

Þetta er jákvætt að vera fyrirmynd. Skemmtilegt og gefandi hlutverk sem okkur er treyst fyrir.

Afi Ingimundur á Ströndum er ein af mínum fyrirmyndum. Hann lagði mikla áherslu á að menn ættu að rækta líkamann og stunda holla hreyfingu. Ekki bara vinna, borða og sofa eins og margir bændur gerðu á þeim tíma.

Hann tók þátt í að byggja sundlaug í Bjarnarfirði (sem stendur enn), æfði glímu og frjálsar íþróttir og lagði mikla áherslu að afkomendur hans gerðu það líka. Hann var léttbyggður en mjög hreyfanlegur. Ég man eftir því þegar ég var smá gutti að sjá hann glíma við einn af sonum sínum. Sá sveiflaði honum í kringum sig, en alltaf lenti sá gamli á fótunum, lét aldrei ná sér niður þrátt fyrir að vera miklu léttari.

Myndin að neðan er af pabba í langstökkskeppni á Ströndum fyrir fáeinum árum. Afi Ingimundur hefur afar líklega komið að skipulagi keppninnar 🙂

Að njóta ferðalagsins – núna

Ég er að njóta ferðalagsins í fríi með fjölskyldunni. Mamma bauð börnunum sínum og þeirra börnum í vikufrí til Spánar til að fagna 70 ára afmæli sínu. Sjötugsafmælið er reyndar á næsta ári en henni fannst ómögulegt að bíða eftir því, hugmyndin var komin og hún vildi kýla á hana. Algerlega til fyrirmyndar. Af hverju að bíða?

Það er búið að vera frábært að vera svona mikið með fólkinu sínu. Vera í núinu. Njóta þess einfalda. Samveran er það sem skiptir mestu máli.

Þetta hefur liðið hratt og þessi góða ferð er að klárast. Hluti hópsins er á leið heim til Íslands, hluti heim til Danmerkur, hluti verður áfram á Spáni – að taka þátt í alþjóðlegu fótboltamóti.

Takk fyrir mig!

Ekki vera hræddur

Við fjölskyldan horfðum í gær á frekar nýlega mynd um Paddington, björninn unga frá myrkviðum Perú sem var sendur til London til að finna sér fjölskyldu.

Ég hafði alltaf gaman af Paddington sem krakki, toppbjörn, góður í sér og uppfinningasamur.

Í myndinni fannst mér sérstaklega ánægjulegt að sjá fjölskyldufaðirinn í London breytast frá því að vera ofverndandi, smámunasamur og leiðinlegur pabbi í að verða, á ný, hress, lifandi, þorinn og lifandi einstaklingur. Hann hafði verið þannig áður en hann eignaðist börn en datt í ofverndunargírinn og festist í honum við að eignast afkvæmi.

Það þurfti lítinn björn frá myrkviðum Perú til að vekja hann aftur til lífsins, gera hann aftur að skemmtilegum pabba sem var ekki hræddur við allt.

Ég tengdi við þetta þegar ég horfði á myndina. Ég þarf reglulega að stíga út fyrir öryggis/hræðsluhringinn sem föðurhlutverkið setur mann í. Málið er bara að það er svo súrt að vera hræddur og fastur í fölsku öryggi. Maður gerir þá ekki neitt nema að passa sig og það er hvorki skemmtilegt fyrir þig eða þá sem eru í kringum þig.

Alveg eins og krakkar verða að fá að klifra í trjám, hlaupa niður brekkur og gera aðra hluti sem þau gætu hugsanlega meitt sig á, verðum við foreldrar stundum að gera hluti sem taka okkur út fyrir öryggishringinn til þess að fá það besta út úr lífinu.

Alveg eins og Paddington.

Rétt eða rangt?

Mér finnst gott að borða hráan fisk, Hadda vini mínum finnst það ekki vera matur. Það þýðir ekki að hrár fiskur sé annað hvort veislumatur eða ekki-matur. Það þýðir bara að mér finnst hann góður og honum ekki. Og við þurfum ekki að eyða orku í að sannfæra hvorn annan um að okkar skoðun sé sú rétta. Það væri að fara illa með tíma okkar og orku. Við myndum aldrei ná saman í þessu máli. Þess í stað erum við sammála um að við höfum ólíka sýn á hráan fisk og ágæti hans og þurfum ekkert að ræða það frekar. Ég borða áfram hráan fisk, hann  ekki og við erum áfram vinir.

Það eru allavega tvær hliðar á öllum málum og oftast er hægt að finna ágætis rök fyrir ólíkum skoðunum og leiðum. Það er lýjandi að hafa skoðun á öllu enda óþarfi. Maður þarf ekki að setja sig inn í öll mál eða hafa áhuga á öllu. Hjólastígar, flugvellir, lágvöruverslanir, hænur í borgum, lífeyrissjóðir, nagladekk, dómsmál, gervigras eða alvöru gras. Listinn er endalaus og ef þú ætlar að eyða tíma þínum og orku í að hafa fastmótaða skoðun á öllu sem rætt er um í samfélaginu og svo reyna að sannfæra guð og alla um að þín skoðun sé sú eina rétta, þá gerir þú lítið annað í lífinu.

Hugsanlega er betra að velja það sem virkilega skiptir mann máli og maður brennur fyrir og einbeita sér að því. Láta hitt eiga sig. Slaka aðeins á. Njóta lífsins og leyfa því að flæða betur.

Sinntu áhugamálunum

Áhugamál eru smitandi og það hefur jákvæð áhrif á börnin þín að fylgjast með þér rækta eitthvað sem þú hefur mikinn áhuga á og veitir þér gleði.

Fyrir þig er sömuleiðis nauðsynlegt að kúpla frá daglegum skyldum og hlaða orkutankinn með því að gera eitthvað sem þér finnst stórkostlega skemmtilegt.

En þú verður að forgangsraða áhugamálunum og leggja mesta rækt við þau áhugamál sem gefa þér mest.

Gerðu mistök

Maður lærir mest af því að gera mistök. Falla á prófi, taka ranga ákvörðun, mistakast eitthvað sem maður vill virkilega takast.

Svo prófar maður aftur, undirbýr sig enn betur og gerir betur en síðast. Stundum þarf margar tilraunir. Það er allt í lagi ef manni virkilega vill takast það sem maður er að reyna í það og það skiptið.

Það er líka hægt að sleppa því að læra af mistökunum. Gera þau aftur án breytinga eða gefast upp. En það er síðri kostur. Mun síðri en að læra af mistökunum og láta þau bæta mann sem persónu.

Mér hefur oft mistekist og ég hef fallið á prófum. Ég féll til dæmis á ketilbjölluþjálfaraprófi á stóru þjálfaranámskeiði í Danmörku árið 2006. Þrjá daga í röð féll ég á sama prófinu. Tæknin var bara ekki nógu góð og námskeiðið of krefjandi til þess að ég næði að æfa mig fyrir það. Fór heim með fall á bakinu.

En ég á góðar minningar frá því tímabili sem ég notaði til að undirbúa mig fyrir upptökuprófið. Prófið snérist um að gera 56 snatch með 24kg ketilbjöllu án hvíldar. Ég náði mest 55 á prófinu í Danmörku. Vantaði eina endurtekningu.

Ég æfði mig í stofunni, úti í garði og á afviknum stöðum í Mosfellsdal. Alltaf með Greenday lög í bakgrunninum.

Sit around and watch the tube, but nothing’s on

I change the channels for an hour or two

Ég þurfti að æfa mig í margar vikur til þess að ná tækninni almennilega. Tók svo prófið í stofunni í Krókabyggðinni þar sem við bjuggum á þeim tíma og sendi myndbandið út á Pavel Tsatsouline sem var á þeim tíma yfirþjálfari hjá RKC félaginu sem stóð fyrir námskeiðinu og veitti ketilbjölluþjálfararéttindin.

Það var ótrúlega gaman að fá jákvætt svar tilbaka. Miklu betra en ef ég hefði slugsast einhvern veginn í gegnum prófið og náð því án þess að hafa unnið almennilega fyrir því.

Mín skilaboð til allra sem hafa nýlega gert mistök, fallið á prófi eða tekið rangar ákvarðanir: Til hamingju! Nýttu þér reynsluna á jákvæðan hátt. Lærðu. Gerðu betur næst og njóttu síðan þeirrar góðu tilfinningar sem því fylgir að ná árangri eftir að hafa virkilega unnið fyrir honum.

Einfaldaðu lífið

Þú þarft ekki að segja upp vinnunni og selja allt sem þú átt til þess að einfalda lífið. Einföldun á lífinu snýst um að greina hvað skiptir mann mestu máli í lífinu og einbeita sér að því í stað þess að flækja hlutina og vera á stanslausum spretti í gegnum lífið.

Einfaldara líf krefst minni tekna. Gefur þér tíma og orku. Akkúrat sem þú vilt sem pabbi. Þú vilt hafa tíma til að sinna þínum nánustu og orku til að gera það vel.