Inntakið í þessum pistil er fengið að láni hjá vini mínum Halla Nels sem í miðjum snjómokstri fékk góða ábendingu frá eldri manni um að hann ætti að vera þakklátur fyrir að hafa heilsu til að moka svona mikið og af svona miklum krafti. Halli hætti að vorkenna sjálfum sér og bölva því að þurfa að standa í þessu veseni enn og aftur og snjómoksturinn varð allur léttari eftir spjallið við þann gamla.
Það er akkúrat á svona stundum, þegar veðurguðirnir minna hressilega á sig, sem við sem erum heilsuhraust eigum að nota orku okkar í að gera gagn. Fyrir okkur sjálf og aðra. Við getum lagst í tuð og vorkennt okkur fyrir að veðrið á eyjunni okkar hér lengst norður í Atlantshafi dirfist að trufla dagskrána okkar í lok árs. Við getum líka tekið Halla okkur til fyrirmyndar. Nýtt okkur það að við höfum heilsu til að gera gagn og verið þakklát fyrir það.
Þessu tengt, við sem höfum heilsu til að æfa okkur og styrkja dags daglega eigum að gera það. Punktur. Ef ekki til þess að líða betur á líkama og sál, þá til þess að geta gert gagn þegar samfélagið þarf á okkur að halda. Þetta tvennt finnst mér vera megintilgangur þess að æfa reglulega, að líða betur og geta gert gagn. Geta hjálpað sjálfum sér og öðrum. Líkamsrækt á ekki að snúast um speglafegurð og fituprósentu, ekki það að það sé neitt að því að líta út eins og fegursti karlmaður Mosfellsbæjar frá upphafi, Baldvin Jón Hallgrímsson, en hann getur svo sem lítið að því gert, blessaður.
Setjum okkur heilsuhreystismarkmið fyrir næsta ár. Sama hvar við erum í dag, það er alltaf hægt að spyrna sér upp á við. Verum eins klár í desemberlægðirnar á næsta ári og við mögulega getum. Æfum!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. desember 2022