Ég fór út að hlaupa í gær. Er farinn að hafa gaman af því að hlaupa (án bolta), nokkuð sem ég hélt að myndi aldrei gerast. Ég man mjög vel eftir því að hlaupa Stífluhringinn fræga í Árbænum á undirbúningstímabilinu fyrir fótboltann. Það var aldrei gaman. Ég man líka eftir því að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Það var hugsanlega eitt það leiðinlegasta sem ég hef nokkurn tíma gert á ævinni. Og ég hef aldrei gert það aftur.
Leiðinlegast fannst mér þegar hópur eldri kvenna (ég var sjálfur um þrítugt) hljóp brosandi og hlæjandi fram úr mér – þær svifu hreinlega yfir malbikinu af hlaupaorku og lífsgleði. Ég hló ekki með þeim, var mjög langt frá því hamrandi grjóthart malbikið á Sæbrautinni með lúnum löppum.
En svo lenti ég í því að melda mig í 21km þrautahlaup sem verður í júní og ákvað að undirbúa mig betur en fyrir hálfmaraþonið forðum. Ég hef verið í hlaupaprógrammi frá Polar sem er sniðið að mér og mínum markmiðum. Það hefur verið hressandi að fara út að hlaupa í vetrartíðinni og enn meira hressandi núna þegar það er að byrja að vora. Ég hljóp fyrst í snjónum – ekki annað í boði – en er núna byrjaður að þræða alla malarstígana okkar hér í nánasta umhverfi Mosfellsbæjar. Það er af mörgu að taka og gaman að prófa nýjar leiðir.
Ígær fór ég til dæmis upp í Skammadal og þræddi hann áður en ég hljóp niður með Varmánni að Álafosskvosinni þar sem ég sneri við. Ég heyrði í fuglunum og ánni, sá rjúpur, lenti í allskonar undirlagsævintýrum á leiðinni – sökk sumstaðar vel yfir ökkla, fann lyktina af vorinu og upplifði mikla ánægju við það að vera hlaupandi úti í ferskri náttúrunni. Gott ef mér varð ekki hugsað til eldri kvennanna sem hlupu brosandi fram úr mér forðum. Áfram veginn!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. apríl 2022