Nottingham Forest komst upp í efstu deild á Englandi um síðustu helgi eftir að hafa reynt það í 23 ár. Þrautsegja og þolinmæði, takk fyrir. Hinn ungi fyrirliði Joe Worrall talaði um í viðtali strax eftir úrslitaleikinn við Huddersfield á Wembley að ástæðan fyrir þessum árangri væri fyrst og fremst knattspyrnustjórinn, Steve Cooper, en hann tók við liðinu 21. september 2021, þá sigurlausu í neðsta sæti næstefstu deildar.
„Við vorum eins og barðir hundar áður en hann tók við liðinu,“ sagði Worrall. „Hans aðferðafræði og nálgun er allt önnur en við höfum kynnst hjá öðrum stjórum. Hann gaf okkur trú á sjálfa okkur og gerir allt sem hann getur til þess að láta okkur líða vel, sem leikmönnum og manneskjum.“
Ég hef aldrei skilið hina leiðina, að stjórna með yfirgangi og látum, að skamma fólk endalaust fyrir að gera mistök, láta það stöðugt vita hvað það getur ekki gert og þannig draga úr því kraft, vilja og orku.
Ég hef kynnst þannig þjálfurum, kennurum og leiðbeinendum og enginn þeirra gerði mikið fyrir mig. Frekar öfugt. Ég man miklu meira eftir þeim sem litu jákvæðum augum á lífið og létu mann vita að það væri eitthvað í mann spunnið. Alveg eins og Steve Cooper er að gera með Forest í dag. Ég man eftir nafna mínum Eiríkssyni sem var flokksstjórinn minn í unglingavinnunni. Hann var hress, hvetjandi, jákvæður og hélt góðum aga á okkur letidýrunum með húmor og jákvæðri ákveðni. Hann fékk mig síðan seinna til að koma og æfa með Aftureldingu, ég man enn eftir mjög uppbyggilegu símtali frá honum sem mér þótti vænt um. Ég man líka eftir Ruth umsjónarkennara í Árbæjarskóla sem var hvetjandi og ströng á jákvæðan hátt. Hún var elskuð og virt af öllum bekknum og lifir alltaf í minningunni.
Njótum ferðalagsins!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 2. júní 2022