Við erum á Okinawa. Fluttum okkur á milli staða í gær, frá Chatan sem liggur við hliðina á Kadena herstöðinni, til Motubu sem er norðar á eyjunni.

Eftir að hafa fengið okkur hádegismat í Motubu röltum við í almenningsgarð þorpsins, þar tóku á móti okkur ljónhress hópur eldri borgara. Þau stukku á okkur um leið og við komum í garðinn og skoruðu, með stríðnisglampa í augum, á okkur í 8 holu höggleik sem þau höfðu sett upp.

Við tókum að sjálfsögðu áskoruninni og spiluðum við þau. Lærðum á leikinn um leið og við spiluðum. Það var mikið hlegið og brosað og við fengum hrós þegar við náðum góðum höggum.

Aldursforsetinn var 86 ára og hin ekki mikið yngri. Þau hittast í garðinum þrisvar í viku og spila í tvo klukkutíma í senn. Við stefnum á að hitta þau aftur á morgun.

Þessar hressu og skemmtilegu móttökur yljuðu okkur mikið og sýndu okkur í leiðinni að það er engin tilvijun að langlífi og góð heilsa er algeng á Okinawa.

Bók í forsölu (föstudagspóstur úr ferðlaginu fylgir með)

Categories:

Tags: