Helena frænka

Ég fjallaði um jafnvægi á þessum vettvangi í síðustu viku. Um mikilvægi þess að hafa jafnvægi í lífinu og því sem maður tekur sér fyrir hendur. Helena Jónsdóttir, þjálfari Heiðarskólaliðsins, sem vann Skólahreystikeppnina í síðustu viku, nefndi gott jafnvægi í liðinu sem lykilþátt í sigri þess. Jafnvægi er sömuleiðis mikilvægt til þess að geta tekist á við óvæntar aðstæður og uppákomur.

Vetrarharka í maí er til dæmis eitthvað sem Íslendingar áttu ekki von á og hafa látið koma sér úr jafnvægi. Eðlilega, kannski. Ég viðurkenni alveg að ég fagnaði ekki hríðinni þegar hún birtist eins og þruma úr heiðskíru lofti. Nýbúinn að ná í mótorhjólið úr vetrargeymslunni og byrjaður að nota það til að komast á milli staða. Það er lítið fjör að vera á mótorhjóli í stórhríð þannig að það er aftur komið í tímabundið hýði.

En snjór og kuldi í maí er eitthvað sem við dauðlegar verur eigum mjög erfitt að hafa áhrif á. Við höfum hins vegar alltaf val um hvernig við bregðumst við óvæntum aðstæðum.

Við getum valið að fara Útvarp Sögu leiðina, einblína á það neikvæða og velta okkur upp úr því. Kvarta, kveina og vorkenna sjálfum okkur út í hið óendanlega.

Við getum líka valið Loga Bergmann leiðina. Finna það jákvæða í stöðunni, hafa húmor fyrir maísnjónum og láta hann ekki eyðileggja fyrir okkur daginn. Það birtir alltaf til. Logi veit það og við vitum það öll.

Við veljum sjálf hvernig við bregðumst við óvæntum og erfiðum aðstæðum. Hvernig við högum okkur og hvað við segjum við aðra. Ég var fljótur að jafna mig á maísnjónum. Mín leið til þess að tækla hann er einfaldlega að taka honum fagnandi. Klæða mig vel, fara út í langa göngutúra, búa til snjóbolta, skoða skíðamöguleika og njóta samspils vorsólar og hvítrar jarðar sem er einstakt.

Ég reyni að hafa þetta að leiðarljósi þegar óvæntar aðstæður banka upp á – að láta þær ekki koma mér of mikið úr jafnvægi og reyna að vera fljótur að finna það jákvæða í stöðunni og þau spennandi tækifæri sem hið óvænta alltaf bíður upp á.

Njótum ferðalagsins!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *