Mér hlotnaðist sá heiður haustið 2020 að verða formaður knattspyrnufélagsins Hvíta riddarans. Fyrir mér erum við eitt, Afturelding, Hvíti riddarinn og Álafoss. Þrjú fótboltalið, hvert með sínar áherslur en sameiginlega hugmyndafræði: að allir sem vilja æfa fótbolta geti fundið tækifæri við sitt hæfi. Í dag eru Hvíti riddarinn og Álafoss bara með karlalið, en nú þegar stelpum í fótbolta fjölgar ört í Mosfellsbæ er ekkert því til fyrirstöðu að kvennalið bætist við á næstu árum.
Aðalatriðið er samvinna milli þeirra sem þjálfa og stýra liðunum. Eitt af okkar aðalhlutverkum er að hjálpa ungum knattspyrnuiðkendum að halda áfram að æfa þegar þeir eru gengnir upp úr unglingaflokki og komnir í meistaraflokk. Við viljum halda þeim í íþróttum, það hefur forvarnargildi, er heilsueflandi og félagslega mikilvægt. Samvinnan teygir sig niður í yngri flokkana og í sumar munu leikmenn úr 2. flokki Aftureldingar líka spila leiki með meistaraflokkum Hvíta riddarans og Álafoss. Hér vinna saman yfirþjálfari knattspyrnudeildar Aftureldingar sem og þjálfarar 2. flokks og meistaraflokks liðsins og þjálfarar Hvíta riddarans og Álafoss.
Samskiptin eru regluleg og góð og snúast um að finna tækifæri fyrir þá leikmenn sem eru að nálgast meistaraflokkinn og styrkja þann hóp leikmanna sem mynda kjarnann í meistaraflokkunum. Liðin þrjú leggja áherslu á að byggja sem mest á heimamönnum og skapa þannig sterka tengingu við Mosfellsbæ og Mosfellinga. Þetta eru liðin okkar.
Hvíti riddarinn spilaði æfingaleik við Skallagrím í fyrrakvöld. Hópurinn: Birkir, Guðjón B, Gummi K, Daníel I, Egill, Búi, Kolli, Guðbjörn, Hrafn E, Eiður, Björgvin, Kári, Patz, Davíð, Logi, Eiki. Allt heimamenn. Fjórir úr 2. flokki Aftureldingar.
Ég hef ofurtrú á góðu samstarfi þar sem allir skipta máli og samstaða ríkir um hvert skal haldið. Markmiðin skýr. Mér finnst við vera á þannig leið og get varla beðið eftir fótboltasumrinu sem er fram undan. Áfram veginn!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. febrúar 2022