Það er eitthvað að gerjast

Ég hitti Kristínu Heiðu Kristinsdóttur, blaðamann á Morgunblaðinu í vikunni. Við spjölluðum saman um heima og geima, það var virkilega gaman og fróðlegt að tala við hana. Upp úr spjalli okkar vann hún grein sem birtist í Mogganum í gær. Bæði í blaðinu sjálfu og á MBL.is.

Ég er búinn að heyra frá mörgum eftir að viðtalið var birt. Ótrúlega mörgum eiginlega. En kannski er það ekki svo ótrúlegt. Það eru greinilega margir að pæla í svipuðum hlutum, hvernig hægt sé að einfalda lífið og lifa því öðruvísi. Njóta þess betur með þeim sem maður vill njóta þess með. Í stað þess að vera fastur í kerfi sem aðrir hafa hannað fyrir mann. Fastur í stöðugu áreiti.

Hér er viðtalið fyrir áhugasama um lífið og tilveruna.

Njótum ferðalagsins!

Gaui

Þakklæti

Ég pæli mikið í þakklæti og nota þá sterku tilfinningu sem þakklæti skapar mikið á sjálfan mig. Sérstaklega ef ég dett í að vorkenna sjálfum mér og velta mér upp upp úr smáatriðum sem skipta ekki máli í stóra samhenginu.

Þakklætið er nú komið inn í morgunrútínuna mína. Þakka í huganum fyrir allt sem mér dettur í hug þegar fer í stuttu morgungönguna mína. Nota helminginn af göngunni í þakklætispælingar. Það er alveg magnað hvað það er margt sem maður getur verið þakklátur fyrir og sömuleiðis magnað hvað það gefur manni mikið að vera þakklátur.

Prófaðu að hugsa um 10 hluti sem þú getur verið þakklátur fyrir. Upplifðu hvað það gerir fyrir þig. Sérstaklega ef eitthvað er að pirra þig eða angra.

Njótum ferðalagsins!

Lærum að detta

Við tókum nokkur júdórúll á útiæfingunni í morgun. Í snjónum. Skemmtileg æfing og mikilvæg. Ætti að vera kennd í grunnskóla. Það er svo mikilvægt að kunna að detta rétt. Getur komið í veg fyrir beinbrot, höfuðáverka og önnur óþægindi. Hef sjálfur upplifað það. En maður verður að rúlla reglulega, það er ekki nóg að vita hvað maður á að gera, það þarf að gera viðbrögðin ósjálfráð svo þekkingin nýtist þegar á þarf að halda.

19 ár

Við Vala eigum 19 ára brúðkaupsafmæli í dag. Giftum okkur í Danmörku og skruppum sama dag í eins sólarhrings brúðkaupsferð til Parísar af því tilefni. Náði að koma henni á óvart þá. Hún kom mér á óvart með lúxúsmorgunverði þegar ég kom inn í morgun eftir að hafa verið úti á æfingu með morgunhópinn minn.

Vala er best í heimi 🙂

Mánudagsstyrkur

Mánudagur er dagur styrktaræfinga. Ég tók mína styrktaræfingu úti áðan. Clean og Press með einni ketilbjöllu í stigaformi. 1 endurtekning vinstra megin, 1 hægra megin. Ör-pása. 2 endurtekningar vinstra megin, 2 hægra megin. Þrjár endurtekninga sitt hvoru megin. Eftir hverja pressulotu tók ég jafnmargar upphífingar í hringjum. Fimm umferðir af þessu. Samtals 30 endurtekningar. Rólegt tempó, ör-pásur, góð tækni. Svo Snatch á eftir. 7,6,5,4,3,2,1 endurtekningar, vinstri/hægri.

Þetta var auðvelda styrktaræfing vikunnar. Tek aðra meira krefjandi á miðvikudag og svo þá erfiðustu á laugardaginn.

Fíla þetta prógramm vel. Fengið að láni frá Pavel Tsatsouline, en við Vala hittum og lærðum ketilbjöllufræði af þeim mikla meistara og fleiri góðum fyrir sléttum tíu árum.

Njótum ferðalagsins – sterk!

Gaui

Joy og Laos

Við fjölskyldan vorum í Laos í desember. Sigldum frá landamærum Thailands og Laos í norðri niður Mekong fljótið á stórum fljótabát. Með okkur á bátnum var þýskt par, leiðsögumaðurinn okkar, Joy og fjölskylda sem stýrði bátnum og eldaði mat fyrir okkur. Siglingin tók 2 daga. Við gistum í litlum bæ nóttina á milli. Þetta var mögnuð upplifum. Við liðum í rólegheitum niður fljótið, sáum m.a. vatnabuffalóa, heimafólk í daglegu stússi sínu við fljótið og fallega náttúru. Stoppuðum nokkrum sinnum á leiðinni og kíktum þá á þorp og sögulega hella.

Joy var frábær leiðsögumaður. Hann er um þrítugt. Fæddist í litlu þorpi við fljótið en fór ungur, eins og margir, til borgarinnar í skóla. Leiðin til þess var að gerast búddamunkur. Fá þannig húsaskjól, fæði og fræðslu. Joy var munkur í átta ár og var að mestu ánægður með þann tíma. Mikill agi, en líka miklar pælingar um lífið og tilveruna. Fór reglulega heim til fjölskyldunnar og hélt þannig tengslum við hana.

Þetta er mjög algengt í Laos. Munkaheimavistarskólar fyrir krakka úr fátæku þorpunum. Joy fór svo í háskóla í Luang Prabang og menntaði sig í viðskiptafræði. Byrjaði að vinna í banka, sem er mjög eftirsótt og mikil forréttindi í Laos. Öruggar tekjur, jakkaföt, þægileg innivinna. En Joy gat þetta ekki. Gat ekki setið inn á skrifstofu í jakkafötunum sínum fínu allan daginn. Hann sagði upp starfinu, fór að stúdera ferðamálafræði og vinnur í dag við sem leiðsögumaður fyrir ferðamenn – fólk eins og okkur sem heimsækja landið hans fallega. Hann tekur fljótabátaferðir, hjólaferðir, gönguferðir og fleira skemmtilegt. Lægri tekjur og óstabílli en bankavinnana, en hann er sáttur í sínu skinni og líður vel.

Laos er nýtt ferðamannaland. Mjög fallegt, stórbrotið landslagi, mjög gróið. Gamlir og nýjar tímar að mætast. Lítil frumstæð þorp og vaxandi borgir.

Það sem truflar mig við Laos er mikil erlend fjárfesting. Aðallega frá Kína. Það er verið að byggja stíflur og hraðbrautir og leggja hraðlestarteina í gegnum landið. Þetta á eftir að hafa gríðarleg áhrif á náttúruna og heimamenn og ég er ansi smeykur um að allar þessar fjárfestingar og framkæmdir í landinu muni skila meiru í vasa fjárfestanna en heimamanna. Það má sjá merki um þetta nú þegar. Stíflur eru að breyta lifnaðarháttum við Mekong fljótið í Laos og munu sömuleiðis hafa áhrif í öðrum löndum í S-Austur Asíu þar sem fljótið rennur. Lokuð svæði bara fyrir útlendinga eru að byggjast upp í kringum Luang Prabang. Og fleira mætti nefna.

Mín tilfinning er að það sé smám saman verið að yfirtaka Laos. Ég vona að heimamenn nái að sporna við þessarri þróun. Verði ekki þrælar í eigin landi. Heimamenn þurfa að hafa meiri trú á sjálfum sér og sínu magnaða landi. Sjá fegurðina í því og hvað fólki finnst merkilegt að koma þangað. Því að landið er virkilega fallegt og þess virði að sækja heim.

Njótum ferðalagsins,

Gaui

 

Er ist ein Mann

DuoLingo er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hef verið að læra spænsku í gegnum þetta ókeypis snilldarkerfi sem gengur út á að byggja upp tungumálakunnáttu frá grunni með því að hlusta, tala, skrifa og lesa. Einfaldar setningar sem verða flóknari skref fyrir skref. Orðaforðinn byggist upp jafnt og þétt.

Var að bæta þýsku við spænskuna. Kemur á óvart hvað það er auðvelt að læra tvö ólík tungumál á sama tíma. Er með háskólagráðu í þýsku, merkilegt nokk – en engan orðaforða og mjög litla talfinningu. Byrja því frá grunni og hlakka til að bæta mig í þessu tungumáli sem ég elskaði að hata í menntaskóla!

Aðferðafræði DuoLingo er ljósárum á undan gamla skólanum sem gekk út á að læra eins og páfagaukur flókna og að því virtist á þeim tíma fullkomnlega tilgangslausa málfræði. DuoLingo kennir manni málfræði án þess að maður taki eftir því.

Hlakka til að bæta mig í þessum tveimur málum og svo bæta fleirum við.

Njótum ferðalagsins!

Gaui

 

Sjórinn

Ég fór í sjóinn í hádeginu í dag með góðum félögum. Hrikalega er þetta nú hressandi! Kveikir á hverri einustu frumu líkamans, maður er sjaldan meira lifandi en eftir að hafa spriklað aðeins í köldum sjó. Hann var rúmlega 4 gráður í dag.

Í dag stukkum við af kletti í hafið, enda háflóð. Það er alltaf hressandi að fara í sjóinn, en stökkið jók hressleikann um nokkur stig.

Næst á dagskrá er að bæta skriðsundið og lengja aðeins tímann í sjónum.

Njótum ferðalagsins!

Gaui

Morgunsprikl

Ég byrja tvo morgna í viku á því að þjálfa. Vakna þá kl. 5.45 og fer út með hópinn minn kl. 6.15. Við erum alltaf á ferðinni, löbbum, joggum, sprettum, tökum fram- og afturstigsgöngu, hlébarðagöngu, spidermangöngu, skríðum undir þétt grenitré, hoppum, stökkvum, notum tröppur, gras, hitaveitastokka, veggi, kletta og hvað sem fyrir okkur verður til þess að gera styrkjandi og liðkandi æfingar fyrir allan líkamann.

Mér finnst þetta stórkostlega gaman og er virkilega þakklátur fyrir að fólk mæti svona snemma á morgnana til að æfa. Byrji daginn í góðum félagsskap, á góðri hreyfingu, úti í náttúrunni, sama hvernig viðrar.

Hugsanlega besta mögulega byrjun á degi.

Og það er hægt að þjálfa sig upp í að verða morgunmanneskja. Venja sig á það. Ég gerði það sjálfur. Var kvöldhrafn, fór seint að sofa, hékk yfir hinu og þessu og vaknaði þreyttur. Gat ekki hugsað mér að tala, hvað þá að hreyfa mig á snemma á morgnana. En svo datt í inn í að þjálfa fólk á morgnana. Fannst það erfitt fyrst, en hafði enga undankomuleið og þegar ég hafði gert þetta í einhvern tíma fór ég ósjálfrátt að breyta öðru í lífinu til að verða ferskari á morgnana. Hætti kvöldhangsi, fór að sofa betur, vaknaði ferskari, byrja dagana betur. Nú er þetta fastofið inn í kerfið og ég hlakka til æfingamorgnana þegar ég fer að sofa á kvöldin

Njótum ferðalagsins!

Gaui

 

 

 

Ísland

Ég elska að ferðast. Hef verið svo heppinn að ferðast út um allan heim vegna vinnu og hef komið á staði sem ég hefði örugglega annars ekki heimsótt. Ég hef komið til um það bil 60 landa, held ég, á því ekki nema um það bil 140 eftir.

En eins gaman og fræðandi það er að ferðast til annarra landa, þá ert alltaf gott að koma aftur heim til Íslands. Í samanburði við lönd heims þá erum við forréttindaþjóð. Við höfum miklar náttúruauðlindir, heitt og kalt vatn, fengsæl fiskimið og stórbrotna náttúru. Við búum í samfélagi þar sem öruggt er að ala upp börn. Samfélagi þar sem jafnrétti kynjanna er grunngildi. Samfélagi sem stendur saman þegar eitthvað bjátar á. Samfélagi sem fagnar sigrum saman.

Við getum tuðað og kvartað yfir hinu og þessu og missum okkur stundum í því. En maður velur sjálfur hvort maður tekur þátt í því að kvarta og kveina yfir hlutum sem litlu máli skipta.

Þegar ég dett í kvartgírinn, hugsa ég til landa og svæða þar sem ég myndi ekki vilja ala upp mín börn. Ég hugsa til svæða þar sem fólk þarf að búa inni í víggirtum og vöktuðum svæðum af ótta við rán og líkamsárasir. Svæða þar sem börn mega aldrei vera ein úti að leika. Svæða þar sem ekki er rennandi vatn. Svæða þar sem sérreglur gilda fyrir konur. Svæða þar sem maður þarf alltaf að vera á varðbergi. Það er aldrei betra að koma heim til Íslands en þegar maður hefur verið á slíkum stöðum.

Mín skoðun er sú að í stað þess að nota orku og tíma í að kvarta yfir hlutum sem skipta litlu máli, ættum við frekar að reyna að finna lausnir á stærri vandamálum sem herja á önnur svæði heimsins. Hugsa þetta heildrænt, ekki bara einblína á eyjuna okkar fögru. Með því að stuðla að góðum breytingum annars staðar, hvernig sem við förum að því, bætum við líf okkar sjálfra í leiðinni. Okkar allra.

Njótum ferðalagsins!

Gaui

Traust

Mér var sýnt mikið traust í dag. Trúað fyrir viðkvæmum upplýsingum sem gætu skaðað viðkomandi ef þær kæmu fram. Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér var sýnt og mun fara vel með það. Traust er jafn styrkjandi og eflandi og vantraust er étandi og orkukrefjandi. Ég er þannig gerður að ég treysti fólki í grunninn og það breytist ekki nema fólk gefi mér ástæðu til annars. Sumir elska plott og baktjaldamakk, líður aldrei betur en þegar slíkt er í gangi. En ég myndi tærast hratt upp í þannig umhverfi og er fljótur að forða mér úr aðstæðum þar sem vantraust og plott er ríkjandi.

Njótum ferðalagsins!

 

 

 

Guðni Bergsson

Guðni Bergsson á eftir að verða góður formaður KSÍ. Það fylgir honum góður andi. Hann ætlar að byggja á því góða sem gert hefur verið. Nota það sem grunn. Það er farsælt, ekki síst þegar staða KSÍ hefur aldrei verið betri, fjárhagslega og landsliðslega. Síðan bæta og breyta til batnaðar, það er alltaf þannig að það má gera gott betra.

Maður sem hefur verið fyrirliði ensks efstudeildarfélags, sinnt menntun sinni í gegnum atvinnumannaferilinn og komið vinnufélaga sínum til varnar í hættulegri líkamsáras getur ekki annað en verið traust og trú persóna. Ég veit líka að honum er umhugað um stærri og smærri félagslið Íslands og hefur gert ýmislegt fyrir þau smærri án þess að það hafi farið hátt.

Hlakka til að fylgjast með honum leiða KSÍ næstu ár.

Æfinganördismi

Við hjónin stofnuðum Kettlebells Iceland fyrir ellefu árum og höfum síðan verið með einstaklinga og hópa í styrktarþjálfun. Það er fátt eins gefandi og að þjálfa skemmtilegt fólk og það er bara skemmtilegt fólk sem æfir hjá okkur. Staðreynd.

Mér finnst skemmtilegt að gera tilraunir á sjálfum mér með æfingar og æfinganálgun. Prófa mig áfram. Finna hvað virkar vel og hvað virkar síður.

Það er einstaklingsbundið hvers konar æfingaform hentar fólki best. Sumir þrífast best í hóp, vilja æfa með öðrum, undir stjórn þjálfara. Aðrir vilja frekar æfa sjálfir. Ég tengi við bæði. Það er gaman að æfa með góðu fólki, gefur manni kraft og orku. Sömuleiðis aðhald, hópurinn passar upp á einstaklingana, að fólk mæti og skili sínu. Og það er gott að æfa undir stjórn þjálfara sem veit hvað hann er að gera.

En mér finnst líka gott að æfa sjálfur. Tengi þannig við munkinn í sjálfum mér. Geri þá yfirleitt fáar, einfaldar æfingar, skrái hjá mér hvað ég geri og hvernig mér líður. Hvaða áhrif æfingarnar hafa á mig. Svo nota ég þessar upplýsingar þegar ég er að þjálfa aðra.

Núna er ég að rifja upp æfingaprógramm sem ég notaði mikið sjálfur þegar við vorum að byrja með ketilbjölluæfingar. Þetta er einfalt prógram sem virkaði vel fyrir mig á sínum tíma. Þrjár fastar æfingar á viku. Áhersla á ketilbjölluæfingarnar Clean & Press, Swing og Snatch. Upphífingar með. Fyrirkomulagið er þannig að æfingar vikunnar eru miserfiðar. Mild æfing á mánudögum, meðalerfið æfing á miðvikudögum og erfið á laugardögum. Markmiðið er að auka styrk og úthald.

Ég byrja með ákveðna þyngd og vinn með hana þangað til ég er tilbúinn að fara upp í næstu þyngd. Það tekur nokkrar vikur. Svo færi ég mig upp í næstu þyngd og svo koll af kolli. Ég fíla einfaldleikann í botn og ætla að fylgja þessu prógrammi fram á vor. Meta hverju það skilar mér. Þetta er ekki fyrir alla. Svona prógramm virkar ekkert sérstaklega vel í hópþjálfun, fjölbreytnin er svo lítil. Þetta hentar best þeim sem vilja/geta æft sjálfir. Maður þarf ekki mikinn útbúnað. Örfáar ketilbjöllur og upphífingaslá. Góð músík hjálpar. The Cult er að fara með mér í gegnum þetta prógramm. Einföld, þykk og hrá rokkmúsík. Svínpassar við prógrammið.

Njótum ferðalagsins!

Fréttir

Ég hef alla tíð fylgst mikið með fréttum. Lesið blöðin á morgnana, hlustað á fréttir í útvarpinu, horft á þær í sjónvarpinu og fylgst með á netinu yfir daginn. En ég er búinn að minnka þetta mjög mikið. Farinn að velja úr hvað ég vil frétta hvern dag. Hættur að lesa allar fréttir, hættur að kveikja alltaf á útvarpinu þegar fréttatíminn byrjar, hættur að kveikja á kvöldfréttum í sjónvarpinu, hættur að kíkja oft á dag á rúv, vísi og mbl. Af hverju? Vegna þess að það er ekkert stórkostlegt í fréttum dags daglega. Og það sem fjallað er mest um er það sem er neikvætt og niðurdrepandi.

Það er mikill léttir í að velja úr einstaka frétt, stúdera hana vel og láta aðrar eiga sig. Í stað þess að velta sér upp úr neikvæðum fréttum og umræðu allan daginn.

Ég staldra mest við fréttir af fólki sem gerir óvenjulega hluti. Hvetur aðra til dáða á jákvæðan og uppbyggilegan hátt með því að framkvæma og gera. Fólk sem veltir sér ekki upp úr fortíðinni.

Í Fréttablaðinu í dag las ég viðtal við Þórarinn Tyrfingsson sem er að hætta sem forstjóri á Vogi. Hann sagði meðal annars: “Ég er nefnilega á því að ég ráði svolítið miklu um mína lífshamingju sjálfur. Hún fari eftir því hvernig ég hugsa á hverjum tíma. Ég lít svo á yfirleitt að ég muni bjarga mér og taka skynsamlegar ákvarðanir.”

Algerlega sammála.

Njótum ferðalagsins!

 

 

Minning um mann

Einn af fótboltaþjálfurum mínum frá því í gamla daga lést fyrir nokkrum vikum. Hafði greinilega verið mjög veikur undir það síðasta án þess að ég eða hinir strákarnir í liðinu vissu af því. Við vorum ekki auðveldasti hópur að þjálfa, ’69-70 árgangurinn í Fylki og það voru ekki margir þjálfarar sem náðu árangri með okkur. En Steini náði því. Hann náði að beisla kraftinn og orkuna og fá okkur til að spila saman sem lið.

Ég man alltaf eftir leiknum sem tryggði okkur sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins í 3. flokki. Við mættum 9 til leiks á móti firnasterku og sigurvissu Valsliði, skipuðu leikmönnum sem síðar áttu eftir að spila með landsliðinu. Undir lok fyrri hálfleiks fengum við svo tíunda manninn inn í leikinn, hann var á þessum tíma ekki sá besti í tímastjórnun en verandi heilaskurðlæknir í dag vona ég að hann hafi bætt sig á því sviði. Engir varamenn, eðli málsins samkvæmt. Þeirra bekkur var þétt setinn og ellefu sprækir guttar inn á vellinum.

Við unnum leikinn 1:0 og komumst í úrslitakeppnina. Hrikalega var það sætur sigur. Við unnum fyrst og fremst á því að spila sem baráttuglatt lið sem ekkert hræddist. Steini þjálfari átti mikinn þátt í því. Hann hafði trú á okkur, sem fótboltamönnum og einstaklingum, og ég held, svona eftir á að hyggja, að hann hafi átt nokkuð stóran þátt í því að gera okkur að mönnum.

Minningin um góðan þjálfara og persónu lifir alltaf í æfingahópnum. Takk fyrir okkur Steini.

Krakkafréttir og jákvæðar fyrirmyndir

Ég horfði á Krakkafréttir í gær með syni mínum. Frábært hugmynd að vera með svona þátt fyrir krakkana. Stjórnendur blanda saman hefðbundnum fréttum af því helsta sem er að gerast í heiminum og ferskum og óhefðbundum fréttum af nýjungum, uppfinningum og skemmtilegum viðburðum.

Miklu jákvæðari og ferskari nálgun en í þeim fréttatímum sem gerðir eru fyrir fullorðna. Mæli með áhorfi.

Í Krakkafréttum í gær var m.a. talað við Karítas Hörpu Davíðsdóttir sem vann The Voice söngvakeppnina um síðustu helgi. Hún sagði að helsta ástæða þess að hún tók þátt í keppninni var að hún vildi vera jákvæð fyrirmynd fyrir tveggja ára son sinn. Sýna honum í verki að hún þyrði að kýla á drauma sína, reyna að láta þá rætast. Auka þar með líkurnar á að hann þyrði að elta sína drauma síðar meir.

Flott fyrirmynd og eins gott að hún ákvað að stökkva á drauminn, virkilega reffileg og efnileg söngkona sem við eigum eftir að sjá og heyra mikið af í framtíðinni.

Njóttu ferðalagsins!

Lærdómur dagsins

Það er fátt betra en að byrja daginn á því að læra. Læra eitthvað sem maður virkilega hefur áhuga á, vill fræðast meira um og verða betri í.

Ég er með tvennt í gangi núna, bæði langtímaverkefni sem ég sé fyrir mér að vera að stúdera, þess vegna, alla ævi.

Annars vegar er ég að læra spænsku í gegnum www.duolingo.com og hins vegar er ég að fara í gegnum Gracie Jiu Jitsu aðferðafræðina, skref fyrir skref. Ég nota 5-10 mínútur í hvort verkefni alla morgna. Ég er ekki með tímasett árangursmarkmið, markmiðið er að gera eitthvað á hverjum degi. Mjaka mér áfram, jafnt og þétt. Vera aðeins betri í dag en ég var í gær.

Lykilatriðið er að finna eitthvað sem maður hefur virkilegan áhuga á og finna leið til þess að auka þekkingu sína á því sviði á markvissan hátt. Finna stað (skóla) sem maður skráir sig í og fylgir þeirri aðferðafræði sem þar er kennd. DuoLingo til dæmis frábært tæki til þess að læra tungumál á einfaldan hátt. Ókeypis fræðsla sem gengur út á að lesa, skrifa, tala og hlusta. Einföld orð og einfaldar setningar til að byrja með. Svo eykst erfiðaleikastigið skref fyrir skref.

Njóttu ferðalagsins!

2017

Ég hef alltaf haft gaman af áramótum. Sé þau sem tækifæri til þess að velta fyrir sér lífinu og gera breytingar til góðs. Það er gott að byrja á því að hreinsa aðeins til, þá býr maður til rúm og tíma fyrir það sem mann virkilega langar til að gera.

Eitt af því sem ég ákvað í þessu ferli var að hreyfa mig meira en ég hef gert undanfarin ár. Ég hef farið í göngutúra og æft reglulega, en það er ekki nóg fyrir mig. Ég er búinn að sitja allt of mikið. Mér líður langbest, bæði líkamlega og andlega, ef ég hreyfi mig mikið yfir daginn. Sit minna við skrifborðið.

Ég er núna í því að finna bestu blönduna, hvernig ég get látið þetta tvennt vinna sem best saman. Skrifborðsvinnan gefur mér nefnilega mikið svo lengi sem ég sit ekki of lengi við í einu. Mín leið, sú sem ég er að innleiða hjá sjálfum mér núna í byrjun árs, er ekki flókin. Hún felur í sér að nota skrifborðstímann í að vinna og læra, ekki í afþreyingu eða andlegt hangs. Þannig bý ég mér til tíma til þess að hreyfa mig meira. Sem gefur mér orku og kraft til þess að vinna betur þegar ég sest aftur við. Hausinn virkar betur þegar líkaminn er búinn að fá sitt.

Á hreyfilista ársins eru ketilbjöllu- og útiæfingar, körfubolti á planinu, sjósund, jiu jitsu, klifur, skriðsund og köfun. Langar líka að læra á standandi róðrarbretti hjá Stjána Vald og lofa sjálfum mér hér með að gera það í vor.

Njótum ferðalagsins!

Þessi pistill birtist í Bæjarblaðinu Mosfellingi 2.2.2017