Vertu frjó fyrirvinna

Ef þú átt þér draum sem tengist vinnu eða tekjum, stefndu að því að láta hann rætast. Ef hann rætist færð þú að upplifa eitthvað magnað. Ef hann rætist ekki, þá hefur þú lært eitthvað nýtt. Eitthvað sem á eftir að nýtast þér í lífinu.

Það er ekkert til sem heitir atvinnuöryggi. Svo lengi sem þú vinnur fyrir aðra en sjálfan þig er alltaf hægt að segja þér upp.

Þess vegna er best að koma sér upp nokkrum tekjustraumum sem eru óháðir hvorum öðrum. Ef þú nærð því, ert frjáls. Frjáls til þess að sinna þeim verkefnum sem gefa þér mest, gera það sem þú ert bestur í og þér finnst skemmtilegast.

Njóttu þess að vera pabbi

Líf með börnum er frábært líf. Þau opna huga manns, halda manni ungum og lifandi.

Í stað þess að velta þér upp úr áhyggjum, njóttu þess í botn að vera pabbi.

Þú þarft ekki að vinna allan sólarhringinn til að kaupa nýjan bíl eða stærri íbúð. Börn þurfa ekki mikið pláss, þau þurfa ekki sérherbergi frá fyrsta degi til þess að dafna vel.

Þú ert dýrmætari sem pabbi þegar þú ert með börnunum og makanum heldur en þegar þú ert í aukavinnunni að vinna fyrir hlutum sem skipta ekki máli.

Vertu góður við makann

Það er gulls ígildi fyrir börn á öllum aldri að sjá og finna að foreldrar þeirra eru góðir vinir og þykir vænt um hvort annað. Þegar þú knúsar konuna og sýnir henni ástúð og umhyggju kennir þú börnum þínum það sama. Ert þannig góð fyrirmynd.

Vertu heilsuhraustur

Það að vera heilsuhraustur pabbi er eitt það besta sem þú getur gert fyrir sjálfan, börnin þín og maka þinn.

Þú berð sjálfur ábyrgð á þinni heilsu og þótt lífið sé krefjandi og þú hafir lítinn tíma þá getur þú samt komið þér í gott líkamlegt form.

Dagleg hreyfing, reglulegar æfingar, leikur, góður svefn og heilbrigt mataræði er lykillinn að góðri langtímaheilsu.

Takk

Það er kröftugt að byrja daginn á því að hugsa um það sem maður er þakklátur fyrir. Ég geri þetta stundum uppi í rúmi á morgnana þegar ég vakna á undan vekjaraklukkunni. Annars tengi ég þakkirnar yfirleitt við stuttu morgungönguna mína. Þakklæti er jákvæð og sterk tilfinning sem flæmir burt þær neikvæðu og kemur manni því í réttan gír fyrir daginn.

Í dag er ég þakklátur fyrir að vera á lífi, vera heilsuhraustur, eiga heilbrigð og skemmtileg börn, góða fjölskyldu, ferska æfingafélaga, kalda vatnið, fuglasönginn, og Aftureldingu. Þetta er það fyrsta sem mér datt í hug, en ég gæti talið upp tugi atriða sem ég er þakklátur fyrir.

Stundum þakka ég sérstaklega fyrir mótlæti því með því að sigrast á því eflist maður og styrkist og lærir yfirleitt eitthvað nýtt í leiðinni.

Prófaðu að byrja næstu 5 daga á því að hugsa um 5-10 atriði sem þú ert þakklát/ur fyrir og veltu fyrir þér hvaða áhrif það hefur á þig.

Slepptu

Eitt það mikilvægasta en um leið erfiðasta við það að vera foreldri er að læra að sleppa. Sleppa takinu af börnunum þegar þau fljúga úr hreiðrinu. Það er freistandi að reyna að stýra þeim út lífið, við foreldrar vitum jú alltaf betur, sama hvað börnin eru orðin gömul…

Þegar ég lít til baka er ég ánægður með þá nálgun sem mínir foreldrar notuðu á mig. Þau hvöttu mig til dáða en reyndu ekki að stýra því í hvaða átt ég fór í lífinu. Þau höfðu gert sitt besta í uppeldinu, treystu mér til þess að finna minn farveg og voru svo til halds og trausts þegar á þurfti að halda. Og eru enn.

Slepptu snýst um traust. Að treysta sjálfum þér fyrir að hafa gert þitt besta til þess að undirbúa barnið þitt fyrir lífið og að treysta barninu þínu til þess að velja þá leið sem það langar til að fara í lífinu. Stuðningur og hvatning foreldra er svo alltaf til staðar. Við erum bakvarðarsveitin, reiðubúin til aðstoðar þegar á þarf að halda.

Fótbolti

Ég ólst upp við fótbolta. Man eftir mér 5-6 ára að horfa á fótbolta í sjónvarpinu – svarthvítu og vikugamlir leikir yfirleitt. En samt spennandi. Hélt með Val og ÍA sem smágutti þangað til ég byrjaði sjálfur að æfa og fór að halda með mínum liðum. Svindlaði mér inn á leiki með Þrótti á Melavellinum og studdi svo Fylki þegar ég var fluttur í Árbæinn. Horfði á grjótharða Fylkismenn á malarvellinum rauða í Árbænum spila við Víði Garði, Stjörnuna og önnur neðri deildarlið. Hef haldið með Nottingham Forest í ensku síðan ég var smágutti og mun alltaf gera, sama í hvaða deild þeir spila. Áhuginn á fótbolta hefur stundum dvínað en aldrei horfið alveg. Núna er áhuginn að blússa upp aftur. Aðallega af því að 2 yngstu synir mínir eru að springa úr fótboltaáhuga. Sá 14 ára er núna á Egilstöðum með félögum sínum í Aftureldingu, þeir eiga leik við Austurland á morgun. Sá yngsti, 6 ára, sem ég hélt ekki að yrði fótboltastrákur, er núna á kafi í fótboltapælingum. Æfir með Aftureldingu, safnar fótboltamyndum, finnst gaman að horfa á leiki og fær mig reglulega út að keppa við sig í fótbolta. Það er ótrúlega gaman! Stundum væri gott að vera sama um fótbolta, ég tek alltof mikið inn á mig þegar mín lið tapa. En, ég veit að ég á alltaf eftir að fylgjast með mínum liðum og leika mér við þá sem nenna að leika við mig. Börn, barnabörn, vini.

Fótbolti er stærsta og vinsælasta íþrótt í heimi. Fótbolti er stærri en trúarbrögð. Sameinar fólk. Tengir það saman. Betur en nokkuð annað.

Fótbolti er fyrst og fremst leikur. Gleði. Ástríða.

Hvernig er annað hægt en að elska fótbolta?

 

Leiktu þér

Pabbi datt í stutta heimsókn áðan. Var að sækja málarastiga sem við vorum með í láni. Ég og sá 14 ára vorum einmitt að detta í smá körfubolta á planinu. Stutta vinnupásu. Sá gamli (sem er ekkert gamall) datt auðvitað inn í leikinn og þegar fjórði maðurinn bættist í hópinn varð þetta að alvöru leik!

Endaði 5-4. Hressandi útivera, blóðið á hreyfingu, hjartað fékk að pumpa og leikgleðin að njóta sín.

7 mínútur.

Frábær, einföld og gefandi vinnupása. Hressandi fyrir líkama og sál og hausinn fékk algjöra hvíld frí þeim verkefnum sem hann hafði verið að sinna.

Leiktu þér – á hverjum degi!

Góður dagur!

Hálfnaður með 10 vikna öndunar/kulda/æfinga (teygjur, standa á haus, ofl.) og einbeitingarnámskeið Wim Hof. Tók gott session í morgun. Finn bætingar á ýmsum sviðum. Ekki auðvelt prógramm en gefandi.

Er á degi 16 af 21 í matarprógrammi með góðu fólki. Líður vel af því og held fókus. Er núna að prófa að sleppa morgunmat, borða fyrstu máltíð dagsins í kringum hádegið. Er að virka vel fyrir mig.

Tók DuoLingo spænskuna með þeim sex ára, dýr og manneskjur aðalviðfangsefni dagsins. El caballo, la mujer og allt hitt.

Sjósund í hádeginu. Háflóð, hressandi öldur, stútfullur af lífi á eftir eins og alltaf.

Góður vinnudagur. Fókus og framkvæmdir. Skipti vinnudeginum í þrennt. Morgun, strax eftir hádegismat og seinni partur. Þrjár góðar lotur.

Pantaði mér mótorhjól. Átti hjól fyrir 20 plús árum og hef lengi langað í annað. Draumur að rætast. Götu og ferðahjól. Kemur í hús eftir tæpar tvær vikur. Hrikalega spenntur! Versys 650, svart. Ætla að nota það í vinnu og ferðalög.

Labbaði með frúnni að ná í þann sex ára á leikskólann. Gott rölt og spjall í leiðinni.

Var með í körfuboltaupphitun með æfingahópnum okkar. Alltaf gaman.

Fór með sex ára á fótboltaæfingu í lok dags. Tók sjálfur grimma styrktaræfingu á meðan hann fótboltaðist. Svo fórum við í sund saman eftir æfinguna hans.

Spjallaði við guttana mína alla í dag, mislengi, en eitthvað við alla. Góðir gaurar.

Njótum ferðalagsins!

Hugmyndir og skipulag

Ég fæ margar hugmyndir. Framkvæmi sumar, byrja á sumum, gleymi sumum (og fæ svo stundum sömu hugmynd aftur seinna).

Það sem ég þarf mest að vinna hjá sjálfum mér er staðfesta og skipulag. Mér finnst skemmtilegast að fá hugmyndirnar og byrja á þeim. Erfiðara stundum að klára þær alla leið.

En ég er alltaf að vinna í þessu, finna leiðir til þess að bæta mig svo ég nái að koma fleiri hugmyndum á koppinn, láta fleiri drauma rætast. Það er ekkert skemmtilegra en að sjá góðar hugmyndir verða að veruleika.

1/3 af árinu er nú liðinn. Vorið og sumarið að detta inn. Tími birtunnar. Frábær tími framundan.

Tími framkvæmda og upplifana.

Njótum ferðalagins!

 

Rúsínubrauð á Ísafirði

Mér finnst mjög gaman að ferðast. Bæði langt og stutt. Innanlandsflug á Íslandi eru notaleg. Maður mætir tæpum hálftíma fyrir flug og er kominn á áfangastað einum og hálfum tíma síðar. Ég flaug til Ísafjarðar í gær. Heiðskýrt alla leið. Stilla fyrir vestan. Ótrúlega fallegt.

Fékk Moggann í vélinni, það var gaman að rekast á frúna á baksíðunni! 

Vann svo daginn fyrir vestan með góðu fólki. Vinnustofa í Orkustjórnun og Liðsheild fyrir hönd Hagvangs. Það er gefandi að vinna með áhugasömu fólki, gefur manni kraft og orku og það skilar sér svo vonandi til baka til þeirra.

Fór í Gamla Bakaríið eftir vinnustofuna. Var virkilega ánægður með ungu afgreiðslukonuna þar og hennar viðbrögð við kvartandi viðskiptavini. Gamall maður sem kom inn og var ósáttur við að hafa greitt fullt verð í síðustu viku fyrir hálft rúsínubrauð. Sú unga tók honum vel og bauð honum strax í boði hússins glænýtt og ferskt rúsínubrauð um leið og hún baðst afsökunar á mistökunum fyrir hönd bakarísins. Gamli var sáttur mjög og keypti nokkur sérbökuð vínarbrauð að auki. Þetta var vel gert, góð mannleg samskipti, mikil andstæða við unga afgreiðslukonu í stórri byggingarvöruverslun sem gat ekki selt okkur eina skrúfu um daginn. “Því miður, það er bara hægt að kaupa 100 skrúfur”. Computer says no viðhorfið. Ég hrósaði afgreiðslukonunni á Ísafirði þegar ég fór út, henni þótti vænt um það sá ég. Það er mikilvægt að láta vita af því sem vel er gert.

Ég labbaði svo út á flugvöll í góða veðrinu, rúmir fimm kílómetrar. Falleg leið. Maður sér svo mikið þegar maður fer hægt yfir. Nýfallin snjóflóð, fugla, fólk í sínu daglega lífi. Maður skynjar umhverfið og náttúruna allt öðruvísi. Gott að kveðja Ísafjörð með góðum göngutúr.

Flugið heim var líka notaleg upplifun. Sá meðal annars Snæfellsjökul og eyjarnar á Breiðafirði.

Njótum ferðalagsins!

Áhrif hreyfingar

Ég var þreyttur í gær þegar ég vaknaði. Gekk ekki vel að sofna, svefninn var truflaður og ég þurfti að vakna snemma. Var ekkert sérstaklega vel stemmdur um morguninn, finn mikinn mun á orkunni þegar ég sef ekki nógu vel. En dagurinn var samt góður, kom mörgu í verk og var nokkuð sáttur við sjálfan mig. Var þó hálflúinn seinni partinn, orkulítill. Reyndi að tala mig út úr því að taka æfingu dagsins. En frúin hélt mér á tánum og rak mig á æfinguna.

Stutt, krefjandi styrktaræfing sem krafðist einbeitingar. Strax á þriðju mínútu var mér farið að líða vel í hausnum, orkan flæddi um skrokkinn. Öndunaræfing, teygjur og köld sturta á eftir.

Vá! Þvílíkt orkuskot sem þessi líkamlega hreyfing var. Andlegt og líkamlegt. En magnað hvað hausinn getur verið erfiður, reynir að sannfæra mann um að gera ekki neitt þótt maður viti innst inni að manni mun líða mun betur eftir hreyfinguna.

Skilaboðin – ekki, ekki, ekki láta kollinn plata þig!

Haltu áfram eða byrjaðu að hreyfa þig reglulega og njóttu þess í botn.

Njótum ferðalagsins!

Afríka

Mig langar til Afríku. Hef farið til S-Afríku og bauðst vinna þar á sínum tíma. En lagði ekki í að búa með fjölskylduna í Pretoríu, það þurfti að gera svo margar varúðarráðstafanir vegna hárrar glæpatíðni að ég vildi ekki leggja það á konu og börn. Kom heim með Masaí spjót (sem brotnaði í leik) og málað strútsegg (sem er enn heilt eins ótrúlegt og það nú er).

En mér leið samt vel í S-Afríku, svona að mestu. Hitinn, lyktin, fólkið, dýrin, landslagið. Og Afríka kallar á mig. Held hún kalli á flesta sem þangað hafa komið.

Kasta þessu hér fram og tek öllum ábendingum, tillögum og tilboðum með opnum örmum 🙂

Njótum ferðalagsins!

Fjölskyldan

Sumardagurinn fyrsti. Góður dagur. Sama hvernig veðrið er. Við byrjuðum á léttri fjallgöngu með æfingahópnum okkar. Fórum í fjölbreytilegu veðri á Reykjafellið með ketilbjöllur. Fersk byrjun á degi!

Svo settum við upp nýtt trampólín í garðinum. Löguðum aðeins til upp á lofti – við erum að taka það í gegn. Unnum aðeins í gróðurhúsinu. Spjölluðum við þann elsta og kærustuna í Köben, hress og kát.

Hoppuðum á trampólíninu. Spjölluðum. Pöntuðum íbúð fyrir frí í sumar.

Vorum saman, fjölskyldan.

Góður dagur 🙂

 

Duo Lingo

Ég er kominn með nýtt kerfi í DuoLingo.

Tvö skipti á dag. Um 10 mínútur í hvort skiptið. Alla daga.

Verð á Spáni í rúmar 2 vikur í sumar, ætla virkilega að testa spænskuna mína þá. Spenntur!

Hasta luego, amigos!

Ómar

Morgunþátturinn Ómar á X 97.7 er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hlusta nánast alltaf á þáttinn þegar ég að keyra milli 7 og 9 á morgnana. Eðaltónlist. Rokk og rokktengt. En svo er það hinn bjarti en þó alls ekki bylgjulegi umsjónarmaður, Ómar Úlfur. Jákvæður, lifandi, en alltaf sannur. Maður skynjar að hann er ekki að feika. Bjartsýnin og einlægnin skilar sér með útvarpsbylgjunum.

Fyrir þá sem fíla bæði rokk og jákvæðni er frábært að byrja daginn á því að hlusta á Morgunþáttinn Ómar.

Njótum ferðalagsins!

Útiæfingar

Við byrjuðum af alvöru með útistyrktar- og úthaldsæfingar í Nauthólsvík árið 2011. Það var ótrúlega skemmtilegur tími og lærdómsríkur. Við vorum þá bara með útiæfingar. Fengum að geyma ketilbjöllur og önnur æfingatæki og tól hjá vinum okkar á Ylströndinni. Núna erum við með úti- og inniæfingar í Mosfellsbænum fagra.

Það er gott að æfa sig og þjálfa hvort sem maður er inni og úti. En þetta er samt tvennt ólíkt. Ég hef samanburðinn, æfði í mörg ár á inniæfingastöðum. Stóð í biðröð eftir tækjum og hljóp eins og hamstur á hlaupabretti í stað þess að hlaupa úti í náttúrunni.

Súrefnið, frelsið og gleðin við að æfa úti, ekki verra ef maður er í góðum hópi, margtoppar æfingar í tækjum innandyra í mínum huga.

Held að það sé vísindalega sannað hversu miklu meira það skilar manni að æfa úti – en ég þarf reyndar engin vísindi til að segja mér það.

Njótum þess að æfa úti!

Sjórinn

Ég er byrjaður aftur á sjósundi eftir nokkra mánuða hlé. Sjórinn við Ísland er í dag um 3-4 gráður. Hrikalega ferskur og lifandi.

Það er eitthvað svo náttúrlegt við að synda í sjó. Saltið, lífið, kuldinn.

Best, finnst mér, er svo að sleppa því að fara í heita sturtu eða pott á eftir. Vera frekar snöggur að þurrka sér og fara í hlý föt. Leyfa svo líkamanum að hita sig jafnt og þétt upp. Einstök tilfinning og öflug.

Njótum ferðalagsins!

Upphífingar – móðir allra æfinga

Ég er með upphífingaástríðu. Þetta er móðir allra æfinga og ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að þjálfa sig í upphífingum.

Það er alltaf leið. Það er alltaf hægt að finna tré, slá, stiga, stillans eða annað til þess að nota sem upphífingastöng.

Og það er alltaf von. Það geta nánast allir gert einhvers konar útgáfu af upphífingum. Sendu mér línu, gudjon@njottuferdalagsins.is,  ef þig vantar hugmyndir.

Upphífingar eru sömuleiðis mælikvarði á styrk og líkamlegt ástand. Ef upphífingaformið versnar, er maður annað hvort orðinn aumari eða þyngri og þarf að fara að gera eitthvað sínum málum.

Njótum upphífingana!

Merarmjólk í Kasakstan

Hitti mann um daginn sem ég fór með til Kasakstan fyrir 10 árum. Rifjuðum upp sögu af gerjaðri merarmjólk sem Kasakar drekka glaðr í veislum. Sérstakur drykkur sem ég vildi ekki þurfa að drekka alla daga, en það var gaman að prófa mjólkina enda mikilvæg hefð hjá heimamönnum að súpa á henni.

Mér þykir vænt um öll lönd sem ég hef farið til. Tengi við flest þeirra á sérstakan hátt og á góðar minningar frá þeim öllum sama hvað ég stoppin voru löng eða stutt.

Ferðalög opna hugann og víkka sjóndeildarhringinn.

Njótum ferðalagsins!

Ekki gefast upp

Mér finnst skilaboðin í umdeildri auglýsingu Íslandsbanka góð. Ekki gefast upp eru góð skilaboð og eiga alltaf við. Sama hvar maður er staddur í lífinu og við hvaða áskoranir maður er að fást við hverju sinni.

Þetta snýst um komast að því hvað maður vill gera, hverju maður vill koma í framkvæmd, hvað maður vill upplifa. Finna svo leið til þess að láta hlutina gerast. Í stað þess að hjúfra sig upp að afsökunum fyrir því að gera ekkert og bíða eftir því að aðrir geri hlutina fyrir mann.

Það er ekkert eins spennandi og skemmtilegt að láta hluti gerast, vinna að markmiðum sínum. Sérstaklega ef markmiðin eru þannig að maður varla trúir því sjálfur að maður geti náð þeim.

Njótum ferðalagsins!

 

Jákvæða fréttin – heimagisting í Dortmund

Leikur Dortmund og Monaco í Champions League í fótbolta fór ekki fram í gær eins og hann átti að gera vegna sprengjuárásar fávita á liðsrútu Dortmund. Leikurinn fer í staðinn fram í kvöld.

Hvernig brugðust stuðningsmenn Dortmund við? Með því að bjóða stuðningsmönnum Monaco – sem höfðu ekki gert ráð fyrir aukanótt í Þýskalandi – að gista þessa aukanótt heima hjá sér.

Falleg viðbrögð og sterk. Við erum eitt.

#bedforawayfans

 

Fréttir

Ég er að hlusta á fréttir þegar ég skrifa þetta. Veit ekki afhverju. Hef ekki heyrt eina jákvæða frétt. Morð í Danmörku, áhyggjur af ferðaþjónustu, áhyggjur af íbúðarkaupum, of mikið lambakjöt, ungt fólk með of lág laun, miðaldra fólk með of há laun, sprengja í rútu í Dortmund. Og svo framvegis. Endalaus óhamingja og vandamál.

Ef það kemur jákvæð frétt þá er það skrítna frétt dagsins. Magnús Hlynur á Suðurlandinu er yfirleitt með hana. Þríhyrnt lamb eða skógarþröstur sem hundur kom til bjargar. Fíla Magnús Hlyn.

Meira að segja veðurfréttir eru sorglegar. Lægð, kuldi og hryssingur hjá okkur, en sól og blíða í Evrópu. Þar sem við erum ekki.

Ég er að hætta að hlusta, lesa og horfa á fréttir. Bíð eftir jákvæðu fréttastöðinni. Mun stökkva á hana. Spurning að stofna þannig fréttaveitu? Mótvægi við allt hitt. Fókusera á allt það jákvæða, skemmtilega og öfluga sem fólk er að gera út um allan heim. Af nógu er að taka. Kem með eina slíka í pistli morgundagsins. Stay tuned!

 

Liðsheild og árangur

Ég er mikið að pæla í teymum og liðsheildum þessa dagana.

Liðsheild kemur við sögu í bókinni á náttborðinu, Creditinfo Group Part I. Höfundurinn Reynir Grétarsson segir í bókinni:

“I believe that it is extremely important for people to have the feeling that

a) they are a part of one team,

b) that the team is doing well, and

c) that the team is performing well thanks to their contribution, even in a small way”

Ég tengi við þetta. Þetta skiptir mig miklu máli og að ég held langflesta. Ef eitthvað vantar upp á í a, b eða c hlutana, þarf að kippa því sem fyrst í lag. Annars er ólíklegt að liðið nái árangri.

Bikarhefð

Afturelding skrapp í höfuðstaðinn í dag og kom heim með tvo bikarara. Bæði karla og kvennlið félagsins urðu bikarmeistarar í blaki. Frábærar fréttir fyrir þetta rótgróna og vaxandi íþróttafélag.

Næst á dagskrá: Úrslitakeppni í handbolta karla. Fyrsti leikur hjá UMFA á morgun.

Áfram Afturelding!

Sambandið

Er í helgarfríi með frúnni, það er bara alveg frábært. Og mikilvægt. Pör verða að sinna sér, sambandinu, ótrufluð, annars fer allt í hönk.

Heyrumst!

Ikeablokkin

Ein besta frétt sem ég hef heyrt lengi er sú um að IKEA sé að reisa íbúðablokk fyrir starfsmenn sína. Framkvæmdastjórinn vill fólki sínu vel, gera vel við þá sem sýna fyrirtækinu traust og trúnað og minnka um leið starfsmannaveltuna. Ég bý í Mosfellsbæ í dag af því að Reykjalundur gat boðið konunni minni starfsmannahús á frábærum kjörum um leið og henni var boðið starf. Við vorum nýkomin til landsins frá Danmörku og þetta skipti okkur virkilega miklu máli. Eigum góðar minningar frá litla að utan en stóra að innan starfsmannahúsinu.

Það sem mér finnst ferskast við fréttina er að hér fara saman orð og gjörðir, framkvæmdastjóri IKEA lætur verkin tala í stað þess að nota alla sína orku í að kvarta yfir því sem stjórnvöld, sveitarfélög eða aðrir eru ekki að gera. Fíla svona menn!

Njótum ferðalagsins!

Leiðinlegi gaurinn

Systir mín kom í heimsókn um daginn. Sem var gaman, hún er alltaf hress. Svo er hún flott mamma, á hana Ylfu sem er að verða eins og hálfs árs gamall gleðigjafi. Hún, systir mín, ekki Ylfa, bauð mér nammi, piparhúðaðar möndlur. Geggjað stöff sagði hún. En ég afþakkaði. Borða ekki nammi. Hún horfði á mig með sömu augum og stuðboltarnir í partýinu senda edrúgaurnum þegar þeir átta sig á því að hann er edrú. Þarftu alltaf að vera svona boring? Sagði svo að hún þyrfti að prófa þetta einhvern tíma, vera svona leiðinleg. Fara snemma að sofa, vakna snemma, borða hollt og hreyfa sig mikið. Segja nei takk við nammi og gosi. Neita sér um allt það skemmtilega í lífinu.

Það skemmtilega í þessu er að mér finnst lífið stórskemmtilegt. Finnst gaman að hafa skýra ramma með ákveðna hluti og sleppa sumu alveg. Finnst frábært að sofa vel og vakna snemma. Vera ferskur og hress á daginn. Til þess þarf ég að sofna vel fyrir miðnætti. Það þótti stórkostlega fyndið þegar ég var að alast upp. Fólk sem fór að sofa fyrir miðnætti. Það átti ekkert líf. Mér finnst líka gaman að hreyfa mig og æfa, þannig að ekki veldur það sjálfleiðindum. Og ég fæ munkalega gleði út úr því að borða einfaldan mat sem gefur mér kraft og orku. Alveg eins og að gaurinn sem er edrú í partýinu getur skemmt sér vel, þá finnst mér lífið best þegar það er einfalt. Ég þarf ekki á nammi og kökum að halda, finnst ég ekki vera að missa af neinu þótt ég sleppi því að fá mér desert.

Mórall pistilsins er kannski sá að það sem einum finnst vera ómissandi, finnst öðrum vera ónauðsynlegt. Sumir elska mat, aðrir elska fótbolta. Sumir hlusta á Útvarp Sögu, aðrir á X-ið.

Pistillinn birtist í Mosfellingi, 6. apríl 2017

Lærum af því sem við gerum vel

Ég fór á fyrirlestur hjá Guðmundi Guðmundssyni, handboltaþjálfara í dag. Flottur fyrirlestur og hann segir skemmtilega frá. Leiðin að gullinu hét fyrirlesturinn og fjallaði meðal annars um það hvernig Guðmundur stýrði Dönum til sigurs á Ólympíuleikkunum síðasta sumar.

Ég tók margt með mér heim frá fyrirlestrinum. Lærdómsríkt að hlusta á svona reynslubolta sem hefur prófað margar leiðir í stjórnun og markmiðasetningu.

Eitt af því sem hann sagði var að það væri mikilvægt að læra af því sem maður gerir vel. Byggja á því og halda áfram að gera góða hluti. Að það væri jafn mikilvægt og að læra af mistökum sínum.

Sammála því.

 

 

Núna er tíminn

Ekki bíða með eitthvað sem þig virkilega langar að gera. Ekki bíða eftir að þú farir á eftirlaun. Ekki bíða eftir að tíminn sé réttur. Ekki bíða eftir að þú eigir nógan pening. Ekki bíða eftir að þú vinnir í lóttóinu. Ekki bíða eftir því að börnin klári skólann og flytji að heiman.

Núna er tíminn. Gefðu þér sex mánuði. Skipulegðu. Sparaðu. Taktu börnin með (ef þú átt börn). Láttu þetta gerast. Þú getur það. Ef þú bíður of lengi gerist mjög líklega ekki neitt. Ekki flækja hlutina. Ekki horfa í vandamálin. Hugsaðu í lausnum. Framkvæmdu.

Njótum ferðalagsins!

Orð og gjörðir

Var að skutla frumburðinum og kærustunni hans út á Leifsstöð. Stutt heimsókn hjá þeim í þetta sinn. Alltaf jafn gott að sjá þau og hitta. Góð eintök sem passa vel saman. Hlakka mikið til næsta hittings.

Hlustaði á útvarpið á leiðinni til baka. Langaði í talað orð, en lítið í boði klukkan 6 á morgnana. Datt inn á Útvarp Sögu og hlustaði í fimm mínútur á neikvæða umræðu um allt vonda fólkið sem annað hvort hefur gert slæma hluti eða vonda fólkið sem er að fara gera slæma hluti. Hef lítið úthald í að hlusta á Útvarp Sögu en hugsanlega á hún rétt á sér, þessi sígagnrýna og neikvæða rödd. Hugsanlega. Fann svo 88,5 þar sem bandarískur óvirkur alkahólisti fór yfir AA prógrammið og tengdi við sína eigin sögu. Var að tala við sal af fólki. Mun áhugaverðari framsetning á vandamáli og hvernig hægt er að leysa það. Auðmýkt og húmor – mest fyrir sjálfum sér – eru lykilatriði. Ég tengdi sérstaklega við eitt sem hann sagði: “I don’t want to be a phony bastard. Telling people to do things that I don’t do myself”.

Walk the talk.

Njótum ferðalagsins!

Dagleg pæling – Áskorun

Sá 20 ára skammaði mig í gær fyrir að setja ekki daglega inn pælingu dagsins hér á síðuna. “Það meikar ekki sens að kalla þetta Pæling dagins ef þú skrifar bara á 4-5 daga fresti.” Réttmætt ábending og ég tek hana til mín. Það er skemmtileg áskorun að skrifa eitthvað á hverjum degi og ég ætla að gera það út árið 2017. Takk fyrir og túkall, nú er að standa við það!

Hér er pæling. Fyrir nokkrum dögum langaði mig, alveg upp úr þurru, að flytja til Buenos Aires með fjölskylduna. Búa þar í 1-2 ár. Ná spænskunni 100%. Fjarvinna. Spurning hvort einhver hafi verið að senda mér hugskeyti frá Argentínu? Við vorum í mánuð í BA í ársbyrjun 2009. Bjuggum í háhýsi með leðurblökur sem nágranna. Æfðum fótbolta, jiu jitsu og bjuggum til alls konar skemmtilegar fjölskylduæfingar. Er venjulega ekki mikill stórborgarmaður, en fílaði mig vel í Buenos Aires og væri sem sagt alveg til í að fara þangað aftur.

Sá 20 ára (þarna 12 ára) að labba á línu í argentískum almenningsgarði

 

Kvarta eða gera?

Ég er búinn að venja mig þegar mig langar að kvarta yfir einhverju sem mér finnst að aðrir beri ábyrgð á, að hugsa fyrst hvað ég sjálfur geti gert í málinu.

Heilbrigðiskerfið er eitt dæmi. Í stað þess að velta mér upp úr því hversu ómögulegt það er, hugsa ég, hvað get ég gert persónulega til þess að bæta heilbrigðiskerfið? Minnka álagið á það? Mitt svar, ég get passað vel upp á eigin heilsu og heilsu minna nánustu. Passað upp á mataræði okkar, séð til þess að við hreyfum okkur og æfum reglulega og fáum góðan svefn. Get sömuleiðis hvatt þá sem eru í kringum mig en tilheyra ekki nánasta klaninu til að gera það sama. Með þessu er ég að minnka álagið á heilbrigðiskerfið. Fyrir hverja 10 einstaklinga sem taka þennan útgangspunkt er verið að hafa áhrif á tugi ef ekki hundruði einstaklinga. Við skiptum öll máli. Við teljum, líka í stóra samhenginu. Við getum haft áhrif.

Húsnæðislán er annað dæmi. Ég gæti bölvað alla daga og nætur verðtryggðu lánunum, húsnæðislánakerfinu, vöxtunum og öllu hinu. En ég get líka, og er að því, greitt reglulega þægilega háa/lága upphæð inn á húsnæðislán, beint inn á höfuðstólinn og lækkað þar með lánið mitt hraðar en með því að gera ekki neitt nema að kvarta. Upphæðin sem ég borga aukalega hvern mánuð er örugglega lægri en það kostar að fara á djammið einu sinni í mánuði en hún telur. Ég sé það skýrt á lánastöðunni. Maður þarf bara að passa að borga á gjalddaga, á sama tíma og maður borgar hefðbundnu afborgunina. Þá fer greiðslan beint inn á höfuðstólinn.

Mæli með þessu, að þegar maður ætlar að kvarta yfir einhverju stóru, einhverju samfélagsmeini, að hugsa fyrst, hvað get ég gert í málinu? Það er yfirleitt alltaf eitthvað. Svo er í fínu lagi að benda á það sem betur má fara. Þegar maður er búinn að gera eitthvað sjálfur í sínum málum.

Njótum ferðalagsins!

Sigurhefð í Mosfellsbæ

Mosfellsk pæling dagsins. Sá 14 ára varð Faxaflóameistari í gær með félögum sínum í 3fl.B í Aftureldingu. Þeir unnu FH 2:0. Það er mikið talað um að það eigi ekki að pæla í sigrum eða töpum í yngri flokkum í íþróttum. Þetta snúist allt um heilbrigðan lífstíl, forvarnir og sömuleiðis að búa til íþróttamenn framtíðarinnar. Sem síðan keppi við aðra fullorðna íþróttamenn. Og reyni þá að vinna.

Ég er á vissan hátt sammála þessu en á hinn bóginn ekki. Auðvitað er lang mikilvægast við íþróttir barna og unglinga að það sé gaman og að krakkarnir hreyfi sig, bæti sig, komi sér í form og hugi að heilsunni. En það er allt í lagi að vinna þótt maður sé ekki orðinn fullorðinn. Það er gaman að vinna. Og hollt að kunna að vinna. Ná árangri í einhverju sem maður tekur þátt í. Vinna saman að markmiði og sjá það rætast.

Svo er mikilvægt líka að kunna að tapa. Þetta er jú bara leikur. Lífið heldur áfram. Hvaða máli skiptir einn leikur eða ein keppni í stóra samhenginu?

Fyrir félag eins og Aftureldingu sem hefur enga sigurhefð í meistaraflokki, hvorki karla né kvenna, er mikilvægt að yngri leikmenn alist upp við þá trú að þeir geti unnið FH, Breiðablik, Stjörnuna, KR og öll önnur lið sem þeir mæta. Það er að segja ef Afturelding vill skapa sér sigurhefð í meistaraflokki. Sem ég held að hún (Aftureldingin) vilji.

Þessir strákar sem urðu Faxaflóameistarar í gær og jafnaldrar þeirra hafa unnið titla og keppt í úrslitakeppnum síðan þeir voru í 6.flokki. Og ég trúi því að það muni virkilega skila sér þegar þeir verða nógu gamlir til að klæðast með stolti treyju Aftureldingar í meistaraflokki. Það eru ekki mörg ár í það. Ef þeir halda hópinn þá eru engin takmörk fyrir því hversu langt Afturelding mun ná. Það er mín skoðun. Engin pressa, en möguleikarnir eru fyrir hendi ef strákar/menn vilja. Þeim til stuðnings eru eldri leikmenn Aftureldingar sem í dag eru í unglinga og U-21 árs landsliðum Íslands. Sumir af þeim spila fyrir Aftureldingu í dag, aðrir koma heim síðar til að taka þátt í ævintýrinu sem framundan er.

Njótum ferðalagsins!

Pabbadagur 15/23

Þriðja og síðasta pabbavikan að byrja. Pabbavika í merkingunni, ég er einn heima með guttana mína á meðan frúin menntar sig í Danmörku.

Sá yngsti vaknaði spakur í morgun. Klæddi sig, kom inn í eldhús til mín, fékk að borða og söng svo fyrir sjálfan sig og mig alveg þangað til við löbbuðum í leikskólann. Lék sér við fótboltamyndirnar yfir morgunmatnum og spurði mig gáfulegra spurninga á milli laga. Hann er í afar góðu jafnvægi og sáttur við sjálfan sig og lífið. Einn leikskólakennarinn hans sagði mér í gær að hann hefði verið að syngja með félaga sínum á leikskólanum og hún svo heyrt hann segja eftir sönginn: “Þetta var fullkomið, alveg eins og ég”. Hann syngur mjög vel, heldur lagi og lifir sig inn í lögin. Pikkar upp það sem ég spila í bílnum og lagar textann að sínum heimi.

Sá 14 ára var veikur heima í dag. Átti að fara á morgun-auka-fótboltaæfingu en með ljótan hósta, hausverk og leiðindi einhver. Nær þessu úr sér með heimaslökun í dag. Hann er líka í fínum balans finnst mér. Áhugaverð týpa sem fær toppeinkunnir, kemst í úrslit í stærðfræðikeppnum, mætir á allar íþróttaæfingar án þess nokkurn tíma að kvarta yfir veðri og stendur sig yfirleitt vel í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. En hann gerir þetta eitthvað svo áreynslulaust, flæðir örugglega í gegnum verkefnin án þess að æsa sig yfir þeim eða stressa.

Sá 18 ára er ljúfur en minnst heima. Eðlilega, er á þeim aldri. Skóli, vinna, félagarnir. Hann er duglegur í skóla og vinnu og á auðvelt með að taka að sér mismunandi störf. Góður með peninga líka. Passar vel upp á þá og það er kostur.

Sá 20 ára virkar hamingjusamur með kærustunni í Kaupmannahöfn. Við tölum saman nokkrum sinnum í viku í gegnum tölvuna, það er alltaf jafn gefandi og gaman fyrir okkur og bræður hans að fá að taka þátt í þeirra lífi.

Það er gaman að vera pabbi. Ég er að njóta þess. Alla leið.

En ég hlakka auðvitað til að fá frúna heim. Hún er mikilvægur hluti af menginu og lífið er alltaf betra þegar hún er nálægt.

Öðruvísi byrjun á degi

Byrjaði þennan dag á óhefðbundinn en skemmtilegan hátt. Var með “Njóttu ferðalagsins” morgunfyrirlestur, kl. 6.30 fyrir skemmtilegan vinnustað. Það er gaman að vinna með fólki svona snemma á morgnana. Fólk ferskt, opið fyrir hugmyndum og pælingum, áreiti dagsins ekki byrjað. Mér fannst þetta mjög  gaman. Lærði líka ýmislegt nýtt. Heyrði til dæmis af lengstu sundlaug í heimi (hún er í Chile), að Pálmar Ragnarsson væri sonur Ragga Torfa og hvernig maður selur bíl á þýsku. Góð byrjun á degi.

Sá 18 ára tók morgunvaktina á meðan ég var í burtu og hjálpaði þeim 6 ára við morgunverkin. Gott að eiga góða að.

Átti svo mjög ánægjulegan fund með manni sem ég kynntist í gegnum fyrra líf mitt (þegar ég vann hjá Útflutningsráði). Hef fylgst með honum lengi. Hann hefur gert frábæra hluti með sitt alþjóðlega fyrirtæki, enda mjög meðvitaður um mikilvægi menningar og menningarlæsis í viðskiptum, í raun öllum samskiptum. Menningarlæsi er alls ekki mjúkt og væskislegt viðfangsefni eins og margir vilja meina, heldur grjóthörð aðferð til að skilja betur þá sem maður er í samskiptum við. Sama hvaðan úr heimunum þeir koma. Það að menn í alþjóðaviðskiptum pæli lítið sem ekkert í því hvernig einstaklingar frá öðrum kúltúrum eru líklegir til að hugsa og hegða sér, er jafn gáfulegt og að mæta eitthvert til leiks með fótboltalið án þess að hafa hugmynd um hvernig andstæðingarnir eru líklegir til að spila. Þetta er mér hugleikið og ég vil og ætla að gera meira með menningarlæsið. Áveðinn í því.

DuoLingo er alltaf á sínum stað, nema ég ákvað að hvíla þýskuna. Finnst hún bara svo leiðinleg í Duo í samanburði við spænskunni. Þýskan dregur úr mér, spænskan kveikir á mér. Þannig að, minni þýska, meiri spænska. Jawohl!

Er svo kominn í gang með Wim Hof námskeiðið, rúmlega hálfnaður með Viku 1 af 10. Fíla kallinn og hans aðferðafræði. Öndunin lofar virkilega góðu. Er virkilega að uppgötva nýja hluti sem eiga eftir að nýtast mér og fleirum vel.

Hlakka til kvöldsins. Ekkert á dagskrá hjá mér nema ná í stubbinn á leikskóla og koma mat ofan í mig og drengina. Gott að hafa holur í prógramminu. Ekki vera alltaf með allt niðurnjörvað.

Njótum ferðalagsins, Gaui

Pabbadagur 10/23

Ég tek nokkrum sinnum á ári að mér verkefni fyrir bandarískt ráðgjafafyrirtæki sem snúast um að hjálpa erlendum stjórnendum og mökum þeirra að skilja íslenskan kúltúr, innan og utan vinnuumhverfisins. Þessi laugardagur var frátekinn í akkúrat svona verkefni. Fór fyrst með þann 6 ára í pössun til systur minnar, þar var hann í góðum félagsskap hennar og dóttur hennar. Afinn var aðeins með líka. Þau eru góð saman maurarnir. Sá 14 ára fór til Keflavíkur að keppa við heimamenn með félögum sínum í Aftureldingu. Kom til baka með 9-1 sigur í bakpokanum. Sá 18 ára átti að fara í aukavinnuna sína. Flutningatengd.

Allir þjálfarar KB Iceland voru á flakki þennan dag og ég setti því æfingahópnum fyrir æfingu sem þau áttu að framkvæma. Það gekk vel, enda alvöru fólk í hópnum.

Kúltúrdagurinn gekk vel. Áhugavert fólk sem tengdi vel við það sem ég var að tala um og lærðu ýmislegt nýtt. Ég lærði líka ýmislegt af þeim.

Ég náði svo í stubbinn til sys, fékk hjá henni heimabakað brauð og spjall áður en við feðgar fórum heim. Horfðum á smá fótbolta. Gylfa Sig tapa aðra helgina í röð. Held að hann ætti að fara að drífa sig frá Swansea, það eru engar hreðjar í þessu liði.

Eldaði stórkostlegan kvöldmat fyrir okkur feðga. Spagetti með ostsneiðum, skinku og tómötum. Veisla! Ég nartaði líka í afgang af lambahrygg sem enginn annar vildi borða, merkilegt nokk. Eðalfæða.

Frúin las fyrir stubbinn í gegnum tölvuna á meðan við gerðum okkur klára í að fylgjast með Gunna Nels berjast. Vorum spenntir fyrir bardaganum, við 14 ára, allavega ég. Vildi ekki að sá 6 ára horfði á UFC kövldið, of brútal sport fyrir litlar sálir, að mínu mati.

Gunni var frábær, vann bardagann snyrtilega og á sinn einstaka hátt.

Við fórum svo að tygja okkur í bælið. Framundan fótboltaleikur á Akranesi, annar leikur hjá þeim 14 ára.

Gott að klára þessa viku. Þétt, skemmtileg, en krefjandi og smá stress í öxlum grasekkilspabbans (er það ekki orð annars, grasekkilspabbi?). Næsta vika verður aðeins einfaldari, allavega á teikniborðinu svona fyrirfram…

Láttu vaða

Pæling dagsins er pistill sem birtist í uppáhalds bæjarblaðinu mínu, www.mosfellingur.is. Uppáhalds af því að þau sem gefa blaðið út hafa metnað fyrir blaðinu og bænum sínum. Fyrirmyndarfólk. Ég er þakklátur fyrir að fá að skrifa í þetta góða blað. Takk fyrir mig.

Við erum gjörn á að hugsa of mikið um hvað öðrum finnst um okkur. Hvað hópnum finnst. Hvað mömmu finnst. Stundum gerum við hluti mest til þess að geðjast öðrum. Hluti sem okkur langar ekkert til að gera og gera engum gott. Við höfum öll upplifað þetta. Sumir oftar en aðrir.

Ef þú ert á þessum stað í lífinu hvet ég þig til að gera uppreisn. Taka þér tíma í að greina hvað það er sem þig virkilega langar að gera við lífið og kýla svo á það. Með því ertu að bæta bæði þig og heiminn, svo lengi auðvitað sem þú ert heilbrigð sál sem vilt sjálfum þér og öðrum vel. Lykilatriði í þessu ferli er að hafa húmor fyrir sjálfum sér og velta sér ekki upp úr því hvað öðrum finnst. Aldur, kyn, menntun eða fæðingarstaður skiptir ekki máli. Ekki heldur uppáhaldsíþróttafélag. Það geta allir látið drauma rætast. Það er alltaf leið. Og það er ekkert eins gefandi og styrkjandi að koma draumum sínum í framkvæmd. Að þora.

Ég gaf út bók í lok síðasta árs. Lét bókardraum rætast. Margra ára gamlan draum. Það sem hafði stoppað mig var álit annarra á bókinni. Vill einhver lesa bók eftir mig? Og líka spurningin hvort einhver myndi kaupa hana. Það tók mig mörg ár að þora að gera þetta. Og tilfinningin er geggjuð. Sérstaklega þegar ég heyri frá einhverjum sem hefur lesið bókina. Næsti draumur tengdur bókinni er að þýða hana á mörg tungumál, gefa út rafrænt út um allan heim. Af hverju? Af því mig langar til þess. Það eflir mig að koma draumum í framkvæmd og mig langar að deila með öðrum því sem ég hef lært og er að pæla. 

Pabbadagur 6/23

Vaknaði snemma til að gera mig kláran fyrir að stýra morgunæfingu. Vel mætt, við fórum út í Reykjalundarskóg og gerðum styrkjandi æfingar. Frábær hópur. Ræsti svo þann 14 ára, hellti upp á kaffi, gerði þýsku og spænskuverkefni dagsins í DuoLingo. Eitt af því sem ég geri í lífinu er að kenna orkustjórnun fyrir ráðninga- og ráðgjafafyrirtækið Hagvang. Lykilatriði í orkustjórnun er að koma nýjum venjum inn í lífið, jafnt og þétt, þangað til venjurnar festast og verða hluti af daglegri rútínu. Ég er kominn þangað með DuoLingo. Þýskan og spænskan eru komnar inn í ómeðvitaðu rútínuna. Sest við án þess að pæla í því. Og fæ heilan helling út úr því. Farinn að muldra frasa eins og “Cada revolution es nueva” þegar ég hlusta á fréttir (t.d. um formannsskipt í VR).

Labb á leikskóla með stubb er líka orðin góður vani. Alltaf næs stund hjá okkur feðgum þótt hann röfli stundum aðeins yfir því að fara ekki í bílnum. Gefur mér tækifæri til að ræða heilbrigði, hvað það er miklu betra fyrir mann að labba en keyra.

Pældi í árshátíðarfötum með þeim 14 ára. Hann er frekar laid back með það. Við náðum saman um flotta skyrtu og jakka með gallabuxunum. Ég, yfirstraujari heimilisins, strauja þau í kvöld fyrir árshátíðina á morgun. Straujið er eitt af mínum heimilsverkum. Slakandi verkefni. Mindfulness eiginlega. Önnur heimilsverk eru minna mindfulness. Kattasandsskipti t.d. Það er eins langt frá mindfulness og ég get hugsað mér. Enda reyni ég að forðast það.

Eftir vinnu náði ég í stubb á leiksskóla. Mér finnst skemmtilegra að labba með honum þangað en að ná í hann. Hann er rólegri og yfirvegaðri á morgnana. Aðeins meira attitjúd eftir leikskóladaginn stundum. Sem er samt fínt í strákasamfélaginu á leikskólanum. Maður þarf að geta svarað fyrir sig.

Náði smá lúr eftir að hafa náð í hann. Gott að taka smá chill fyrir vikulega glímuskammtinn okkar. Förum nokkrir kallar með krakka á svipuðum aldri í brasilískt jiu jitsu á þriðjudagskvöldum. Frábær stund. Stubbarnir hlaupa um, leika sér og tuskast aðeins með okkur. Við stúderum brögð og glímum. Ég fíla þessi kvöld þótt ég sé neðstur í goggunarröðunni, hinir eru þyngri, sterkari og betri í íþróttinni en ég, en það er hollt að stíga reglulega inn í þannig umhverfi. Lærdómsríkt á margan hátt.

Svo heim. Fjarspjölluðum aðeins við frúna í DK, fastur liður og góður að kíkja aðeins á hana og þau í Köben.  Sá 14 ára var kominn heim af styrktaræfingu í Eldingu, þeir eru þar fótboltaguttarnir 1x í viku hjá Höllu Heimis. Mjög gott fyrir þá. Kvöldmaturinn var afgangur frá í gær. Það vekur sjaldnast lukku á mínu heimili, ég er eini afgangsmaðurinn í fjölskyldunni. Elska afganga. Endaði með því að ég gerði hafragraut fyrir 6 og 14 ára. Sáttir við það. Horfðum svo á seinni hálfleik hjá Leicester og Sevilla. Enn eitt ævintýrið í Champions League. Sá 18 ára kom heim rétt áður en ég fór að sofa. Vinnukvöld, fékk meiri ábyrgð en hann átti von á og brást ekki. Stækkar við það, eins og maður gerir þegar maður stenst áskoranir.

Fór að sofa með þá hugsun að ég ætti frábæra stráka. Allir í góðu jafnvægi, allir jákvæðir að eðlisfari, forvitnir og skemmtilegir. Allir fjórir. Það var góð hugsun fyrir svefninn.

Pabbadagur 5/23

Ég fíla mánudaga. Hressandi byrjun á viku. Þetta var ágætis dagur hjá okkur feðgum. Ég byrjaði daginn á WimHof námskeiðinu sem ég var að skrá mig á. Öndun, teygjur, fókus. Líst vel á þessar pælingar. Eiga eftir að gagnast mér og öðrum. DuoLingo á sínum stað, spænskan er miklu skemmtilegri en þýskan en ætla að samt að halda áfram með þýskuna. Klára námskeiðið með bros á vör. Ráðgjafadagur í vinnu, mest í tölvu og síma. Ýmislegt spennandi í kortunum. Braut upp daginn með því að stýra þremur æfingatímum, tímar sem frúin stýrir venjulega. Hádegistími og svo tveir seinni partinn. Mikið fjör, uppskrift frá frúnni, fólk fílaði hana vel. Skrapp í búð, tók þann 14 ára með, keyptum tvo poka í krónunni, það hlýtur að endast í viku 🙂 Eða þannig.

Tengdó sækir stubb í leikskólanum á mánudögum, hún býr rétt hjá. Orðin góð hefð hjá þeim. Spila, spjalla og gera ýmislegt skemmtilegt saman. Ég náði svo í hann til hennar eftir æfingatímana. Við röltum heim saman. Hann í góðum fíling eftir samveruna með ömmu.

Sá 14 ára fór á fótboltaæfingu seinni partinn og sá 18 ára nánast beint í nýju vinnunni. Eftirmiðdags/kvöldvinna. Kraftur í honum.

Hafði sett kjúlla (fleirtala), sætar kartöflur ofl í slowcookpott fyrir æfingar. Við feðgar borðuðum matinn saman um kvöldinn, tv-dinner yfir Chelsea-Man.Utd. Hress leikur þar sem ég hélt með hvorugum og þó, Mourinho er alltaf minn maður. Sama hvað. En svo fíla ég leikmenn eins og Kante sem skoraði sigurmarkið fyrir Chelsea. Oft ósýnilegur en með gríðarmikilvægt hlutverk. Algjör klettur. Maður leiksins að mínu mati.

Í hálfleik fór stubbur í rúmið, kominn háttatím og mamma hans í Danmörku las 2-3 bækur fyrir hann í gegnum Facetime. Frábær stund hjá þeim! Elska þessa tækni stundum. Fann og sá hvað þetta gaf þeim báðum mikið.

Fyrir bælið, pældi ég aðeins betur í vikuskipulaginu. Þétt vika og að ýmsu að huga. Áttaði mig fyrst almennilega á því þarna á eigin skinni að það er talsverð áskorun að vera einstætt foreldri. Á meðan rútínan heldur og allt rúllar, er lífið gott og til þess að gera einfalt en þegar rútínan hliðrast til sér maður hvað svigrúmið er í raun lítið hjá þeim sem eru einir með börnin sín. Respect alla leið þið sem eruð í þeirri stöðu dags daglega.

 

Pabbadagar 3&4/23

Góð helgi að klárast. Sá 14 ára fékk mig til að klára sunnudaginn með því að horfa á mynd með sér, Freedom Writers. Góð mynd með góðum boðskap. Virkilega. Mæli með henni. Um öðruvísi kennara, samheldni, að trúa á breytingar og lífið sjálft.

Ég byrjaði helgina á að stýra morguntíma. Gekk vel, gott vibe í hópnum eins og alltaf. Vorum úti og notuðum skemmtileg æfingatól eins og sleða, vatnsrör og járnfrúna góðu. Fór síðan með þann 6 ára á fótboltamót Þróttar í Laugardalnum. Við vorum tímanlega af því að einn af þjálfurunum okkar gat tekið seinni morguntímann – mikil snilld að eiga svona góða að. Ákvað fyrst við vorum svona tímanlega að sýna honum húsið sem ég átti heima í þegar ég var sex ára og hvar gamli Þróttaravöllurinn hafði verið. Beint á móti húsinu mínu í Sæviðarsundinu. Útskýrði svo fyrir honum að Þróttur hefði flutt vegna þess að borgin vildi skipta við þá á landi, fá þeirra land til að byggja íbúðarhús á móti aðstöðu í Laugardalnum. Mótið var skemmtilegt þrátt fyrir að úrslitin hafi verið allavega. En þau gleymdust fljótt. Gaman að þessum mótum, bæði að fylgjast með boltanum og að hitta foreldra úr ýmsum liðum sem maður kannast við.

Guttinn fékk ís í Snælandi eftir mótið, naut þess í botn. Sá 14 ára hefði vilja koma með á mótið en var sjálfur á fótboltaæfingu. Sá 18 ára svaf… finnst gott að sofa 🙂

Við vorum svo frekar slakir feðgarnir á laugardeginum. Stússuðumst aðeins heima, horfðum á enska boltann, ég tók styrktaræfinguna mína í stofunni á meðan Hull fór illa með Gylfa Sig og vini hans í Swansea.

Svo pöntuðum við Dominos og horfðum á íslenska júróvisjónið. Höfðum mömmuna í Danmörku með, hún fygldist með sjónvarpinu okkar í gegnum síma þess 14 ára. Skemmtilegt hvað tæknin getur gert. Það var næs að vera með hana með okkur. Söknum hennar allir.

Beint í bælið eftir Júróið.

Vöknuðum snemma á sunnudeginum. Ég hafði hlakkað til að sofa út en gleymt að aftengja vekjarann og vaknaði því fyrir allar aldir. Stubbur vaknaði líka snemma, ótrúlegt hvað börn vakna snemma þegar þau mega sofa. En allt í góðu. Gott að drekka morgunkaffið sitt (ég) og horfa á barnatímann (stubbur) á sunnudagsmorgni. Ég planaði vikuna, hvað á að gera hvenær, hver á að gera hvað, hverju þarf að redda. Vikan verður spennandi. Ýmislegt að gerast og planið er bara nokkuð gott, svona fyrirfram allavega. Við 18 ára fórum svo í að laga gróðurhúsið. Týna upp glerbrot og plasta hluta af þakinu sem hafði brotnað þegar snjóhengja datt á það. Gekk vel. Næsta skref er að finna og kaupa rúður. Eiga tryggingarnar ekki að dekka þetta?

Henti í 2-3 þvottavélar. Ryksugaði efri hæðina. Hélt eldhúsinu góðu. Svo stukkum við að fylgjast með þeim 14 ára keppa við FH í fótbolta. Unnu 11-0. Hann skoraði 2 eins og ég hafði sagt honum að gera fyrir leik. Flottir strákar sem ná vel saman innan og utan vallar. Sys, dóttir hennar og pabbi kíktu á leikinn. Gaman að sjá þau. Litla frænka er skemmtileg, rúmlega eins og hálfs árs, mjög hrifinn af 6 ára frænda sínum.

Heim eftir leik. Lékum okkur í fótbolta í salnum okkar, lásum aðeins. Svo basic kvöldmatur, hrefnukjöt, egg, salat. Það verður að viðurkennast að máltíðirnar eru aðeins hrárri þegar við erum einir, karlkynið. En samt góðar!

Spjölluðum við Danina á Facetime, góður fílingur í þeim. Gott að sjá það. Svo háttatími hjá stubb og bíómynd hjá okkur 14 ára.

Sá yngsti saknar mömmu sinnar greinilega án þess að tala mikið um það. Þarf mikið knús og er viðkvæmari en venjulega. En við teljum saman niður dagana og þetta verður fljótt að líða. Við erum ákveðnir í því, feðgarnir. 19 dagar eftir núna. Bara rétt rúmar tvær vikur 🙂

 

 

Öndun, spinning og kuldi

Mér finnst best að læra nýja hluti af fólki sem hefur farið sínar eigin leiðir. Kennir öðruvísi aðferðir. Óhefðbundnar leiðir sem ekki eru allra.

Pavel Tsatsouline og Steve Maxwell eru þeir sem ég hef mest lært af í tengslum við styrktar- og úthaldsæfingar. Meira í eigin persónu af Steve, en ég leita alltaf reglulega í bækurnar hans Pavels. Einfaldar æfingar sem skila árangri. Báðir leggja áherslu á öndun í sínum fræðum. Þeir fara mismunandi leiðir en öndunin er lykilatriði hjá báðum. Steve notar kaldar sturtur mikið og hefur gert lengi. Veit ekki hvort Pavel gerir það líka, en ég veit að honum er meinilla við bæði spinning og kjúklinga (sem mat). Ekki reyna að rífast við hann um það.

Nú er ég búinn að finna nýjan skrýtinn kall til að læra af. Wim Hof. Nokkrir Íslendingar hafa lært af honum nú þegar og eftir að hafa stúderað hans pælingar þá keypti ég mér 10 vikna online námskeið hjá honum fyrir helgi. Öndun og nálægð við kulda eru lykilatriði. Mér finnst bæði heillandi og hlakka til að kafa dýpra í hans fræði á næstu vikum. Byrja formlega á morgun, en er aðeins búinn að prófa öndunina og köldu sturturnar. Kuldinn er öflugur orkugjafi, tengi við það eftir að hafa daðrað við sjósundið í nokkur ár.

Njótum ferðalagsins – lærandi

Gaui

 

 

Pabbadagur 2/23

Vaknaði í hjónarúminu, ekki með konuna við hliðina á mér, skiljanlega, hún er í Danmörku, heldur tvö geislasverð. Ekki alvöru geislasverð, leikfangageislasverð. Einhver hefur á einhverjum tímapunkti laumað þeim undir hina sængina í gær.

Þetta er búinn að vera góður dagur. Duolingo.com á sínum stað með fyrsta kaffibolla dagsins, er kominn á Level 6 í þýsku – fleirtalan að detta inn og Level 15 í spænsku. Atviksorðin eru aðeins að stríða mér þar en þetta er allt að koma. Ellos están lejos de aguí. Þetta kemur skref fyrir skref. Fíla þessa leið til að læra tungumál.

Náðum aftur Yatzy við feðgar í morgun mínus sá 18 ára sem var farinn í skólann. Hörkukeppni, úrslitin réðust á síðasta kastinu. Ég tapaði.

Göngutúrinn í leikskólann á morgnana er alltaf góður. Solid 5 mínútur. Heimsmálin rædd. Komum í veg fyrir hugsanlegt slys með því að losa meterslangt steypustyrktarjárn sem stóð beint upp í loftið í brotnum gangstéttarkanti, líklega eftir snjóruðningstæki.

Fjarvann í dag. Mikill tölvudagur, en góður. Náði að taka nokkrar pásur á milli, hreyfa mig aðeins og fá mér súrefni. Stökk meðal annars út í búð – á bílnum – keypti í kvöldmatinn og þvoði bílinn á þvottastoðinni. Kominn tími til. Komst eftir þvottinn að því hvernig hann er á litinn.

Spotify kom sér vel í tölvuvinnunni, er með nokkur góð lög úr Sons of Anarchy þáttunum á playlista. Þakka þeim 18 ára fyrir að kynna mig fyrir SOA, harðir en vel gerðir og á ýmsan hátt uppbyggjandi þættir. Vekja mann allavega til umhugsunar um ýmislegt.

Sá 14 ára kláraði samræmdu prófin í dag. Gekk vel að eigin sögn, líka í dag. Hann er núna á fótboltaæfingu. Sá 18 ára í nýrri vinnu með skólanum. – vinnu sem eldri bróðir hans reddaði honum. Hann prófaði um síðustu helgi kvöld/næturvinnu þar sem hann var á (lágu) jafnaðarkaupi. Hann sætti sig ekki við það. Stóð harður á sínu við enn harðari vinnuveitandann – þeirra leiðir skildu eftir stutt samstarf. Stoltur af honum að láta ekki kallinn vaða yfir sig. Það á að borga krökkum/fólki almennileg laun.

Letistund hjá okkur 6 ára núna. Ég að skrifa þetta, hann að vinna í fótboltamyndunum sínum og skrifa fótboltalýsingu á hundgömlu ThinkPad tölvuna mína sem allt ætlar að lifa. Staðan í leiknum hjá honum er núna Leicester 2 – Hull 0.

Myndsímaspjall við Danina okkar fljótlega. Eftir að þau koma úr Bilka – stórmarkaðnum sem var með daglegar afmælisveislur (og afmælistilboð alla daga ársins) þegar við bjuggum í Danmörku á síðustu öld. Hlakka til að heyra hvort það hafi verið afmæli hjá Bilka í dag. Og hvernig fyrsti skóladagur frúarinnar gekk. Stoltur af henni að taka þetta skref, skella sér í nám, bæta sig í því sem hún hefur mikla hæfileika í nú þegar.

Hamborgarar með öllu hjá okkur karlkyninu í kvöld. Chillað heimakvöld feðga. Keypti alvöru borgara til að steikja, 175 gramma.

Ég byrja svo morgundaginn á morgunæfingum með æfingahópnum, búinn að smíða þær og hlakka til að keyra fólk í gegnum þær. Hressandi útiæfingar á prógramminu. Sá 6 ára er svo að fara að keppa á fótboltamóti hjá hinum hvítrauðröndóttu Þrótturum. Félaginu sem ég æfði fyrst hjá, hef alltaf taugar til þeirra. Man samt hvað mig langaði alltaf að vinna þá þegar ég var kominn í Fylki á sínum tíma. Eitthvað með að sigra gamla félaga. Hlakka til að fylgjast með honum á fótboltamótinu, hann er sjálfur mjög spenntur. Eðlilega. Sá 18 ára fer með hann, tímasetningin skarast á við morgunæfingarnar hjá mér, en ég ætti að ná flestum leikjunum.

Átta mig því svona í lok dags að ég gleymdi að setja í þvottavélina, stekk í það núna. Taka eina handklæðavél og setja svo í þurrkarann nógu snemma til að trufla ekki nætursvefn kattarins – hún, kötturinn Myrra, sefur í þvottahúsinu en er ekki vinur þurrkarans ef hann er í gangi. Eldhúsið er up-to-date og ég mundi eftir að skammta omega/lýsi ofan í drengina í morgun. Stefni að því að muna það aftur á morgun. Svo þarf að skrá þann 6 ára í grunnskólann, það er eitt af helgarverkefnunum.

Bis morgen!

Pabbinn

Pabbadagur 1/23

Áhugaverðar þrjár vikur framundan. Ég verð einn heima með guttana þrjá á meðan frúin er í námsferð í Danmörku. Hún mun búa hjá þeim fjórða (og elsta) og kærustunni hans í Kaupmannahöfn, gott að vita af henni þar hjá þeim.

Ég ætla að nota þessar vikur til að bæta mig á ýmsum sviðum. Aðallega í fókus. Að einbeita mér að einu verkefni í einu. Ekki vera á nokkrum stöðum í einu (hugrænt). Njóta þess að skipuleggja mig vel, vera með guttunum, sinnum hlutunum vel.

Dagurinn var góður. Vaknaði 5.45 og gerði mig kláran í að stýra morgunæfingu hjá Kettlebells Iceland. Það er alltaf skemmtilegt. Vorum úti í vor/vetrarveðri. Náði einu Yatzíi með 6 og 14 ára áður en ég fór með stubbinn á leikskóla. Hann er búinn að vera hálfveikur og heima í tvo daga, var kátur að komast á leikskólann. Sá 14 ára fór í skólann, er í samræmdum prófum og stendur sig vel þar. Góður námsmaður. Sá 18 ára var farinn í sinn skóla, hálflúinn eftir að hafa skutlað mömmu sinni á BSÍ um miðja nótt. Duglegur.

Tók lærdóminn minn eftir morgunleikfimina, þýska og spænska á Duolingo.com og smá jiu jitsu pæling.

Svo tók við vinnudagur. Setti á mig fyrirtækjaráðgjafahattinn og var með hann fram á miðjan dag. Er að vinna með góðu fólki og fór á áhugaverða fundi þar sem ég lærði ýmislegt nýtt. Kom heim, tók 10 mín siestu áður en ég náði í leikskólaguttann. Spjallaði við tvo af kennurum hans, mikil gæðablóð. Um Barcelona leikinn við annan. Leikinn sem þeir unnu PSG 6-1, þvílíkur leikur!

Við stubbur röltum heim í rólegheitum og ég fór að undirbúa styrktaræfingar. Sá 14 ára passaði á meðan. Erum með tvær æfingar seinni partinn á fimmtudögum, blöndum saman styrk og rúlli á boltum og rúllum. Fíla þessa tíma. Og fólkið sem mætir á æfingar, fæ alltaf jákvætt orkuskot af því að vinna með þeim. Húmor og vilji til að bæta sig er góð blanda.

Upp í matseld, myndhringdi til Danmerkur og við spjölluðum aðeins við okkar fólk þar. Borðuðum svo. Einfaldur matur. Afgangur frá í gær og hafragrautur. Bað. Lestur fyrir stubbinn, Hr.Kitli og Hr.Rugli voru bækur kvöldsins.

Ég fylgdist svo með 1/4 auga með þeim leikjum kvöldsins sem skiptu mig máli. ÍR-Keflavík í körfu og Selfoss-Afturelding í handbolta. Bæði liðin mín unnu í spennandi leikjum. Næst á dagskrá, frágangur í eldhúsi, hugsanlega einn sjónvarpsþáttur / eða lestur og bælið.

Hlakka til morgundagsins. Ætla að vinna í spennandi málum þá. Meðal annars svara fyrirspurnum um Njóttu ferðalagsins bækur, útbúa auglýsingu og skipuleggja fyrirlestra.

Svona var í grófum dráttum þessi dagur í lífi pabbans. Bara nokkuð ánægður með hann 🙂

Kamchatka

Leysingarnar hér heima minna mig á Kamchatka í Rússlandi. Ég kom þangað fyrir 11-12 árum. Snjórinn var að hverfa, götur og umhverfið grátt en maður fann að það var mjög stutt í vorið. Væri til í að fara til Kamchakta að vori eða sumri til. Landslagið þar er magnað og skaginn stútfullur af björnum. Það er svo mikið af björnum á vappi þarna að það hótelin voru með umgengnisreglur við birni hangandi á veggjum. Maður á ekki að horfa í augun á þeim, en heldur ekki mjög flóttalega undan. Ekki hlaupa á undan þeim, ekki ögra þeim, ekki abbast upp á þá en ekki láta þá vita að þú sért hræddur við þá.

Í stuttu máli, ef þú böggar ekki birnina, eru þeir ólíklegir til að abbast upp á þig.

Njótum ferðalagsins – með virðingu fyrir umhverfinu

 

Litlu mómentin í lífinu

Við hjónin duttum bæði í sömu pælinguna í dag. Að njóta þess í botn að vera með litla sex ára guttanum okkar. Hann er stútfullur af lífsgleði, syngur allan daginn og er alltaf að segja okkur frá því sem hann er að hugsa. Við erum enn stór hluti af hans daglega heimi. Þessi saklausi heimur barnana er frábær og bæði gefandi og gaman að taka þátt í honum með þeim. Spila, tala, pæla, vera til með þeim.

Njótum þess á meðan við getum.

 

Rætur

Ég fór með vinum til áratuga í árlega helgarferð um síðustu helgi. Ferðin snýst um gefandi puð (að komast sér á staðinn), heilbrigð ó-þægindi (skálinn sem við gistum í er vatns og rafmagnslaus), útivist, heitapottsgerð í læk, sameiginlegan mat, saunuferð, gamlar sögur, hlátur og viðhald á vinskap sem mun endast út lífið.

Það er ekki símasamband á staðnum, engar tölvur, ekkert sjónvarp, engin klukka.

Tíma- og nánast tækjalaus helgi.

Þvílík orkuhleðsla!

Njótum ferðalagsins,

Gaui

Love on the brain

Tónlist er vanmetið verkfæri til að hafa áhrif á tilfinningar og líðan fólks. Ég er búinn að vera uppgötva Spotify síðustu mánuði. Spotify er frábært. Þar er hægt á einum stað nánast allt sem mann langar að heyra. Ég er rokkhundur í grunninn, ólst upp við AC/DC, Iron Maiden og Kiss (þeir eru víst rokkarar!) og þótt ég tekið nokkrar sveigjur í tónlistinni, höfðar þungt og hrátt rokk enn mest til mín. Fíla best að æfa með háa og hráa tónlist í umhverfinu.

En svo á ég nokkur lög sem eru ekki í hráu rokkkatagoríunni. “Love on the brain” með Rihonnu er eitt af þessum lögum. Einhver fílingur í laginu og flutningnum sem ég tengi við. Lætur mér líða vel. Svo er Rihanna frá Barbados. Við bjuggum þar í nokkra mánuði fjölskyldan og fíluðum okkur vel. Velti því stundum fyrir mér hvaðan af Barbados Rihanna sé, hvort hún sé Bridgetown stelpa eða frá austurströndinni þar sem menn fara og surfa í stórum og lifandi öldum.

Njótum ferðalagsins – með tónlist,

Gaui

Sjálfstæði

Eitt það besta sem við konan mín höfum gert um ævina er að vera algerlega sjálfstæð og engum háð með æfingastöðina okkar, Kettlebells Iceland. Við höfum samanburðinn. Við höfum verið öðrum háð. Borgað leigu sem hefur verið hækkuð mjög bratt. Þurft að breyta tímasetningum vegna annarrar starfsemi. Þurft að hætta með æfingar hreinlega.

Í dag ráðum við því alveg sjálf hvaða daga æfingar erum. Hvenær dags. Hvað þær eru langar. Hvernig þær eru uppbyggðar. Hvernig tónlist er spiluð. Hvort við æfum úti eða inni. Og svo framvegis. Allt í góðu samspili með þeim sem æfa hjá okkur. Þeim snilldarhópi! Og í samráði við þá traustu þjálfara sem vinna með okkur.

Útiæfing á Engjavegi

Frelsið er yndislegt 🙂

Njótum ferðalagsins,

Gaui

Snjórinn

Það var geggjað að vakna á sunnudaginn og sjá allan snjóinn. Við höfðum ætlað að vinna á risinu, en gátum bara ekki verið innandyra á þessum frábæra degi. Fórum út með guttunum, lékum okkur í snjónum, mokuðum auðvitað eins og allir, tókum nokkra snjóbrekkuspretti og nutum birtunnar.

Það er virkilega hressandi að fá svona óvæntan vetur í andlitið. Um að gera að njóta hans í botn á meðan hann er til staðar, ekki láta það trufla sig þó plön raskist aðeins út af ófærð eða breyttum aðstæðum.

Nú er aldeilis tími til að leika sér, sama hvað maður er ungur!

Njótum ferðalagsins,

Gaui