Guðjón Svansson er samskiptafræðingur frá Syddansk Universitet í Danmörku. Hann vann lengi fyrir Útflutningsráð Íslands og bar þar meðal annars ábyrgð á fræðsluverkefnum og viðskiptasendinefndum. Hann hefur einnig unnið fyrir Rauða krossinn að uppbyggingu neyðarvarna á Íslandi og sem ráðgjafi hjá Hagvangi þar sem orkustjórnun og mannlegir stjórnunarhættir voru hans helstu verkefni.

Guðjón hefur síðan hann flutti heim frá Danmörku árið 1999 haldið fjölmarga fyrirlestra og stýrt námskeiðum út um allt land sem og erlendis. Hann er líka fastur þjálfari hjá Kettlebells Iceland, sem þau Vala eiga og stýra saman. Hans uppáhald þar eru útiæfingar eldsnemma á morgnana og rólegar styrktaræfingar seinni partinn. Guðjón er fastur pistlahöfundur í Bæjarblaðinu Mosfellingi og er höfundur bókarinnar “Njóttu ferðalagsins”.

Vala Mörk er iðjuþjálfi frá Ergoterapautskolen í Odense og vann sem slíkur í mörg ár, fyrst í Danmörku og svo á Reykjalundi. Á Reykjalundi vann hún meðal annars með miðtaugakerfissjúklingum, gigtarsjúklingum, hjartasjúklingum og offitusjúklingum.

Eitt af hennar meginverkefnum þar var að aðstoða fólk við að koma á jafnvægi í daglegu lífi sínu og ná tökum á streitu, mæta álagi og auka lífsgæði. Hún hefur stýrt fjölda námskeiða og hefur alla tíð unnið af áhuga með fólki sem vill bæta líf sitt og heilsu. Vala er yfirþjálfari Kettlebells Iceland, einkaþjálfari og nuddari.