Fyrirlestrar & Vinnustofur

Lifum lengur – betur

Við notuðum fyrri hluta ársins 2019 í að kynna okkur frá fyrstu hendi þau samfélög í heiminum þar sem fólk hefur lifað lengst og best. Hvað eiga Loma Linda í Bandaríkjunum, Nicoyaskaginn í Kosta Ríka, japanska eyjan Okinawa, gríska eyjan Íkaría og ítalska eyjan Sardinía sameiginlegt? Hver eru langlífisleyndarmál þeirra? Hvað lærðum við mest á því að dvelja á þessum svæðum með tveimur sonum okkar? Hvað kom okkur mest á óvart?

Hvað getum við Íslendingar lært af þessum samfélögum til þess að fyrirbyggja kulnun og streitu og auka vellíðan og hamingju fólks heima og í vinnu? Hvernig getum við blandað saman þeirri þekkingu sem við búum sjálf yfir og reynslu annarra svo við getum notið lífsins betur?

“Lifum lengur – betur” er myndrænn og lifandi fyrirlestur sem mun planta jákvæðum fræjum hjá þeim sem hlusta.  Við lofum því. Fyrirlesturinn er hægt að sníða að öllum hópum – sama hvernig þeir eru samsettir – og tímalengd getur sömuleiðis verið löguð að aðstæðum.

Fyrirlesar: Vala Mörk og Guðjón Svansson

Njóttu ferðalagsins (2019 útgáfan)

Fyrirlesturinn byggir á samnefndri bók sem kom út árið 2017. Bókin var skrifuð með foreldra – pabba, fyrst og fremst, í huga – og kjarninn er hugleiðingar fjögurra barna föðurs um hvað skiptir mestu máli í lífinu. Í fyrirlestrinum talar Guðjón um sína reynslu, hvað hann hefur lært um sjálfan sig og samskipti við aðra af föðurhlutverkinu. Hann talar um hvernig hægt er að njóta þess að vera fyrirmynd, um mikilvægi þess að veita öðrum ábyrgð og hversu öflugt það er að sýna þakklæti í verki.

ATH! Foreldrahlutverkið er lifandi skóli og fyrirlesturinn hefur verið uppfærður  samkvæmt ferskri reynslu höfundar.

Fyrirlesari: Guðjón Svansson

Stökktu! (hressilega uppfærður fyrirlestur um fjölskylduheimreisur)

Fyrirlesturinn byggir á árs heimsreisu sem við, þá fimm manna, fjölskylda úr Mosfellsbæ, fórum í árið 2008 – þið munið eftir því ári, er það ekki?

Við fórum af stað í þetta ævintýri án þess að vita nákvæmlega hvert það myndi leiða okkur og hvað tæki við þegar við kæmum til baka sumarið 2009.

10 árum síðar fórum við aftur í heimsreisu, helmingi styttri í tíma en talsvert lengri í kílómetrum.

Í fyrirlestrinum förum yfir hvað við höfum lært af þessum tveimur ferðum og hvað þær hafa gefið okkur sem fjölskyldu.

Hvernig tæklar maður hindranir? Hvernig leysir maður óleysanlegar þrautir? Hvernig nýtir maður þennan mikla tíma með fjölskyldunni? Hvernig (og hvað) kennir maður börnunum sínum á ferðalagi?

“Stökktu!” snýst um að þora að láta drauma sína rætast. Njóta lífsins með þeim sem skipta mann mestu máli. Láta ekkert stoppa sig.

Fyrirlesarar: Vala Mörk og Guðjón Svansson

Almennt um fyrirlestrana okkar

Við tölum alltaf út frá okkar reynslu, því sem við höfum lært og upplifað. Blöndum reynslunni við fræðin sem við höfum á bak við okkur, en við lærðum bæði í Danmörku á sínum tíma og höfum haldið áfram að læra síðan.

Við förum sjálf eftir því sem við hvetjum aðra til að gera og setjum alla okkar orku í þau verkefni sem við sinnum. Það sem við tölum um skiptir okkur virkilega máli.

Við viljum helst vinna með fólki og hópum sem hefur áhuga á lífinu og vill gera gefandi, uppbyggilega og skemmtilega hluti innan og utan vinnu. En við höfum bæði talsverða reynslu af því að tala við fólk sem er pikkfast inni í sínum kassa og vill helst halda sér sem fastast þar (við náum sumum út…).

Hafðu samband við annað hvort okkar til að fá upplýsingar um verð, mögulegar tímasetningar og fyrirkomulag.  Það er hægt að laga alla fyrirlestra að hvaða hóp sem er, bæði hvað varðar áherslu og tíma. Við bjóðum einnig upp á þann möguleika að breyta fyrirlestri í vinnustofu og gefa þátttakendum þannig kost á að kafa dýpra í viðfangsefnið.

Vala Mörk,  vala@njottuferdalagsins.is / 6961179

Guðjón Svansson, gudjon@njottuferdalagsins.is / 857 1169