Teningurinn

Ég náði loksins að klára töfrateninginn einn og óstuddur í gær. Það þýðir að bara einn úr sex manna kjarnafjölskyldunni okkar á eftir að leysa verkefnið (þú veist hver þú ert!)

Næst elsti sonur okkar, Arnór, var fyrstur til að klára teninginn, gerði það fyrir nokkrum árum. Svo vaknaði áhugi fjölskyldunnar aftur þegar við lögðum af stað í yfirstandandi ferðalag, unglingurinn Orri tók verkefnið með trompi, var snöggur að finna leiðir til þess að klára teningininn og tók svo að sér að kenna okkur hinum skrefin.

Frú Vala var næst, fylgdi leiðbeiningunum vel og var dugleg að æfa sig. Snorri, 8 ára, fylgdi í hennar fótspor og var afar snöggur að fara í gegnum þrepin. Líklega sneggstur allra.

Ég fór rólega í þetta, byrjaði að skoða verkefnið í Kosta Ríka og mjakaði mér hægt og rólega í gegnum þrepin. En þetta var tvö skref áfram og eitt afturábak hjá mér.

Leiðbeiningar Orra voru skotheldar, drengurinn er góður kennari. Skýr og þolinmóður. Alltaf klár í að aðstoða.

Löng fjölskylduferðalög eru frábær í samvinnuverkefni af þessu tagi. Það er gaman og gefandi að vinna að sameiginlegu markmiði – hvort sem það er að leysa töfratening, læra tungumál eða eitthvað allt annað.

Njótum ferðalagsins! Saman

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *