Ég skaust til Akureyrar í síðustu viku. Flaug norður um morguninn og aftur til Reykjavíkur seinni partinn. Vinnuferð. Ég er búinn að fara oft norður síðustu misseri og finnst það alltaf jafn gaman. Það er eitthvað töfrandi við Akureyri. Fallegur bær og umhverfi. Ef ég hef tíma labba ég frá flugvellinum inn í bæinn. Það er göngustígur alla leið.

Þessi gönguleið er í miklu uppáhaldi hjá mér, ég fæ orku við að labba meðfram sjónum. Veðrið skiptir ekki máli. Ég tek með mér létt gönguföt ef það eru líkur á roki á rigningu, sem er nánast aldrei, því eins og alþjóð veit er alltaf sól og blíða á Akureyri. Ef vinnudagskráin leyfir labba ég líka út á flugvöll í lok dags.

Þessi ganga er lítið dæmi um hvernig hægt er að koma hreyfingu inn í daglegt líf. Þeir sem eru mikið á ferðinni hugsa oft ekki út í þennan möguleika. Eru fastir í því að fara á milli staða í bíl eða öðrum farartækjum. Bíða frekar eftir fari heldur en að labba á milli staða.

Það kom mér skemmtilega á óvart að heyra að þátttakendurnir á vinnustofunni sem ég var með á Akureyri eru duglegir að hreyfa sig. Ein til dæmis labbar alltaf til og frá vinnu, um 45 mínútna leið. Frábær byrjun á degi að hreyfa sig mjúklega og fá stóran súrefnisskammt í leiðinni.

Gangan heim úr vinnu hjálpar svo til við að hreinsa hugann. Losa vinnuverkefnin úr hausnum og koma fersk heim í faðm fjölskyldunnar. Annar notar aldrei lyftur. Labbar alltaf upp og niður stiga, bæði í vinnu og utan. Hann vann fyrir nokkrum árum á sjöundu hæð og gekk þá alltaf upp og niður stigana. Fyrst í stað tóku vinnufélagar hans lyftuna, en smituðust svo af okkar manni og fóru smátt og smátt að fylgja hans fordæmi.

Það eru ótal leiðir til að auka við daglega hreyfingu. Við þurfum bara að líta aðeins upp úr símunum og koma auga á þau tækifæri sem eru fyrir framan okkur alla daga.

Dagleg hreyfing er lykilþáttur í langlífi og góðri heilsu. Þeir sem nýta hreyfifæri (hreyfing + tækifæri) dagsins lifa lengur og betur en þeir sem lifa þægilegu en óhollu kyrrsetulífi. Það er bæði vísindalega sannað og heilbrigð skynsemi.

Njótum ferðalagsins!

Categories:

Tags: