Lifa og læra

Við hjónin erum á sundnámskeiði. Byrjuðum í síðustu viku að læra skriðsund upp á nýtt. Höfum hvorugt náð því almennilega þrátt fyrir að hafa mætt vel í sundkennslu í barnaskóla. Ég er lengi búinn að ætla að fara á skriðsundnámskeið, alveg síðan ég fyrir ekki svo löngu síðan komst að því – mér mjög á óvart – að skriðsund er aðferð til þess að synda langt og án mikillar fyrirhafnar. Fyrir mér var þetta þveröfugt, skriðsund var baráttusport fyrir styttri vegalengdir. Mjög stuttar vegalengdir í mínu tilviki.

Frændi konunnar minnar – Ásgeir Thoroddsen, mikill útivistargarpur, benti mér á skriðsundaðferð sem kallast „Total Immersion“ fyrir nokkrum árum þegar við vorum að ræða þetta. Ég keypti samnefnda bók og heillaðist af aðferðafræðinni – sem gengur í stuttu máli út á að skapa sem minnsta mótstöðu við vatnið á sundinu og nota sem minnsta orku. En ég náði ekki að yfirfæra aðferðafræðina úr bókinni yfir í laugina. Það var því mikil hamingja að komast að því að sundkennarinn Þórður Ármannsson, Skriðsundsnámskeið Dodda, er að kenna akkúrat þessa sundaðferð og það í mínum heimabæ, Mosfellsbæ.

Við erum búin með fyrstu vikuna af fjórum á námskeiðinu og það lofar virkilega góðu. Ég er að læra að synda alveg upp á nýtt, skref fyrir skref, og finnst það frábært. Líkamsstaðan í vatninu skiptir öllu máli. Sömuleiðis að vera slakur, ekki vera stífur og með spennta vöðva. Það er atriði sem ég hef þurft að vinna með í öðrum íþróttum, hef, ómeðvitað, notað of mikinn styrk og spennu í aðstæðum þar sem ég ætti að spara orku og vera mýkri. Og í aðstæðum eins og göngutúrum. Ég átta mig stundum á því þegar ég er úti að labba mér til heilsubótar að ég er á yfirsnúningi, bæði líkamlega og andlega. Labba mjög hratt og ákveðið og er að hugsa um allt of margt í einu.

Námskeið eins þetta sem ég er á núna, geta kennt manni miklu meira en bara það sem það á fyrst og fremst að snúast um, ef maður er móttækilegur og getur yfirfært það sem maður lærir yfir á aðra þætti í lífinu. Lífið snýst um jafnvægi. Stundum þarf maður að taka vel á því, en á móti þarf að maður líka að geta slakað á og endurnýjað þannig orkuna.

Njótum ferðalagsins!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *