September og janúar eru þeir mánuðir sem fólk stekkur til og kaupir sér árskort í líkamsrækt. Stóru stöðvarnar eru með góð tilboð í gangi á þessum tíma, sérstaklega á árskortum. Það er engin tilviljun, fólk er að klára frívertíð, sumarfrí eða jólafrí, buxnastrengurinn er orðinn þrengri og erfiðara að smella efstu tölunni á skyrtunni. Þetta ástand kallar á aðgerðir og árskort í líkamsrækt hljómar lokkandi sem leið út úr ástandinu.

En eins og flestir sem hafa lent í að kaupa sér árskort og nýta það svo skerandi lítið vita er árskort ekki endilega besta byrjunin. Vænlegri byrjun er að prófa sig áfram, fá að mæta í 2-3 skipti á þann stað sem maður er að íhuga að styrkja með árskorti. Hugsanlega kaupa einn mánuð. Finna hvort staðurinn henti. Hvort umgjörðin, þjálfararnir, æfingafélagarnir og annað sem skiptir máli sé í takti við væntingar okkar. Líður okkur vel á staðnum? Er tekið vel á móti okkur? Eru æfingarnar að gera okkur gott? Vita þjálfararnir hvað þeir eru að gera? Er gaman að æfa á staðnum?

Þessum og fleiri spurningum er mikilvægt að svara áður en maður festir sig til lengri tíma. Stórar stöðvar með stór tilboð á þessum tíma árs gera beinlínis ráð fyrir því að meirihluti þeirra sem kaupa árskort mæti bara fyrstu vikurnar, ef það, og láti svo ekki sjá sig aftur fyrr en eftir ár. Það er ekkert leyndarmál. Við vitum þetta öll.

Það er ekkert að því að kaupa árskort ef maður veit að maður mun nýta það vel. En ef maður er óviss er betra að fá að prófa fyrst. Festa sig í styttri tíma. Annað sem ég virkilega mæli með fyrir þá sem eru viðurkenndir og staðfastir árskortastyrktaraðilar er að prófa eitthvað nýtt. Prófa nýja hreyfingu, nýja íþrótt, nýja leið til þess að koma reglulegri hreyfingu inn í lífið. Það er ótrúlega margt í boði á Íslandi, bæði rótgróið og nýtt, og það er aldrei of seint að byrja að stunda nýja hreyfingu.

Ég hef sjálfur reynslu af því að byrja á nýrri íþrótt á fertugsaldri og tengjast henni sterkum böndum. Hvað sem þú gerir, kæri lesandi, hugsaðu málið vel og taktu ákvörðun út frá því hvað mun henta þér best og gefa þér mest.

Njótum ferðalagsins!

Categories:

Tags: