Björt framtíð (ekki stjórnmálaflokkurinn…)

Í síðustu viku skrifaði ég pistill um slæmar fyrirmyndir í unglingafótbolta. Þjálfara og foreldra bandarísks liðs sem sonur minn og félagar hans spiluðu við á alþjóðlegu móti á Spáni. Til upprifjunar þá urðu bæði þjálfarar og foreldrar liðsins sér til skammar með grófum og dónalegum hrópum og köllum allan leikinn. Það er ekki til fyrirmyndar.

En það sem gerðist síðan er til fyrirmyndar. Þegar lá við að upp úr siði eftir þennan vasklega leik sá ég son minn og fyrirliða bandaríska liðsins tala saman, báðir með símana sína á lofti. Einhverjir héldu að þeir væru að rífast og ég fór til þeirra að athuga málið. Svo var alls ekki. Þeir voru að tengjast á Snapchat. Sallarólegir í látunum. Fyrirliðar liðanna.

Nú er liðin tæpur hálfur mánuður frá mótinu og ég spurði son minn í gær hvort þeir hefðu eitthvað verið í sambandi. Hann sagði mér að þeir hefðu mikið verið að ræða málin, bæði leikinn sjálfan og það sem gerðist í honum en líka lífið almennt. Hitabylgjuna sem er núna í New Jersey, heimsmeistarakeppnina og ýmislegt fleira. Tveir heilbrigðir fótboltastrákar í sitt hvorri heimsálfunni með svipuð áhugamál.

Mér finnst þetta frábært, sérstaklega eftir öll lætin sem urðu í kringum fótboltaleikinn. Jákvæð samskipti þeirra sýna í verki að þótt foreldrar séu slæmar fyrirmyndir, þá er ekki sjálfgefið að börn þeirra fylgi í fótspor þeirra. Vissulega hafa foreldrarnir mikil áhrif, til góðs og ills, en stundum eru vítin til að varast þau. Krakkarnir skynja og átta sig á að hegðun foreldranna er ekki góð og ákveða að fara aðra leið í lífinu.

Samskipti strákanna eftir leikinn segir okkur líka hvað samskiptamiðlar – sem við tölum svo mikið niður, ég er þar engin undantekning – geta gert mikið. Snapchat er í þessu tilviki frábært samskiptatól sem á þátt í að brjóta niður múra og breyta neikvæðum tilfinningum og samskiptum í jákvæðar.

Ég hef mikla trú á komandi kynslóðum, finnst krakkar og ungt fólk í dag vera miklu opnara, umburðarlyndara og umhyggjusamara en mín kynslóð var á þeirra aldri.

Við sem erum fullorðin í dag getum margt lært af þeim yngri. Við getum bætt okkur, orðið betri manneskjur og þannig orðið enn betri fyrirmyndir fyrir þau sem á eftir okkur koma.

Njótum ferðalagsins!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *