Tómarúm eftir tónleika

Sumarið hjá mér hefur verið líflegt. Ég hef verið mikið á flakki, vinnutengdu og fjölskyldutengdu. Hef farið í styttri og lengri ferðir síðan í byrjun júní og því lítið náð að velta mér upp úr rigningarsumrinu mikla hér heima. Sem er bara hið besta mál, finnst mér. Ég er meira fyrir sól en rigningu.

Ég stökk svo nánast beint út úr flugvél á Guns N Roses tónleikana í Laugardalnum. Tónleika sem ég var búinn að hlakka mikið til eftir að hafa hlustað á hljómsveitina út í eitt á menntaskólaárunum. Þetta voru að mínu mati frábærir tónleikar – fyrst og fremst vegna þess að það var svo augljóst að þeir félagar höfðu gaman af því sem þeir voru að gera. Maður sá það á allri líkamstjáningu og hreinlega í augunum á þeim. Og það smitaði út frá sér, skapaði jákvæða og góða orku í Laugardalnum.

Daginn eftir tónleikana datt ég svo ofan í tómarúm og það kom mér algjörlega í opna skjöldu. Hafði á flakkinu hlakkað til að koma heim og vera heima, en það var eins og tónleikarnir hefðu verið einhvers konar endapunktur á keðju atburða sem mynduðu stóran hluta sumarsins hjá mér.

Og þegar ég velti því betur fyrir mér er ég búinn að upplifa svo margt spennandi, nýtt og skemmtilegt í sumar að það er líklega eðlilegt að ég lendi í spennufalli þegar hlutir róast.

Spennufallinu fylgdi ör-flensa, hausverkur og líkamleg þreyta og ég streittist fyrst á móti, reyndi að halda áfram með mín verkefni og skyldur. En svo ákvað ég að fylgja eigin ráðleggingum, fresta verkefnunum og hreinlega sofa þetta úr mér. Henti mér í bælið í tæpan sólarhring.

Vaknaði svo ferskur og bjartur. Kominn út úr tómarúminu og spenntur fyrir öllu því sem framundan er hér á Íslandi næstu vikur og mánuði.

Við þurfum öll að taka hvíldina alvarlega, passa upp á okkur sjálf til þess að geta gefið af okkur og verið öðrum til stuðnings og hvatningar.

Pælið bara í Slash, eftir að hafa verið á sviðinu í Laugardalnum í tæpa fjóra klukkutíma, stútfullur af orku og leikgleði, skellti kappinn sér í handstöðu áður en hann labbaði keikur út af sviðinu.

Þannig orku hefur maður bara ef maður hefur gaman af því sem maður er að gera og passar að hvíla sig milli lota.

Njótum ferðalagsins!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *