180 mínútur á dag

Þann fyrsta ágúst síðastliðinn byrjaði ég í fimm mánaða áskorun. Áskorunin gengur út á að hreyfa sig markvisst í allavega þrjá klukkutíma á dag.

Ástæðan var sú að ég uppgjötvaði eftir að ég byrjaði aftur að vinna að ég var ekki að hreyfa mig nóg yfir daginn. Sat of mikið við tölvuna.

Eftir frí, þar sem ég var mikið á hreyfingu, fann ég skýrt hvað þessi mikla seta fór illa í mig. Maður verður orkuminni, þreyttari andlega og stirðari í skrokknum. Skiljanlega, við mannfólkið erum ekki hönnuð til að sitja á rassinum heilu og hálfu dagana. Samt gerir stór hluti okkar það.

Mín leið til þess að breyta þessu er að setja mér fasta ramma, 180 mínútur á dag. Síðan hef ég frelsi innan rammana, öll hreyfing telur. Grunnurinn hjá mér eru göngutúrar. Ég hef í mörg ár byrjað daginn á morgungöngu, en nú er ég búinn að lengja þann tíma sem ég nota í hana og er líka búinn að bæta hádegisgöngu við mitt daglega prógramm.

Þegar maður þarf að ná að fylla upp í hreyfikvóta fer maður að leita að og finna tækifæri. Ég til dæmis notaði klukkutíma til að kaupa mat í Borgarnesi á leið norður á Strandir um daginn.

Lagði bílnum spölkorn frá búðinni, rölti niður í fjöru, gerði nokkrar liðleikaæfingar, labbaði lengri leiðina að búðinni og svo tilbaka að bílnum með þunga poka í sitthvorri höndinni – fékk þannig auka og ókeypis styrktaræfingu í leiðinni.

Garðvinna, leikir við börn eða barnabörn, fjallgöngur og sund eru nokkur dæmi um hreyfingu sem auðvelt er að framkvæma með öðrum. Tengja þannig saman hreyfi- og félagslega þörf okkar.

Reglulegar æfingar er önnur leið til þess að halda manni við efnið. Æfa með hópi sem mann hlakkar til að hitta nokkrum sinnum í viku. Styrkja sig og efla í góðum félagsskap.

Það er ekki eins flókið eða erfitt og margur heldur að hreyfa sig markvisst í þrjá klukkutíma á dag og það skilar sér margfalt til baka, bæði til styttri og lengri tíma.

Á meðan fimm mánaða áskoruninni stendur skráset ég alla daga hvað ég geri til þess að ná 180 mínútum af hreyfingu inn í minn dag.

Fylgstu með mér á Instagram, https://www.instagram.com/gudjon_svansson/og/eða taktu þátt í áskoruninni með mér.

Njótum ferðalagsins!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *