Nauthólsvíkin

Ég fór í sjósund í síðustu viku. Við vorum þrjú sem fórum saman í Nauthólsvíkina og tökum sundsprett. Höfðum ekki farið lengi í sjóinn og það tók smá tíma að koma sér í gírinn. Hita sig upp líkamlega og andlega. En síðan var þetta bara hressandi enda sjórinn tæplega 12 gráðu heitur sem þykir gott á Íslandi.

Aðstaðan fyrir sjósund í Nauthólsvík er frábær, búningsklefar, heitur pottur og gufabað. Og vinalegt afgreiðslufólk.

Ég er með sérstaka tengingu við Nauthólsvík eftir við í Kettlebells Icelandvorum, fyrir nokkrum árum síðan, með daglegar styrktaræfingar þar í vel á annað ár. Notuðum ketilbjöllur, kaðla og ýmis önnur tól og tæki til að þjálfa hóp af skemmtilegu fólki. Við fengum góðan vin okkar til að smíða apastiga, klifurgrind sem við settum upp í grasbala við hliðina á ströndinni. Við notuðum hann fyrir okkar æfingar og svo gátu gestir og gangandi nýtt sér hann þar fyrir utan.

Ég kíkti í síðustu viku á staðinn þar sem við höfðum verið með apastigann. Þar var ekkert nema illgresi og gamall trjábútur sem gægðist upp úr því. Mér fannst það synd. Við höfðum á sínum tíma þegar við hættum með æfingarnar í Nauthólsvík boðið staðarhöldurum að halda stiganum, en þeir höfðu ekki áhuga á því þannig að við fluttum hann með okkur upp í Mosfellssveit þar sem hann er aldeilis vel nýttur.

En ég hefði samt viljað hafa hann áfram í Nauthólsvíkinni. Hann var hreyfihvetjandi fyrir fólk á öllum aldri og mikið notaður af þeim sem áttu leið hjá. Málið er nefnilega að fólk vill hreyfa sig, æfa sig og leika sér en stundum þarf að hvetja það til dáða. Til dæmis með því að stilla upp apastigum, klifurgrindum og annars konar æfinga – og hreyfitækjum hér og þar um borgir og bæi.

Sumar borgir eru mjög framarlega í þessu. Í Moskvu, til að nefna eina, er til þannig mikið af stærri og smærri almenningsgörðum og í þeim einhvers konar útiæfingatæki.

Þessi tæki þurfa hvorki að vera flókin eða dýr. Nauthólsvíkin er upplagður staður fyrir útiæfingatæki. Það eru reyndar þrjú tæki upp á grasflötinni, en ég myndi vilja sjá miklu fleiri og fjölbreyttari. Útiæfingagarð hreinlega sem hlauparar, hjólreiðamenn og aðrir útivistarunnendur gætu nýtt sér til þess að styrkja sig og efla.

Njótum ferðalagsins!

p.s. myndin er frá 2011

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *