Ég hitti vin minn á kaffihúsi um daginn. Hann er rúmlega 60 ára í lífaldri, en ferskari á líkama og sál en margir helmingi yngri. Allt í kringum hann er fólk sem er hætt að vinna eða á leiðinni að hætta að vinna. Hann hefur engan áhuga á því að leggjast í helgan stein, er stútfullur af orku og framkvæmdargleði og langar að láta gott af sér leiða.

Ég verð sjálfur 50 ára á næsta ári. Hef engar áhyggjur af því. Mér finnst ég bara rétt hálfnaður með lífið. Ég er ekki farinn að velta fyrir mér starfslokum en veit af ýmsum á mínum aldri sem eru farnir að gera það. Vilja ekki hætta í öruggu vinnunni sinni – sem er í sjálfu sér mótsögn, það er ekki neitt til sem heitir örugg vinna, á meðan maður vinnur fyrir aðra er alltaf hægt að segja manni upp – og eru eiginlega að teygja lopann fram að starfslokum.

Ég á erfitt með að tengja við þann hugsunarhátt. Enda er það þannig, eins og vinur minn á kaffihúsinu gat sagt mér mörg dæmi um, að þegar fólk hættir að vinna vegna lífaldurs þá missir það gjarna orku og lífsneista. Verður allt í einu miklu eldra, bæði líkamlegra og andlega. Þarf að leggja sig oftar á daginn. Hættir að þora að gera hluti sem það annars hafði hlakkað til að gera á meðan það var að klára síðustu árin í vinnunni.

Þetta er rökrétt þegar nýjustu skilgreiningar á heilsu eru skoðaðar. Í þeim skiptir miklu máli fyrir einstaklinginn að upplifa að hann hafi tilgang í lífinu. Sé hluti af samfélagi og skiptu máli í samfélaginu. Ef fólk gerir ekkert annað en að fara í golf og blunda nokkrum sinnum á dag eftir starfslok, missir það þennan tilgang og hlutverk sem það hafði áður í vinnunni.

Ég held að við sem samfélag ættum að fara að hrista aðeins upp í umræðunni um starfslok, fara að hugsa þetta öðruvísi. Hætta að horfa blint á starfsaldur, frekar meta getu, orku og vilja einstaklingsins til þess að halda áfram að sinna vinnu og verkefnum. Leyfa fólki að minnka við sig jafnt og þétt. Halda áfram að hafa hlutverk og tilgang.

Lykilatriði í þessu er að atvinnurekendur opni hugann og fari að horfa á 60 plús fólkið sem verðmæta og dýrmæta reynslubolta.

Njótum ferðalagsins!

Categories:

Tags: