Ég skrifaði pistil í síðustu viku um þá sem eru 60 ára og eldri. Viðbrögðin voru góð. Eg hef heyrt í mörgum 60 ára og eldri sem hafa lýst yfir ánægju sinni með hugleiðingarnar.

Mér þótti sérstaklega vænt um 60 plús ára hjónin sem komu til mín á fótboltaleik í síðustu viku og sögðust vera algerlega sammála mér. Maðurinn, 73 ára, hljóp 10 km í maraþoninu um síðustu helgi eins og hann hefur gert undanfarin ár. Fannst það ekkert erfiðara en síðast, var bara örlítið lengur að því.

Með hans orðum, maður getur haldið áfram að gera það sem maður var að gera þegar maður var þrítugur – er bara aðeins lengur að því.

Frábært viðhorf enda geisla þau hjónin af hreysti og eiga alveg örugglega mörg góð ár eftir eins dugleg og þau eru að hreyfa sig og gera það sem þeim finnst skemmtilegt.

Í sömu viku kom í fjölmiðlum frétt af 95 ára veðurfræðingi sem var nýbúinn að fara í sitt fyrsta fallhlífarstökk. Fannst það mjög gaman og auðveldara líkamlega en að labba rösklega 100 metra.

Leikur og gleði er mikilvæg ef maður vill lifa vel og lengi. Maður verður fyrst gaman þegar maður hættir að leika sér, er sagt, og að mínu mati er það hárrétt. Við hugsum mörg allt of mikið um hvort þetta sé nú viðeigandi, hvort við eigum að vera að standa í þessu á okkar aldri (sem getur verið hver sem er).

Það er miklu skemmtilegra að láta vaða, hætta að velta því fyrir sér hvort einhver sé að spá í hvort við ættum að vera að leika okkur eða ekki. Það skiptir bara engu máli. Og þar fyrir utan er ég viss um að flestum finnist það meira hvetjandi en óviðeigandi. Það var allavega það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég las um fljúgandi veðurfræðinginn. Hann er 46 árum eldri en ég. Næstum tvöfalt eldri. Þvílík fyrirmynd!

Maður er aldrei of gamall til að leika sér og maður er aldrei of gamall til að læra eitthvað nýtt. Ég ætla til dæmis að skella mér á 4 vikna skriðsundnámskeið í september. Hlakka mikið til þess og bind miklar væntingar við það. Kominn tími til að læra skriðsundið almennilega. Ekki fyrir keppni, heldur fyrir mig sjálfan. Af því að mig langar til þess.

Njótum ferðalagsins!

p.s. sá fremri á myndinni er 100 ára 

 

Categories:

Tags: