Hin hollenska Dr. Machtfeld Huber sem veitir „Institute for Positive Health“ forstöðu skilgreinir heilsu einstaklingsins á víðan hátt. Hún skiptir heilsu í sex stólpa: Líkamlegt heilbrigði, andlega vellíðan, tilgang, lífsgæði, þátttöku og daglega virkni – lauslega þýtt af undirrituðum og án ábyrgðar.

Undir hverjum stólpa eru nokkur atriði sem saman mynda hann. Undir líkamlegu heilbrigði eru til dæmis eftirfarandi undirflokkar:

  • að líða heilbrigðum
  • að finnast maður vera í góðu formi
  • kvarta undan eða vera með verki
  • svefnmynstur- næringarmynstur
  • líkamlegt ástand
  • líkamsæfingar

Hvern undirflokk ber svo að skoða sérstaklega til að fá heildarmynd af því hvernig maður metur og upplifir eigin heilsu.

Undir stólpanum „Lífsgæði“ er undirflokkurinn „Eiga nóg af peningum“. Eins og með alla hina flokkana er það eigin upplifun og skynjun sem skiptir mestu máli. Það sem einum finnst vera nóg af peningum er langt frá því að vera nóg í huga annars. Og hugsanlega öfugt, það sem einum finnst vera nóg, finnst öðrum alltof mikið.

Hverju sem því líður skipta peningar máli fyrir okkur langflest. Og ég er sammála Dr. Huber í því að peningar tengjast heilsu. Fjárhagslegir erfiðleikar skapa stress og vanlíðan, sem hafa bein áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu.

Eitt það besta sem við konan mín höfum gert varðandi fjármál okkar er að borga jafnt og þétt inn á lánin okkar. Við byrjuðum á lægsta láninu, bílaláni. Festum lága upphæð sem mánaðarlega innborgun á það, upphæðin var svipuð og kostnaðurinn við að fara í bíó einu sinni í mánuði með alla fjölskylduna (miðar og meðlæti). Þessi fasta upphæð hjálpaði verulega til við að greiða upp lánið, höfuðstóllinn lækkaði jafnt og þétt og að lokum greiddum við upp allt lánið.

Síðan réðumst við á næsta lán á sama hátt, nema innborgunin mánaðarlega var nú orðin hærri. Grunnurinn var bíó-fyrir-alla upphæðin, við hana bættist upphæðin sem við vorum að greiða mánaðarlega af fyrsta láninu þegar við byrjuðum að borga það niður.

Við erum nú búin að borga niður lán númer tvö og erum byrjuð á þriðja láninu – húsnæðislán. Innborgunin mánaðarlega samanstendur nú af bíóupphæðinni og reglulegu afborgunum af lánum númer eitt og tvö (sem við erum búin að borga upp). Þessi aðferð hefur gert okkur kleift að lækka og losa okkur við lán jafnt og þétt án þess að þurfa að fórna of miklu.

Við getum haft áhrif á fjárhagsstöðu okkar sama hvar við stöndum og þar með heilsu okkar.

Njótum ferðalagsins!

Categories:

Tags:

No responses yet

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Lifum lengi – betur

Við lögðum af stað þann 9. janúar 2019 í fimm mánaða rannsóknarleiðangur um heiminn til þess að afla okkur þekkingar um langlífi og heilsuhreysti. Haustið 2019 ætlum við að gefa út bók og halda fyrirlestra víða um Ísland og að segja frá því sem við höfum komist að.

https://www.karolinafund.com/project/view/2247