Jafnvægi

Við erum öll með nokkur hlutverk í lífinu og hluti sem við viljum sinna. Vinna eða skóli skipan stóran stess í lífi flestra. Fjölskyldan skiptir sömuleiðis flesta miklu máli. Við bætast áhugamál, að sinna eigin heilsu, sjálfboðaliðaverkefni, stúss í kringum börn, heimilið, félagsstörf og ýmislegt fleira.

Því meira sem er í gangi, því meira máli skiptir að við séum í góðu jafnvægi og höfum stjórn á þessum fjölmörgu þáttum. Það er nefnilega þannig að ef einhver af þessum þáttum er í ójafnvægi, þá smitar það út frá sér yfir í hina þættina. Ef vinnan veldur of miklu álagi og krefsts of mikils tíma, þá nær maður ekki að sinna hinum þáttunum vel. Eigin heilsa er gjarna það fyrsta sem verður út undan, eins galið og það hljómar. Við skerum niður svefntímann, hættum að hreyfa okkur og étum allt sem tönn á festir. Of mikið stress í vinnu kemur líka niður á fjölskyldunni og það er áhugavert. Flestir segja aðspurðir að fjölskyldan skipti þá mestu máli í lífinu. Líka þeir sem vanrækja hana og taka vinnuna fram yfir. Heilsan skiptir alla líka miklu máli. Það vill engin vera veikur, síþreyttur eða alltof þungur. Samt vanrækja margir heilsuna. Allt of margir.

Hvað er til ráða? Tökum á ábyrgð á sjálfum okkur og þeim þáttum lífsins sem við viljum sinna vel. Forgangsröðum og hegðum okkur í samræmi við forgangsröðunina. Ef fjölskyldan er það mikilvægasta í okkar lífi, sinnum henni þá vel. Ef heilsan er okkur mikilvæg, lifum þá heilsusamlegu lífi. Sinnum vinnu eða skóla á þann hátt að það passi við aðra þætti lífsins. Það sem skiptir okkur mestu máli. Ef núverandi vinna hreinlega leyfir það ekki, þá þurfum við að breyta til. Ef við erum nota mikinn tíma í hluti sem eru mjög neðarlega á forgangslistanum okkar, þá þurfum að við að endurhugsa málin. Hugsanlega hætta alveg að sinna þeim.

Ekki velta ábyrgðinni yfir á aðra. Við getum stýrt þessu sjálf. Það lenda allir reglulega í því að taka of mörg verkefni að sér og missa yfirsýnina. Ég lendi sjálfur reglulega í því en er orðinn betri í að forgangsraða, segja nei og gera hluti sem skipta mig og mína mestu máli. Betri í að finna jafnvægið.

Njótum ferðalagsins!

Birtist fyrst í Daglegt líf í Morgunblaðinu, mánudaginn 30. apríl 2018

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *