Leikgleði

Það er að detta í vor á Íslandi, orðið bjart snemma á morgnana, lóan mætt, sumardagurinn fyrsti liðinn og bara nokkrir dagar í að Íslandsmótin í fótbolta hefjist.

Þrátt fyrir að knattspyrnuhallir af ýmsum stærðum og gerðum spretti upp eins og gorkúlur víða um land er fótbolti fyrst og síðast útiíþrótt. Börn, unglingar, fullorðnir og gamalmenni á besta aldri spila fótbolta reglulega.

Ég hef gaman af því að fylgjast með skipulögðum keppnum, horfi á alla landsleiki og mæti á völlinn til að fylgjast með mínum liðum hvort sem það er í sjöunda flokki, þriðja flokki eða meistaraflokki. En ég hef enn meira gaman af fótbolta sem óskipulagðri fjölskylduhreyfingu.

Fótbolti er einföld íþrótt sem allir geta tekið þátt í. Leikurinn gengur bara út á að sparka í bolta og koma honum í mark andstæðinganna. Ég á margar góðar minningar um skemmtilega leiki sem hvorki KSÍ né FIFA skipulögðu:

  • Leikskólakennarar á Birkibæ áttu til dæmis stórleik á móti elstu börnunum á vorhátíð leikskólans árið 2004. Þær unnu leikinn eftir mikla baráttu við krakkana sem gáfu þeim reyndar lítið eftir.
  • Leikur milli foreldra 6. flokks liða Aftureldingar og Fylkis sem fór fram tveimur árum síðar, var sömuleiðis stórskemmtilegur. Bæði fyrir foreldrana og fyrir krakkana sem fannst frábært að skipta einu sinni um hlutverk við foreldra sína og fá að hvetja þá til dáða af hliðarlínunni.
  • Foreldrar 3.flokks Aftureldingar áttu sömuleiðis stórleik gegn ungu atvinnumönnunum sínum á fótboltamaraþoni flokksins í fyrra. Mömmur og pabbar sýndu þar óvænta takta og komu sonum sínum í opna skjöldu með yfirvegun og útsjónarsemi.

Svo er upplagt að tengja fótbolta við ferðalög, við fjölskyldan brutum upp fyrir nokkrum árum ferðalag frá Bjarnafirði á Ströndum í Mosfellsbæ með því að stoppa á öllum battavöllum á leiðinni og spila stuttan leik. Hólmavík, Búðardalur, Bifröst, Borgarnes, Kjalarnes, Mosfellsbær voru leikstaðirnir í mjög eftirminnilegri ferð.

En sá leikur sem ég hvað mest eftir þegar ég hugsa um fótbolta sem fjölskylduíþrótt var leikur innflytjandafjölskyldu í Danmörku. Þau voru fjögur. Pabbi og dóttir á móti mömmu og syni. Ólínustrikaður leikvöllur í Munkemosegarðinum í Óðinsvéum. Glampasól. Brosandi andlit. Leikgleði á hæsta stigi. Við konan mín vorum barnlaus á þessum tíma, en ég man eftir því að hafa hugsað að þetta ætlaði ég sko að gera þegar við myndum eignast börn.

Njótum ferðalagsins!

Birtist fyrst í Daglegt líf í Morgunblaðinu, mánudaginn 23. apríl 2018

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *