Mánudagar gefa gull í mund

Við tökum reglulega umræðu á mínu heimili um hvort sunnudagur eða mánudagur sé fyrsti dagur vikunnar. Við erum ekki sammála og verðum það örugglega aldrei, en í mínum huga er það engin spurning. Vikan byrjar á mánudegi.

Einu sinni átti ég erfitt með mánudagana. Vaknaði þreyttur og var lengi að koma mér í gang. Sagði ekkert fyrr en í fyrsta lagi á hádegi. Í dag eru mánudagar í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég held að það sé mikið til vegna þess að ég upplifi mánudaga sem byrjun. Byrjun á einhverju góðu. Hér skiptir auðvitað máli að hafa gaman af því sem maður er að fást við dags daglega og að upplifa að maður hafi tilgang í lífinu. Ég er ekki bara að tala um atvinnutengd verkefni þótt þau dekki yfirleitt stærstan hluta vikunnar. Ég hlakka til dæmis til þess að skipuleggja æfingar vikunnar og að skutla guttunum mínum í skólann – jú, ég geri það víst. Skutlið tekur í tíma eitt eða tvö góð lög sem við skiptumst á að velja og við náum oft líka góðu spjalli á leiðinni. Lagavalið er fjölbreytt, einn er á kafi í Eurovision, annar í kópvogsku rappi á meðan bílstjórinn velur yfirleitt lög sem voru búin til áður en farþegarnir fæddust.

Ég hlakka til þess að fara í gegnum morgunrútínuna mína, læra eitthvað nýtt og að fara í morgungöngu í skóginum. Ég hlakka líka til vinnutengdu verkefnanna. Langflestra. Ég er svo heppinn að fá að sinna verkefnum sem ég hef gaman af og trúi að skipti máli fyrir þá sem taka þátt í þeim með mér. Það skiptir miklu máli og þegar maður er í þannig aðstöðu er virkilega gaman að vakna á mánudagsmorgnum.

Í dag er mánudagur. Ég hvet þig til þess að upplifa hann sem byrjun á einhverju góðu og gefandi. Góðri viku sem er framundan. Hún verður góð ef þú gefur þér tíma í upphafi hennar til þess að skipuleggja hana og láta þig hlakka til þess sem framundan er. Róleg mánudagsmorgunganga í íslenska vorinu er svo það sem gulltryggir góða byrjun á vikunni.

Njótum ferðalagsins!

Birtist fyrst í Daglegt líf í Morgunblaðinu, mánudaginn 16. apríl 2018

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *