Fjölgum leikjastundunum

Ég er svo heppinn að eiga fjögur börn.  Heppinn segi ég af því að það gerði mig að betri manneskju að eignast börn. Ég var aldrei sérstaklega mikið fyrir börn fyrr en ég eignaðist mín eigin og fæ reglulega að heyra frá yngri systur minni að ég hafi verið frekar leiðinlegur stóri bróðir. Bið hér með opinlerlega forláts á því, litla systir mín kæra. En maður breytir ekki fortíðinni og það þýðir ekkert að velta sér lengi upp úr því sem maður hefði viljað gera öðruvísi.  Málið er að læra af mistökunum og gera betur næst. Þetta er klisja en samt ekki. Þetta er sannleikur og ef maður lítur á þau mistök sem maður gerir –  við gerum öll mistök  – með þeim augum að læra af þeim, þá bætir maður bæði sjálfan sig og aðra í kringum sig.

Ég áttaði mig fyrst á börnum þegar fyrsti sonur minn kom í heiminn fyrir tæpum 22 árum. Það var stór stund og nánast um leið fór mér að finnast önnur börn áhugaverð og skemmtileg. Það var eins og kveikt hefði verið á einhverjum takka í kerfinu hjá mér. Núna pæli ég mikið í börnum sem ég rekst á og hef gaman af því sem þau eru að spá og spekúlera í. Við sem erum orðin fullorðin getum lært mikið af börnum. Þau eru flest opin, óhrædd við að prófa sig áfram og uppgötva nýja hluti. Þau eru í núinu. Vilja leika sér, hreyfa sig og hafa gaman af þeim aðstæðum sem þau eru í. Þau eru, mörg, ófeimin, forvitin og skemmtileg.

Yngsti sonur minn er sjö ára. Hann er alltaf að bralla eitthvað skemmtilegt. Syngur mikið, býr til stórar og miklar íþróttakeppnir, teiknar, skrifar sögur og spilar fótbolta svo fátt eitt sé nefnt. Hann býður okkur foreldrunum nánast alltaf að vera með í því sem hann er að bralla. Stundum stökkvum við til en stundum erum við – eins og fullorðið fólk almennt – of upptekin. Ég er markvisst að vinna í því að fækka uppteknu stundunum og fjölga leikjastundunum af því að ég veit að það gefur okkur báðum mikið. Bæði núna og í framtíðinni. Styrkir okkur sem einstaklinga og sem fjölskyldu.

Njótum ferðalagsins!

Birtist fyrst í Daglegt líf í Morgunblaðinu, mánudaginn 9. apríl 2018

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *