“Lífið er of stutt…”

Ég póst í vikunni frá kunningjakonu minni sem er að hugsa um að skipta um vinnu vegna að þess að aðstæður á vinnustað hennar eru þrúgandi og niðurdrepandi. “Lífið er of stutt til að eyða því á vinnustað þar sem manni líður illa”, sagði hún og ég er henni algjörlega sammála.

Ég hef sjálfur gaman af langflestu sem ég fæst í við í mínum verkefnum. Það er mjög gefandi að fá að sinna því sem maður brennur fyrir og trúir á. Að vinna með fólki sem vill læra, þroskast, breyta og bæta sig. Fólki sem vill ekki bara bæta sjálft sig, heldur líka aðra í kringum sig. Á sama hátt getur verið erfitt fyrir þann sem virkilega trúir á það sem hann hefur fram að færa að vinna með áhugalausu fólki sem er skítsama um það sem maður hefur fram að færa og gefur það skýrt til kynna með látbragði sínu og hegðun.

Ég lendi af og til, ekki oft sem betur fer, í þannig aðstæðum og finnst það alltaf jafn niðurdrepandi. Mér finnst lífið of stutt til þess að nota það í samveru með fólki sem lítur á það sem tímaeyðslu að mæta á vinnustofur eða í verkefni sem ég ber ábyrgð á. Það skiptir mig ekki máli þótt ég fái borgað fyrir þannig verkefni. Það er eiginlega verra, að vera fastur í verkefnum sem gefa tekjur en draga úr lífsorkunni. Þá vil ég frekar fá borgað fyrir verkefni sem skipta mig andlega minna máli. Eitthvað sem ég brenn ekki fyrir en er samt góður í og geri vel. Gamaldags málningarvinna er gott dæmi. Heiðarlega vinna sem snýst um að fegra umhverfi einhvers. Mér finnst gott að grípa í pensil og rúllu öðru hvoru. Fátt toppar að mála stórt þak í brakandi sól og blíðu.

Það eru margir að skipta um starf í kringum mig núna. Nánast eins og það sé opinn félagaskiptagluggi á vinnumarkaðnum. Það er hollt og gott að skipta um umhverfi þegar manni finnst kominn tími til þess. Ástæðurnar geta verið af ýmsu tagi, suma vantar meiri áskorun, aðrir eru að kafna undan álagi. Sumir hafa ekki trú á því sem þeir eru að gera, aðrir upplifa að yfirmenn þeirra hafi ekki trú á þeim. Og svo framvegis.

Knattspyrnumaðurinn Gerard Pique skrifaði áhugaverða grein í gær, fór þar meðal annars yfir félagaskipti sín frá Manchester United til Barcelona sem voru að hans frumkvæði. Heiðarleg, skemmtileg og áhugaverð grein sem snýst um að njóta þess sem maður er að gera, þora, láta í sér heyra og ekki láta neitt eða neina draga sig niður.

Njótum ferðalagsins!

Gaui

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *