Frjálsir föstudagar

Ég reyni að halda föstudögum frjálsum. Forðast að taka að mér verkefni á föstudögum, hvort sem það er þjálfun, fræðsla, ráðgjöf eða annað. Og ég samþykki nánast aldrei fundi á föstudögum. Auðvitað eru undantekningar á þessu, en þær eru mjög fáar og vel valdar.

Hvað geri ég þá á föstudögum? Ég læri, hreyfi mig, hugsa, æfi, fæ hugmyndir, skipulegg mig, forgangsraða, nýt þess að hafa fulla stjórn á því hvað ég geri og hvenær.

Og hvað, má þetta bara? Á maðurinn ekki að stimpla sig inn í vinnu einhvers staðar á föstudögum og stimpla sig svo aftur út seinni partinn? Kannski aðeins fyrr en aðra daga. Nei, maðurinn á það ekki. Hann er búinn að semja þannig við sjálfan sig og aðra að hann getur stillt föstudögunum upp nákvæmlega eins og hann vill. Og hann vill mjög ógjarna láta taka það frelsi af sér.

Í dag er föstudagur. Ég vaknaði snemma, sendi einn vinnutölvupóst (10 mínútur) um fyrirlestur eftir páska. Tók síðan lærdómsrúntinn minn sem tekur um klukkutíma:

  • Grunnatriðin í brasilísku jiu jitsu með Renzo Gracie. Það er fátt notalegra en að heyra röddina í Renzo snemma á morgnana og fylgjast með honum útskýra á einfaldan hátt hvað BJJ gengur út á. Aðalviðfangsefni dagsins: Að komast fram hjá vörn hins (Passing the Guard). Renzo er frábær kennari sem gerir flókna hluti einfalda.
  • Spænska. Upprifjun. Heimilið og starfsheiti. Stuttar lotur þar sem maður hlustar, talar, les og skrifar. Bætir sig dag frá degi, skref fyrir skref. Ekki með þurrum og leiðinlegum utanbókarlærdómi, heldur með því að leysa stutt verkefni. DuoLingo.com
  • Rússneska. Upprifjun. Stafrófið. Líka DuoLingo.com sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Af hverju rússneska? Af því að við erum að fara til Rússlands fjölskyldan í sumar og mig langar til að geta tjáð mig aðeins og skilið eitthvað í máli heimamanna.
  • Liðleiki og styrkur. Bæði fyrir mig persónulega og til að nota í þjálfuninni okkar í Kettlebells Iceland. Ég rakst á GMB Fitness á Facebook. Las mér til um þá og kíkti á nokkur vídeó. Ákvað síðan að kaupa af þeim grunnnámskeið á Netinu. Sé ekki eftir því. Er að læra nýja hluti og það sem ég er ánægðastur með er hvað þeir byrja einfalt, hamra grunninn inn. Alveg eins og Renzo gerir með jiu jitsuið og DuoLingo með tungumálin. Þetta er sú leið sem ég vil fara í mínum lærdómi. Byrja frá grunni, ná honum og byggja svo ofan á hann jafnt og þétt. Ekki hoppa strax út í það nýjasta og ferskasta, oft flókin atriði sem maður nær ekki almennilega af því maður hefur ekki grunninn.

Ég skrifa niður það sem ég læri. Bæði í skrifblokk og í OneNote – set líka myndir þar inn. Það hjálpar mér að muna og rifja upp reglulega.

Ég tók stutta morgungöngu fyrir lærdómsstundina mína og aðra lengri göngu eftir lærdóminn. Pældi um leið í því nýja sem ég hafði lært.

Næst á dagskrá: Hádegisæfing hjá Kettlebells Iceland og eftir hana stúss, reddingar, pælingar, skipulag, körfubolti og sitthvað fleira sem mig langar að gera á þessum frjálsa föstudegi.

Njótum ferðalagsins!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *