“Vond tilfinning að hafa verið lélegt foreldri”

„Minn fortíðardjöfull á rætur sínar í því hvernig ég brást börnunum mínum þegar þau voru lítil, átti engan tíma handa þeim, eyddi honum öllum í að þjóna sjúklegum metnaði vísindamanns sem stóð í þeirri trú að það eina sem skipti raunverulega máli væri að sýna heiminum að hann væri sniðugri en allir aðrir, án tillits til þess hvort hann væri það eða ekki.”

Þetta segir Kári Stefánsson í viðtali við Vísi í lok síðasta árs. Ég þekki Kára ekki persónulega, en ég trúi því þegar hann lýsir því hvað hann sjái meir og meir eftir því að hafa notað jafn lítinn tíma með börnum sínum og hann gerði til þess að uppfylla sína persónulegu drauma.

Mér finnst það virðingarvert af Kára að segja frá þessu og reyna þannig að hafa góð áhrif á unga feður og foreldra sem eru í sömu aðstöðu og hann var á sínum tíma.

En það eru ekki allir sem hugsa svona. Ég las bók eftir Sir Alex Ferguson um daginn. Bókin heitir “Leading”. Þar lýsir Sir Alex því hvernig hann einbeitti sér, nánast frá fyrsta degi sem framkvæmdastjóri fótboltaliðs, að því sem snéri að fótbolta. Og engu öðru. Hann mætti fyrstur á skrifstofuna og fór síðastur heim. Reyndar fór hann ekki heim, heldur á fótboltaleiki öll kvöld og helgar og ferðaðist út um allt Bretland til þess. Hann þakkar í bókinni konu sinni fyrir skilningin á því að taka engan, ég endurtek engan, þátt í uppeldi barna sinna. Hann segir frá því að hann hafi aldrei farið að horfa á syni sína spila fótboltaleiki í yngri flokkunum. Ekki einu sinni. Hann valdi frekar að fara að horfa á leik hjá einhverjum af framtíðarandstæðinum liðsins sem hann var að stýra. Svona varð þetta að vera samkvæmt Sir Alex. Eina leiðin til þess að ná árangri sé að einbeita sér að verkefninu og láta allt annað sitja á hakanum. Ólíkt Kára sér hann því ekki eftir neinu, samkvæmt bókinni allavega.

Ég ætla í næsta pistli að segja frá einstaklingum sem hafa náð miklum árangri á sama tíma og þeir sinntu sínum nánustu vel. Þetta er hægt. Og við getum og eigum að læra af öðrum þótt það geti verið snúið. Við þurfum ekki öll að gera sömu mistökin og sjá síðan eftir þeim, meir og meir, þegar árin bætast við.

Bókin og fyrirlesturinn Njóttu ferðalagsins snúast um að finna jafnvægið milli þess að sinna sjálfum sér, draumum sínum og fjölskyldunni.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *