Árangur byggir á æfingum og framtaki

Ég fer reglulega í gegnum gamlar dagbækur. Hef í mörg ár skrifað niður hvað ég og mínir erum að gera í lífinu og hvað okkur langar að gera. Markmið, drauma og leiðir að þeim.

Mikið af dagbókafærslunum snúast um æfingar.

Færslan á myndinni er frá 2005. Áhugverðast við hana finnst mér að lesa að konunni minni, Völu, þá 35 ára, finnst erfitt að taka upphífingar með fætur uppi á stól. Í dag tekur Vala, 46 ára, upphífingar með aukaþyngd hangandi utan á sér. Það er talsvert miklu erfiðari útgáfa af æfingunni. Eitthvað sem alls ekki margir geta, hvorki karlar né konur.

Lærdómurinn?

Ef þú vilt ná árangri í einhverju, þá þarftu að vinna fyrir því. Þú þarft að æfa þig reglulega. Það skiptir í raun ekki öllu hvað þú ert gömul eða gamall þegar þú byrjar. Aðalmálið er að leggja vinnu í það sem þú vilt gera/geta. Án vinnu/æfinga eru líkur á árangri sama og engar.

Við erum misjafnlega hönnuð frá náttúrunnar hendi, en það kemst enginn langt án þess að æfa sig. Ekki falla í þá gryfju að selja sjálfri þér þá hugmynd að þú getir ekki lært að skíða af því að afi þinn var ekki frá Ísafirði eða þú sért of gömul/gamall til að fara í skóla eða stofna eigið fyrirtæki.

Sestu niður. Pældu í hvað þig langar að geta/gera. Byrjaðu að æfa þig, vinna í verkefninu. Láttu hlutina gerast.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *