(Van)traust

Ég fékk mér mótorhjól í vor. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað ég upplifi traust á annan hátt en mér er eðlislægt þegar ég er á hjólinu.

Mér er eðlislægt að treysta fólki, líka fólki sem ég þekki ekki. Fólk þarf að bregðast þessu trausti til þess að fara í van-traust flokkinn minn.

Einn góður félagi minn er með aðra traust stillingu. Hann vantreystir öllum að fyrra bragði og fólk þarf að vinna sér inn traust hans til að komast í traust flokkinn hans. Og það er ekki auðvelt.

Mér líður eins og honum þegar ég keyri mótorhjólið. Nema hvað það getur enginn í umferðinni unnið sér inn traust mitt. Ég treysti engum, aldrei. Ekki þeim sem keyra fyrir framan mig, ekki þeim sem keyra fyrir aftan mig, ekki þeim sem keyra á móti mér og alls ekki þeim sem keyra við hliðina á mér. Bílstjórar eru svo annars hugar – hugsanlega stundum ég líka þegar ég er bílstjóri – að það væri galið að treysta þeim þegar maður er á meðal þeirra á berskjaldaðra farartæki.

En mér finnst samt ótrúlega gaman að keyra hjólið. Fókusinn er allt öðruvísi en þegar maður keyrir bíl og upplifunin líka. Þannig að ég er ekki að kvarta. Ég held líka að það sé hollt fyrir mig og lærdómsríkt að stíga reglulega inn í umhverfi þar sem ég treysti engum nema sjálfum mér.

Ride on!

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *