Kúvendingar

Ég var að pæla í uppbroti á rútínu í gær, en svo er líka hollt og skemmtilegt að kúvenda hressilega af og til í lífinu.

Breyta alveg um stefnu og stokka spilin upp á nýtt í vinnumálum til dæmis. Það eykur sjálfstraust og víkkar sjóndeildarhringinn.

Velti því fyrir mér þegar ég skrifa þetta hvort konur séu almennt kjarkmeiri en menn þegar kemur að kúvendingum, man í svipinn eftir miklu fleiri konum sem hafa skipt algerlega um atvinnuvettvang. En ég get ekki vísað á neina tölfræði í þessu, þetta er bara tilfinning.

Sú fyrsta sem kemur upp í hugann hætti að vinna í skóla og fór yfir í alþjóðaviðskipti með fiskafurðir, sú næsta hætti hjá hjálparstofnun og byrjaði að vinna fyrir spútnikfyrirtæki í samskiptageiranum, sú þriðja hætti sem sjálfstæð starfandi dagmanna og hóf störf sem framkvæmdastjóri hjá öflugu fyrirtæki í heilsugeiranum. Konurnar voru allir búnar að vera í sínum störfum í þó nokkur ár og umhverfin þeirra áttu ekki vona á þessum kúvendingum þeirra.

En þær vildu breyta, gerðu það og eru allar ánægðar með það í dag. Umhverfið jafnar sig. Það kemur alltaf kona í konu stað og þegar ein hættir einhvers staðar opnast gluggi fyrir aðra.

Áfram veginn, óhrædd við að kúvenda!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *