Vertu fyrirmynd

Pabbar eru fyrirmyndir. Mömmur líka. Og afar og ömmur. Lifandi fyrirmyndir sem börn læra af hvort sem okkur líkar betur eða verr. Læra af því hvað við gerum og segjum, mest af því hvað við gerum.

Þetta er jákvætt að vera fyrirmynd. Skemmtilegt og gefandi hlutverk sem okkur er treyst fyrir.

Afi Ingimundur á Ströndum er ein af mínum fyrirmyndum. Hann lagði mikla áherslu á að menn ættu að rækta líkamann og stunda holla hreyfingu. Ekki bara vinna, borða og sofa eins og margir bændur gerðu á þeim tíma.

Hann tók þátt í að byggja sundlaug í Bjarnarfirði (sem stendur enn), æfði glímu og frjálsar íþróttir og lagði mikla áherslu að afkomendur hans gerðu það líka. Hann var léttbyggður en mjög hreyfanlegur. Ég man eftir því þegar ég var smá gutti að sjá hann glíma við einn af sonum sínum. Sá sveiflaði honum í kringum sig, en alltaf lenti sá gamli á fótunum, lét aldrei ná sér niður þrátt fyrir að vera miklu léttari.

Myndin að neðan er af pabba í langstökkskeppni á Ströndum fyrir fáeinum árum. Afi Ingimundur hefur afar líklega komið að skipulagi keppninnar 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *