Ekki vera hræddur

Við fjölskyldan horfðum í gær á frekar nýlega mynd um Paddington, björninn unga frá myrkviðum Perú sem var sendur til London til að finna sér fjölskyldu.

Ég hafði alltaf gaman af Paddington sem krakki, toppbjörn, góður í sér og uppfinningasamur.

Í myndinni fannst mér sérstaklega ánægjulegt að sjá fjölskyldufaðirinn í London breytast frá því að vera ofverndandi, smámunasamur og leiðinlegur pabbi í að verða, á ný, hress, lifandi, þorinn og lifandi einstaklingur. Hann hafði verið þannig áður en hann eignaðist börn en datt í ofverndunargírinn og festist í honum við að eignast afkvæmi.

Það þurfti lítinn björn frá myrkviðum Perú til að vekja hann aftur til lífsins, gera hann aftur að skemmtilegum pabba sem var ekki hræddur við allt.

Ég tengdi við þetta þegar ég horfði á myndina. Ég þarf reglulega að stíga út fyrir öryggis/hræðsluhringinn sem föðurhlutverkið setur mann í. Málið er bara að það er svo súrt að vera hræddur og fastur í fölsku öryggi. Maður gerir þá ekki neitt nema að passa sig og það er hvorki skemmtilegt fyrir þig eða þá sem eru í kringum þig.

Alveg eins og krakkar verða að fá að klifra í trjám, hlaupa niður brekkur og gera aðra hluti sem þau gætu hugsanlega meitt sig á, verðum við foreldrar stundum að gera hluti sem taka okkur út fyrir öryggishringinn til þess að fá það besta út úr lífinu.

Alveg eins og Paddington.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *