Rétt eða rangt?

Mér finnst gott að borða hráan fisk, Hadda vini mínum finnst það ekki vera matur. Það þýðir ekki að hrár fiskur sé annað hvort veislumatur eða ekki-matur. Það þýðir bara að mér finnst hann góður og honum ekki. Og við þurfum ekki að eyða orku í að sannfæra hvorn annan um að okkar skoðun sé sú rétta. Það væri að fara illa með tíma okkar og orku. Við myndum aldrei ná saman í þessu máli. Þess í stað erum við sammála um að við höfum ólíka sýn á hráan fisk og ágæti hans og þurfum ekkert að ræða það frekar. Ég borða áfram hráan fisk, hann  ekki og við erum áfram vinir.

Það eru allavega tvær hliðar á öllum málum og oftast er hægt að finna ágætis rök fyrir ólíkum skoðunum og leiðum. Það er lýjandi að hafa skoðun á öllu enda óþarfi. Maður þarf ekki að setja sig inn í öll mál eða hafa áhuga á öllu. Hjólastígar, flugvellir, lágvöruverslanir, hænur í borgum, lífeyrissjóðir, nagladekk, dómsmál, gervigras eða alvöru gras. Listinn er endalaus og ef þú ætlar að eyða tíma þínum og orku í að hafa fastmótaða skoðun á öllu sem rætt er um í samfélaginu og svo reyna að sannfæra guð og alla um að þín skoðun sé sú eina rétta, þá gerir þú lítið annað í lífinu.

Hugsanlega er betra að velja það sem virkilega skiptir mann máli og maður brennur fyrir og einbeita sér að því. Láta hitt eiga sig. Slaka aðeins á. Njóta lífsins og leyfa því að flæða betur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *