Gerðu mistök

Maður lærir mest af því að gera mistök. Falla á prófi, taka ranga ákvörðun, mistakast eitthvað sem maður vill virkilega takast.

Svo prófar maður aftur, undirbýr sig enn betur og gerir betur en síðast. Stundum þarf margar tilraunir. Það er allt í lagi ef manni virkilega vill takast það sem maður er að reyna í það og það skiptið.

Það er líka hægt að sleppa því að læra af mistökunum. Gera þau aftur án breytinga eða gefast upp. En það er síðri kostur. Mun síðri en að læra af mistökunum og láta þau bæta mann sem persónu.

Mér hefur oft mistekist og ég hef fallið á prófum. Ég féll til dæmis á ketilbjölluþjálfaraprófi á stóru þjálfaranámskeiði í Danmörku árið 2006. Þrjá daga í röð féll ég á sama prófinu. Tæknin var bara ekki nógu góð og námskeiðið of krefjandi til þess að ég næði að æfa mig fyrir það. Fór heim með fall á bakinu.

En ég á góðar minningar frá því tímabili sem ég notaði til að undirbúa mig fyrir upptökuprófið. Prófið snérist um að gera 56 snatch með 24kg ketilbjöllu án hvíldar. Ég náði mest 55 á prófinu í Danmörku. Vantaði eina endurtekningu.

Ég æfði mig í stofunni, úti í garði og á afviknum stöðum í Mosfellsdal. Alltaf með Greenday lög í bakgrunninum.

Sit around and watch the tube, but nothing’s on

I change the channels for an hour or two

Ég þurfti að æfa mig í margar vikur til þess að ná tækninni almennilega. Tók svo prófið í stofunni í Krókabyggðinni þar sem við bjuggum á þeim tíma og sendi myndbandið út á Pavel Tsatsouline sem var á þeim tíma yfirþjálfari hjá RKC félaginu sem stóð fyrir námskeiðinu og veitti ketilbjölluþjálfararéttindin.

Það var ótrúlega gaman að fá jákvætt svar tilbaka. Miklu betra en ef ég hefði slugsast einhvern veginn í gegnum prófið og náð því án þess að hafa unnið almennilega fyrir því.

Mín skilaboð til allra sem hafa nýlega gert mistök, fallið á prófi eða tekið rangar ákvarðanir: Til hamingju! Nýttu þér reynsluna á jákvæðan hátt. Lærðu. Gerðu betur næst og njóttu síðan þeirrar góðu tilfinningar sem því fylgir að ná árangri eftir að hafa virkilega unnið fyrir honum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *