Ég elska að ferðast. Hef verið svo heppinn að ferðast út um allan heim vegna vinnu og hef komið á staði sem ég hefði örugglega annars ekki heimsótt. Ég hef komið til um það bil 60 landa, held ég, á því ekki nema um það bil 140 eftir.

En eins gaman og fræðandi það er að ferðast til annarra landa, þá ert alltaf gott að koma aftur heim til Íslands. Í samanburði við lönd heims þá erum við forréttindaþjóð. Við höfum miklar náttúruauðlindir, heitt og kalt vatn, fengsæl fiskimið og stórbrotna náttúru. Við búum í samfélagi þar sem öruggt er að ala upp börn. Samfélagi þar sem jafnrétti kynjanna er grunngildi. Samfélagi sem stendur saman þegar eitthvað bjátar á. Samfélagi sem fagnar sigrum saman.

Við getum tuðað og kvartað yfir hinu og þessu og missum okkur stundum í því. En maður velur sjálfur hvort maður tekur þátt í því að kvarta og kveina yfir hlutum sem litlu máli skipta.

Þegar ég dett í kvartgírinn, hugsa ég til landa og svæða þar sem ég myndi ekki vilja ala upp mín börn. Ég hugsa til svæða þar sem fólk þarf að búa inni í víggirtum og vöktuðum svæðum af ótta við rán og líkamsárasir. Svæða þar sem börn mega aldrei vera ein úti að leika. Svæða þar sem ekki er rennandi vatn. Svæða þar sem sérreglur gilda fyrir konur. Svæða þar sem maður þarf alltaf að vera á varðbergi. Það er aldrei betra að koma heim til Íslands en þegar maður hefur verið á slíkum stöðum.

Mín skoðun er sú að í stað þess að nota orku og tíma í að kvarta yfir hlutum sem skipta litlu máli, ættum við frekar að reyna að finna lausnir á stærri vandamálum sem herja á önnur svæði heimsins. Hugsa þetta heildrænt, ekki bara einblína á eyjuna okkar fögru. Með því að stuðla að góðum breytingum annars staðar, hvernig sem við förum að því, bætum við líf okkar sjálfra í leiðinni. Okkar allra.

Njótum ferðalagsins!

Gaui

Categories:

Tags:

2 Responses

  1. Láttu mig vita þegar þið viljið fara til Seychelles og ég er fararstjóri án þáttöku. Leiðbeini og lóðsa, á fullt af vinum þar sem taka opnum örmum á móti ykkur öllum. Þið eigið skilið að fá að vera þar í langan tíma, gefandi það sem þið kunnið 🙂

  2. Glæsilegt! Seychelles hefur lengi verið á óskalistanum. Förum í að skoða möguleika og tækifæri þar 🙂 Gaui

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Lifum lengi – betur

Við lögðum af stað þann 9. janúar 2019 í fimm mánaða rannsóknarleiðangur um heiminn til þess að afla okkur þekkingar um langlífi og heilsuhreysti. Haustið 2019 ætlum við að gefa út bók og halda fyrirlestra víða um Ísland og að segja frá því sem við höfum komist að.

https://www.karolinafund.com/project/view/2247